Ekkja Erítreumannsins Andemariam Beyene, fyrsta plastbarkaþegans í heiminum, segir að ítalski skurðlæknirinn Paulo Macchiarini hafi logið því að eiginmanni hennar að ígræðsla á plastbarka myndi lengja líf hans um 8-10 ár. Þetta sagði Macchiarini við Andemariam þrátt fyrir aðgerðatæknin hefði ekki verið rannsökuð eða prófuð á öðrum lífverum áður en hann græddi plastbarkann í Andemariam með hjálp stofnfrumna sem plastbarkinn var baðaður úr til að aðlagast líkama hans. Þetta segir ekkjan, Mehrawit Tefaslase, í skýrslutöku hjá ákæruvaldinu í Svíþjóð sem er hluti af rannsóknargögnunum í plastbarkamálinu.
Macchiarini er ákærður fyrir þrjár líkamsárásir í málinu gegn Andemariam og tveimur öðrum sjúklingum sem hann græddi í plastbarka í Svíþjóð. Allir sjúklingarnir þrír dóu eftir plstbarkaígræðslurnar og hefðu þeir hugsanlega getað lifað lengra lífi og kvalist minna án aðgerðanna þrátt fyrir að þau hafi glímt við sjúkdóma.
Macchiarini neitar sök í málinu.
Öruggt að barkinn myndi virka í 8 til 10 ár
Macchiarini sagði við Andemariam að ef hann vildi sjá börn sín vaxa úr grasi ætti hann að fara í aðgerðina. „Ég segi frá því sem maðurinn minn sagði við mig og hann talaði við þennan lækni [Macchiarini] um aðgerðina. Hann sagði við hann að hann hefði ekki notað þessa aðgerðatækni á manneskjum áður og spurði af hverju hann vildi nota hana á sér […] en þessi læknir sagði að það væri öruggt að plastbarkinn myndi virka í átt til tíu ár og hann sagði líka við manninn minn að það væri séns á því að hann gæti fengið að sjá fallegu börnin sín vaxa úr grasi og það var þess vegna sem maðurinn sagði ok.“
Mehrawit og Andemariam voru búsett á Íslandi þar sem hann lagði stund á nám í jarðfræði. Hann var sendur frá Íslandi til Svíþjóðar sumarið 2011 eftir að krabbamein sem hann var með í hálsi hafði tekið sig upp aftur og læknir hans hér á landi, Tómas Guðbjartsson, vidli athuga hvaða meðferðarúrræði væru fyrir hendi í Svíþjóð
Vitnisburður Mehrawit gegn Macchiarini
Macchiarini er ákærður fyrir þrjár líkamsárásir í málinu gegn Andemariam og tveimur öðrum sjúklingum sem hann græddi í plastbarka í Svíþjóð. Allir sjúklingarnir þrír dóu eftir plastbarkaígræðslurnar og hefðu þeir hugsanlega getað lifað lengra lífi og kvalist minna án aðgerðanna þrátt fyrir að þau hafi glímt við sjúkdóma.
Vitnisburður Mehrawit á að styrkja það ákæruefni að Andemariam hafi haft efasemdir um að fara í aðgerðina en að Macchiarini hefði sannfært hann um að fara í aðgerðina þrátt fyrir þetta, samkvæmt því sem segir í einum lið ákærunnar. Þá á vitnisburður Mehrawit einnig að undirbyggja það mat ákæruvaldsins að heilsa Andemariams hafi hríðversnað eftir aðgerðina.
„Við höfðum von í brjósti en þessi von minnkaði og að endingu drukknaði hún alveg“
Á öðrum stað í yfirheyrslunni er Mehrawit áfram beðin um að útskýra hvernig Macchiarini talaði Andemariam til. „Þetta er eins og ég hef sagt. Þeir sögðu við hann að ef hann færi í þessa aðgerð þá væri það besta niðurstaðan fyrir hann. Hann sagðist efast um þetta og sagði nei en þá sagði hann [Macchiarini] að það væri öruggt að þetta myndi virka og ég sagði að maðurinn minn hefði sagt við lækninn að hann vildi ekki vera tilraunadýr fyrir eitthvað sem ekki hefði verið prófað áður á manneskjum. En læknirinn sagði við hann að þetta væri öruggt. Læknirinn sagði við hann að þetta væri öruggt og að ef þú vilt sjá börnin þína vaxa úr grasi þá áttu möguleika á því eftir þessa aðgerð annars getur þú dáið.“
Eftir sex mánuði hafði Andemariam gefið upp vonina
Í skýrslutökunni hjá sænska ákæruvaldinu lýsir Mehrawit því hvernig Andemariam hafði eiginlega gefið upp alla von um að ná bata um sex mánuðum eftir aðgerðina. Í lok árs árið 2011 og byrjun árs 2012.
Þetta var einungis rétt eftir að grein um aðgerðina á Andemariam hafði verið birt í læknatímaritinu Lancet þar sem öndunarvegur Andemariam með plastbarkanum var sagður vera „næstum því eðlilegur“ var birt í. Greinin var birt í lok nóvember 2011.
Mehrawit segir að tíminn eftir aðgerðina hafi verið mjög erfiður fyrir Andemariam. „Já, þetta var mjög erfiður, mjög erfiður, tími fyrir hann. Læknirinn sagði við hann að það væri öruggt að hann fengi átt til tíu ár en það varð ekki svo heldur var þetta miklu styttri tími. Og sá tími sem hann fékk var heldur ekki venjulegt líf heldur langt frá venjulegu lífi. Hann leið kvalir og hrækti blóði og hann þurfti að vera í stöðugum samskiptum við heilbrigðiskerfið í Svíþjóð til að laga eitthvað í hálsinum á honum. Þannig að þetta var mjög erfiður tími fyrir hann sem manneskju. Hann greiddi það dýru verði og hann greiddi það dýru verði eftir aðgerðina. Hann greiddi fyrir þetta með lífi sínu og þetta var erfitt fyrir okkur öll og þetta var erfitt fyrir mig en mest af öllu var þetta erfitt fyrir hann.“
Mehrawit segir að þau hafi beðið eftir því að Andemariam myndi byrja að líða betur en að um sex mánuðum eftir aðgerðina höfðu þau misst vonina. „Við biðum eftir því að honum myndi byrja að líða betur en eftir um 6 mánuði, cirka 6 mánuði, vissi maðurinn minn að allt væri orðið dimmt. Hann byrjaði að sjá eftir því að hafa farið í þessa stóru aðgerð vegna þess að við sáum að þetta gekk mjög illa. […] Við höfðum von í brjósti en þessi von minnkaði og að endingu drukknaði hún alveg,“ segir Behrawit í skýrslutökunni.
Þessi vitnisburður Mehrawit er merkilegur meðal annars fyrir þær sakir að einu ári eftir aðgerðina, sex mánuðum eftir að Andemariam hafði komist að þeirri niðurstöðu að aðgerðin hefði verið mistök, var haldið málþing í Háskóla Íslands um aðgerðina og henni líst sem árangursríkri og stóru skrefi í sögu læknisfræðinnar. Margir erlendir og innlendir fjölmiðlar fjölluðu um ráðstefnuna.
Á þessum tíma lá hins vegar fyrir að plastbarki Andemariams virkaði ekki sem skyldi og myndi aldrei gera það.
Andemariam lést í febrúar 2014, rúmlega tveimur og hálfu ári eftir aðgerðina.
Eftir að Andemariam lést flutti Mehrawit frá Íslandi til Svíþjóðar ásamt börnum þeirra. Hún býr í dag í smábæ í Dalarna í Mið-Svíþjóð.
Athugasemdir