Eignarhaldsfélagið Samherji Holding ehf., sem meðal annars heldur utan um eignarhald á útgerð Samherja í Namibíu og hlut í Eimskipafélagi Íslands, hefur skipt um endurskoðanda eftir að hafa verið með KPMG sem endurskoðanda í fjölmörg ár. Breytingin á endurskoðanda félagsins kemur fram í gögnum frá ríkisskattstjóra frá því í september síðastliðinn.
Endurskoðandi Samherja Holding ehf. er nú fyrirtæki sem heitir BDO ehf.
Hjá BDO ehf. vinna tuttugu starfsmenn, þar af eru fjórir löggiltir endurskoðendur. Einn af löggiltu endurskoðendunum skrifar undir breytingu á endurskoðanda félagsins á skjali sem sent var til ríkisskattstjóra.*
Til samanburðar voru 266 starfsmenn hjá samstæðu KPMG á Íslandi í lok árs 2018 í 13 starfsstöðvum víða um land.
BDO ehf. er því ekki ein af helstu endurskoðendaskrifstofum landsins eins og til dæmis KPMG, PwC, Ernst og Young eða Deloitte.
Björgólfur Jóhannsson, annar af forstjórum Samherja, hafði ekki svarað spurningu Stundarinnar um af hverju Samherji skiptir um endurskoðanda yfir þessum félögum þegar fréttin var birt. Bæði Björgólfur og Þorsteinn Már Baldvinsson, hinn forstjóri Samherja, er með prókúruumboð fyrir Samherja Holding ehf.
Félag með veltu upp á milljarða
Samherji Holding ehf. á félagið Sæból ehf. sem hefur haldið utan um eignarhald á félögum Samherja á Kýpur sem aftur hafa meðal annars átt félögin í Namibíu sem útgerð Samherja þar í landi hefur verið rekin í.
Sem kunnugt er þá er Samherji nú til rannsóknar í Namibíu og Íslandi vegna mútugreiðslna sem félagið greiddi til áhrifamanna í Namibíu í skiptum fyrir hestmakrílskvóta á árunum 2012 til 2019 eftir að Kveikur, Stundin og Al Jazeera greindu frá þessu í samvinnu við Wikileaks í fyrra. Þá er Samherji einnig til rannsóknar hjá skattayfirvöldum á Íslandi út af erlendum rekstri sínu sem rekin var í gegnum Sæból og óbeint í gegnum móðurfélagið Samherja Holding.
Áður hélt Sæból meðal annars utan um aðra útgerð sem Samherji rak í Afríku, Kötlu Seafood, sem Samherji seldi til rússnesks útgerðarmanns árið 2013 með margra milljarða hagnaði. Tekjur þessarar útgerðar Samherja, sem var með starfsemi í Máritaníu og Marokkó aðallega, námu um 30 til 40 prósentum af heildartekjum Samherja á árunum 2007 til 2013, eða um og yfir 20-30 milljörðum á ári. Því er um að ræða félag sem hefur verið verulega umsvifamikið.
KPMG hefur alltaf verið endurskoðandi þessa félags, frá árinu 2007, þar til nú eða í 13 ár.
Yfirleitt tvær ástæður fyrir breytingu á endurskoðanda
Athygli vekur að hvorki Samherji Holding né Sæbol hafa skilað ársreikningum fyrir árið í fyrra þrátt fyrir að Samherji hf., sem heldur utan um rekstur Samherja á Íslandi og í Færeyjum hafi gert það nú þegar. Endurskoðandi Samherja hf. er Ernst og Young.
Einn sérfræðingur sem Stundin ræddi við um málið sagði að yfirleitt væru tvær ástæður fyrir því að fyrirtæki skipta um endurskoðanda. Fyrirtækið er ósátt við vinnu endurskoðandans, út af einhverri ástæðu, eða þá að endurskoðandinn vill ekki lengur vinna fyrir fyrirtækið, út af einhverri ástæðu eða ástæðum.
Hvorki Samherji Holding né Sæból hafa skilað ársreikningum fyrir síðasta ár þrátt fyrir að frestur til að skila ársreikningum fyrir 2019 sé nú liðinn. Félögin hafa í gegnum árin verið búin að skila ársreikningum á þessum tíma árs.
Stundin náði ekki tali af framkvæmdastjóra KPMG við vinnslu fréttarinnar þar sem hann var á fundi.
*Athugsemd ritstjórnar. Í upphaflegri frétt um málið voru starfsmenn BDO ehf. á Íslandi sagðir vera þrír, líkt og fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins. Eftir að fréttinn var birt hafði almannatengill samband við Stundina og bað um að þessum upplýsingum þar sem 20 starfsmenn, þar af fjórir löggiltir endurskoðendur, væru starfandi hjá BDO ehf., þrátt fyrir að einungis þrír starfsmenn kæmu fram á heimasíðu fyrirtækisins. Ástæða þessa er sögð vera sú að BDO ehf. sé ekki duglegt við uppfæra heimasíðu sína en að þetta verði gert við fyrsta tækifæri.
Athugasemdir