Að rækta besta eintakið af sjálfum sér
Árni Sigfússon, fyrrverandi bæjarsjóri
Einfaldasta birtingarmynd hamingjunnar: Þú vilt stefna í tiltekna átt, þú stefnir þangað og þér finnst þú vera að ná árangri.
Í fegursta búningi er sönn hamingja fyrir mér að vera að rækta besta eintakið af sjálfum sér, vera stöðugt að skapa í sér uppsprettu kærleika sem stækkar við að veita öðrum af henni, að búa yfir innri styrk, sem nær að geisla af sér til annarra. Þannig erum við til dæmis stoð fyrir aðra á erfiðum tímum án þess að týna sjálfum okkur, ofmetnumst ekki yfir eigin árangri, töpum okkur ekki yfir mistökum eða sárum missi. Að geta geislað því góða sem maður býr yfir til umhverfis síns veitir varanlegustu hamingjuna. Þetta er allt hægt að gera án þess að vera væminn.
Mörg stig hamingjunnar
Hjalti Parelius Finnsson myndlistarmaður
Hamingja fyrir mér er huglæg og felst ekki í efnislegum hlutum. Hún hefur mörg stig og er ekki „on/off“ tilfinning. Við berum ábyrgð á eigin hamingju og þurfum að skapa hana sjálf eða bera okkur eftir henni. Að mínu mati felst hún að stórum hluta í að líða vel í eigin skinni. Þá getur maður skapað og gefið af sér. Hamingja eru upplifanir og með hverjum maður deilir þeim. Þær þurfa ekki að vera stórbrotnar eða miklar. Litlu einföldu hlutirnir gefa manni meira en maður heldur.
„Þá getur maður skapað og gefið af sér“
Hamingjan í sköpuninni
Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikkona
Hamingja er tilfinning sem gefur manni gleði og ánægju. Ég er óskaplega venjuleg kona og til að ég hafi grundvöll þá verða ákveðnir hlutir að vera í lagi. Í fyrsta lagi á ég þrjú börn og það skiptir mig öllu máli að þau séu hamingjusöm og allt sé í lagi hjá þeim. Þá er það heilsan, en maður er ómögulegur þegar heilsan er að svíkja mann. En að vera laus við fjárhagsáhyggjur er mikil hamingja líka.
Samband manns við vini og fjölskyldu skipta líka miklu máli þegar kemur að hamingju. Að eiga vini sem sjá mann og heyra og sem sækjast eftir félagsskap manns er hamingjugefandi.
Sköpun skiptir miklu máli í mínu lífi. Ég hef verið blessuð með að vinna í leiklist sem ég elska en eins gefur það mér hamingju að mála og skapa á alla kanta, vera í tónlist og að búa til alls konar hluti.
Að vera sátt við sjálfa mig og þakka fyrir þetta allt er hamingja.
Að leggja rækt við þakklæti
Sirrý Arnardóttir stjórnendaþjálfari
Hamingjan birtist mér eins og andvari, bylgja vellíðunar. Líkami og sál fyllist af hamingjuhormónum. Þá ber að staldra við og fagna hamingjunni.
Oft kemur þetta að lokinni hressandi hreyfingu, gefandi samskiptum eða bara þegar maður nær að staldra við og anda djúpt að sér núinu. Hamingjan birtist mér þegar fólkinu mínu líður vel og það ríkir almenn sátt í kringum mig. Hamingjubylgja kemur líka gjarnan þegar ég er í flæðinu, gleymi mér í verkefnavinnu.
Að leggja rækt við þakklæti skapar hamingjutilfinningu. Hófsemd og nægjusemi er leið að hamingjuríkara lífi.
Hamingjan er fyrir alla, hún er innan seilingar, ókeypis og öllum aðgengileg. Hamingjan er gjarnan lágstemmd og kemur síður ef fólk heimtar hana og krefst mikils.
Að hugsa lífið sem ævintýri
Þorsteinn Bachmann leikari
Hamingjan er að vita ekki hvað gerist næst. Treysta samt og halda áfram. Að skynja tilvistina fremur en að reyna að stjórna henni. Hugsa lífið sem ævintýri, fantastíu, vökudraum. Þegar ég efast, þegar ég held að draumurinn ætti að vera einhvern veginn öðruvísi en hann er, þá stoppar flæðið. Hamingjan hverfur. Eins og barn, sem efast um hvort það sé að leika sér rétt, týnir hamingjunni, týni ég hamingjunni þegar ég efast. Þess vegna finnst mér best að vera bara í flæði, góðu formi, og einsetja mér að skynja fegurðina í öllu, í heildinni. Allt er eitt. „Öll veröldin er leiksvið.“
Athugasemdir