Swapo flokkurinn, sem hefur verið ráðandi í stjórnmálum Namibíu um áratuga skeið, fékk greiðslur frá útgerðarfélaginu Samherja samkvæmt umfjöllun blaðsins The Namibian í dag. „Milljónir voru greiddar inn á reiknings sem Swapo stjórnar,“ að því er fram kemur í blaðinu.
Heimildir blaðsins herma að greiðslur inn á reikning Swapo flokksins hafi átt sér stað árið 2017, skömmu fyrir landsþing flokksins. Greiðslurnar hafi farið fram í gegnum lögmannsstofu.
Fullyrðing blaðsins stangast á við orð Hage Geingob, forseta Namibíu og leiðtoga Swapo flokksins. Á fundi í höfuðstöðvum flokksins í Windhoek í gær varði hann flokk sinn fyrir ásökunum þess efnis að flokkurinn tengdist spillingarmálum sem snúa að úthlutun fiskveiðikvóta og mútugreiðslum tengdum því. „Swapo flokkurinn fékk engar beinar greiðslur,“ sagði Geingob á fundinum.
Eins og Stundin, Kveikur, Al Jazeera og Wikileaks greindu frá í fyrra sýna gögn hvernig Samherji greiddi skipulega hundruð milljóna króna í mútur til stjórnmálamanna og tengdra aðila í Namibíu, til að fá hestamakrílkvóta sem lagði grunn að stórum hluta hagnaði félagsins undanfarin ár. Hagnaðurinn og mútugreiðslurnar runnu í gegnum net skattaskjóla.
Fyrrum ráðherrar flokksins, Sacky Shanghala og Bernhard Esau, sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins. „Ég held ekki að þeir séu sekir,“ sagði Geingob. „Þeir hafa ekki verið fundnir sekir enn sem komið er. Ég hélt að það væri það sem við köllum „saklaus uns sekt er sönnuð“.“
Athugasemdir