Namibíski lögmaðurinn, Maren de Klerk, bendlar forseta Namibíu, Hage Geingob, við Samherjamálið svokallaða í Namibíumálinu í yfirlýsingu til ákæruvaldsins þar í landi. Í yfirlýsingunni segir de Klerk að tveir af sakborningunum í Samherjamálinu, Sacky Shangala og James Hatuikulipi, sem sitja á gæsluvarðhaldi og verða ákærðir fyrir að hafa þegið mútur af Samherja, hafi notað sömu félög og þeir notuðu til að millifæra peninga frá íslenska útgerðarfélaginu til að fjármagna ráðandi stjórnmálaflokkinn í landinu, Swapo.
Samkvæmt því sem de Klerk segir kölluðu þeir Sacky og James forseta landsins, Hage Geingob, „The boss“ og segir hann að þeir hafi unnið að undirlagi hans við fjámögnun Swapo. Yfirlýsing de Klerks, sem er 477 blaðsíður, barst til yfirvalda í Namibíu í apríl í fyrra í tengslum við rannsókn málsins. De Klerk vann fyrir Shangala og Hatuikulipi við meðal annars millifærslu fjármuna og verður hann mögulega ákærður fyrir aðkomu sína að málinu. Sökum þess hefur de Klerk verið kallaður „the Fishrot paymaster“ í namibískum miðlum, maðurinn sem millifærði peningana í málinu.
Orðétt segir de Klerk í yfirlýsingunni: „Shangala og Hatuikulipi útskýrðu fyrir mér að þeim hafi verið fyrirskipað, af Hage Geingob forseta, sem þeir kölluðu „stjórann“, að setja upp félaganet til að sjá um útdeilingu fjárframlaga sem greidd höfðu verið til Swapo og ríkisstjórnarinnar af stuðningsmönnum þeirra.“
Kannski stærra og dýpra mál
Yfirlýsing de Klerks bendir til að Samherjamálið, sem kallað er Fishrot á ensku vegna þess að það snýst um spillingu í sjávarútvegi landsins, sem hófst með fréttaflutningi af mútugreiðslum Samherja til áhrifamanna í Namibíu í nóvember árið 2019, sé talsvert stærra í sniðum en hingað til hefur talið og snúist um fleiri fyrirtæki og aðila en íslensku útgerðina.
Upphaf málsins má hins vegar rekja til fréttaflutningsins af mútugreiðslum Samherja til namibísku áhrifamannanna en frekari rannsókn á því kann hins vegar að leiða í ljós ennþá stærra og dýpra spillingarmál en að það snúist eingöngu um greiðslurnar frá Samherja. Málið kann jafnvel að tengjast sjálfum forseta landsins en hann neitar allri vitneskju um málið.
Þeir sem sitja í gæsluvarðhaldi í Namibíu nú gera það hins vegar á grundvelli þess að hafa þegið mútur frá Samherja sérstaklega eins og greint var frá í Kveik, Stundinni og Al Jazeera, á grundvelli gagna frá Wikileaks, í nóvember 2019.
De Klerk: Sömu félögin notuð
Eins og de Klerk lýsir því þá kannaðist hann við nokkur af þeim félögum sem notuð voru í fjármagnsflutningunum í málinu. Eins og segir í yfirlýsingu de Klerks: „Rannsóknin á Samherjamálinu [e. The fishrot investigation] varð opinber í fjölmiðlum í lok nóvember árið 2019. Ég kannaðist við nöfn nokkurra þeirra fyrirtækja sem tengdust þeim atburðum sem leiddu til rannsóknarinnar á málinu.“
Stundin fjallaði um nokkur þessara félaga fyrir skömmu.
Greiðslurnar og viðskiptin sem de Klerk kom að tengdust Samherja hins vegar ekki með beinum hætti jafnvel þó félögin sem Shangala og Hatuikulipi notuðu í fjármagsfærslurnar hafi verið þau sömu í einhverjum tilfellum.
