Spillingarlögreglan í Namibíu, Anti-Corruption Commision (ACC), er bjartsýn á að ná að ljúka rannsókn Samherjamálsins í Namibíu fyrir miðjan desember næstkomandi. Frá þessu var greint í namibískum fjölmiðlum i vikunni.
Dómari við dómstól í höfuðborginni Windhoek, Vanessa Stanley, gaf það í skyn í september þegar hún úrskurðaði að sakborningarnar sjö í málinu skyldu verða áfram í gæsluvarðhaldi að ACC fengi ekki lengri tíma en fram í miðjan desember til að ljúka rannsókn málsins. Í kjölfarið, og eftir atvikum, mun það verða sent til ákæruvaldsins ef líklegt má telja að þeir hljóti dóm fyrir lögbrot.
Sjömenningarnir eru sakaðir um að hafa þegið mútugreiðslur frá Samherja í skiptum fyrir að veita íslensku útgerðinni aðgang að hestamakrílskvóta í landinu auk þess sem þeir sakaðir um fjársvik, samsæri og peningaþvætti. Þeir munu hafa setið í gæsluvarðhaldi í eittt ár um miðjan desember. Greint var frá málinu í Stundinni, Kveika og Al Jazeera, í samvinnu við Wikileaks, í nóvember í fyrra.
„En við þurfum að gera hvað við getum til að tryggja að við fylgjum fyrirmælum réttarins“
Á Íslandi tíðkast ekki að sakborningar sitji í gæsluvarðhaldi svo lengi á meðan á rannsókn á málum þar sem þeir liggja undir grun um lögbrot eru til rannsóknar. Miðað við orð dómarans í september þá er ólíklegt að dómstólinn muni framlengja gæsluvarðhaldið að þessum tíma liðnum.
Noa: Flókið mál sem tengist mörgum löndum
Æðsti yfirmaður ACC í Namibíu, Paulus Noa, segir í viðtali við namibíska blaðið The Namibian Sun að stofnunin vinni nú hörðum höndum að því að vera búin að ná utan um málið svo hægt verði að senda það til ríkissaksóknarans í Namibíu fyrir miðjan desember. „Við vinnum að því að tryggja að við höfum sent nauðsynlegar upplýsingar til ríkissaksóknarans Mörtu Imalwa svo hún geti tekið ákvörðun. […] Við verðum að muna það að um er ræða mál sem tengist öðrum löndum. Við erum að tala um mál sem felur í sér í réttarfræðilegar rannsóknir, margs konar eignir og svo framvegis. En við þurfum að gera hvað við getum til að tryggja að við fylgjum fyrirmælum réttarins,“ segir hann.
Noa útskýrði líka í viðtalinu að samskiptin við önnur lönd sem tengjast rannsókninni á Samherjamálinu hafi hægt á rannsókninni þar sem gagnabeiðnir þurfi að vera í ákveðnum lögformlegum farvegi sem fylgja landslögum viðkomandi ríkis.
Í frétt namibíska miðilsins segir að rannsóknir á málinu standi nú yfir í Angóla, Kongó, Zimbabwe, Spáni, Íslandi, Kýpur, Dubaí, Svíþjóð og Noregi. Lítið hefur spurst til þessara rannsókna hér á landi, nema þá auðvitað íslensku rannsóknarinnar á Samherja þar sem sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn eru með réttarstöðu sakborninga.
Ríkislögmaðurinn segir handtökur standa til
Í fréttinni kemur einnig fram, og er vitnað í orð ríkislögmannsins í Namibíu, Ed Marondedze, að til standi að handtaka fólk í Angóla og á Íslandi í tengslum við rannsóknina.
Engar slíkar handtökur hafa hins vegar farið fram á Íslandi og hafa ekki komið fram neinar heimildir fyrir því að þær standi til og verður slíkt að teljast ólíklegt.
Sakborningarnir í Samherjamálinu hafa ekki verið hnepptir í gæsluvarðhald og verður að teljast afar ólíklegt að svo verði úr þessu þar sem það mun væntanlega ekki teljast vera mat ákæruvaldsins að þessir aðilar muni reyna eða geti haft þannig áhrif á gang rannsóknarinnar að gæsluvarðhalds sé þörf.
Athugasemdir