Í kjölfarið talaði de Klerk við yfirmann á lögfræðiskrifstofunni þar sem hann starfar og varð úr að fyrirtækið hafði samband við namibísk yfirvöld út af aðkomu de Klerk að fjármagnsfærslum fyrir hönd Shangala og Hatuikulipi.
Í desember árið 2019 fékk lögmannstofa de Klerks einnig fyrirmæli um það frá namibískum yfirvöldum að halda eftir öllum fjármunum sem Swapo-flokkurinn og James og Sacky áttu og voru í vörslu lögmannstofunnar. Þessi aðgerð var liður í því sem namibísk yfirvöld áttu síðar eftir að gera við sakborningana í Samherjamálinu: Að kyrrsetja eignir þeirra.
De Klerk lendir í vandræðum
Jafnvel þó de Klerk hafi látið yfirvöld vita um aðkomu sína að málinu þá var hann gagnrýndur fyrir það á fundi með namibísku spillingarlögreglunni ACC að hafa gert það seint, eða um miðjan janúar 2020. Í yfirlýsingunni segir hann: „Þegar ég kom á skrifstofur ACC var andrúmsloftið nokkuð fjandsamlegt. Á móti mér tók hópur sjö til átta manna [….] Ég var spurður spurninga sem ég var allsendis ekki viðbúinn. […] tjáði mér að ACC vissi um greiðslurnar sem ég hafði innt af hendi fyrir Shangala og ég varð að útskýra af hverju ég hafði ekki komið til þeirra í nóvember 2019 þegar Samherjarannsóknin var opinberuð í fjölmiðlum.“
De Klerk sagðist hafa talað við stofnunina FIC, eða Financial Intelligence Unit sem er Fjármálaeftirlit Namibíu, og talið að þetta væri nóg. Hann segir hins vegar að eftir á að hyggja hefði hann átt að fara til ákæruvalds með málið.
Í kjölfarið á þessum með nambísku spillingarlögreglunni fékk de Klerk taugaáfall, segir hann í yfirlýsingunni. Hann fór til Suður-Afríku og leitaði sér lækninga og hefur verið þar síðan og hafa yfirvöld í Namibíu gefið út handtökuskipun gegn honum. De Klerk telur hins vegar að hann muni ekki fá réttláta málsmeðferð í Namibíu í ljósi þess að hann er að ásaka forseta landsins um spillingu. De Klerk kann að eiga yfir höfði sér ákæru vegna aðkomu sinnar að málinu og hafa namibísk yfirvöld reynt að fá hann framseldan frá Suður-Afríku.
„Umrætt mál er á viðkvæmu stigi þar sem ríkissaksóknarinn hefur tekið ákvörðun og brátt fer málið fyrir dóm.“
Forsetinn hafnar ásökunum
Í gær sendi forseti Namibíu frá sér yfirlýsingu þar sem hann hafnaði því að hafa vitað um og að tengjast Samherjamálinu. Gengob sagði að ásakanirnar væru „ósanngjarnar“ og „óheppilegar“. „Umrætt mál er á viðkvæmu stigi þar sem ríkissaksóknarinn hefur tekið ákvörðun og brátt fer málið fyrir dóm. Forsetinn mun ekki reyna að grafa undan eða hafa áhrif á gang þessa máls í kerfinu með því að setja fram fullyrðingar opinberlega.“ Geingob segist mögulega tjá sig um málið nánar að réttarhöldunum liðnum.
Samkvæmt uppstillingu namibíska blaðsins The Namibian þá var Geingob „stjóri stjóranna“ í málinu eða „Boss of bosses“, samkvæmt de Klerk, eins og stendur á forsíðunni í dag á ensku. Með þessu orðalagi leggur blaðið út frá ítalska orðalaginu „capo di tutti capi“ sem notað er um háttsettan ráðamann í mafíunni á Ítalíu. Blaðið er því að segja að de Klerk sé að segja að Geingob sé eins konar glæpaforingi í málinu.
Athugasemdir