Norska lögmannsstofan Wikborg Rein, sem ráðin var af Samherja til að gera svokallaða rannsókn á Namibíumálinu fyrir hönd útgerðarfélagsins, stefnir að því að ljúka störfum á næstu vikum. Í kjölfarið mun norska lögmannsstofan, sem vinnur fyrir og fær greitt fyrir hina svokölluðu rannsókn frá Samherja, að „útskýra“ málið fyrir yfirvöldum í þeim löndum sem hafa með Namibíumálið að gera. Væntanlega er átt við Namibíu, Ísland og Noreg sem fleiri ríki.
Þetta kemur fram í viðtali við talsmann norsku lögmannsstofunnar, Geir Swiggum, við norska blaðið Fiskeribladet fyrr í vikunni.
Mál Samherja í Namibíu snýst um mútugreiðslur upp á vel á annan milljarð króna sem Samherji greiddi til ráðamanna í Namibíu í skiptum fyrir kvóta í hestamakríl.
Boltinn hjá stjórn Samherja
Í viðtalinu segir Swiggum að niðurstöður Wikborg Rein verði fyrst kynntar stjórn Samherja sem svo ákveði hvað gera eigi við niðurstöðurnar og hvernig eigi að kynna þær, ef þær verða þá kynntar opinberlega. „Það er stjórnin sem ákveður hvernig fyrirtækið ætlar að fara með niðurstöðurnar. Við getum gefið ráð og ábendingar en það er stjórnin sem á þetta ferli og skýrsluna sem við gerum. Stjórnin þarf einnig að taka tillit til annarra hagsmuna en sinna eigin. Til að mynda er það oft okkar upplifun að stjórnvöld í ólíkum löndum vilja ekki endilega fá allar staðreyndir upp á yfirborðið opinberlega sökum þeirra rannsókna sem eiga sér stað í þeim,“ segir Swiggum við Fiskeribladet.
„Skipulögð árás á fyrirtækið frá nokkrum fjölmiðlum“
Segir Namibíuhlutann hafa lotið eigin stjórn
Út frá því sem Geir Swiggum segir í viðtalinu þá má áætla ýmislegt um varnir forsvarsmanna Samherja í málinu. Hann segir umfjöllunina um stórfelldar mútugreiðslur Samherja í Namibíu, sem Kveikur, Al Jazeeera og Stundin greindu frá í samvinnu við Wikileaks, hafa verið „skipulagða árás á fyrirtækið frá nokkrum fjölmiðlum“.
Hann segir að strax í upphafi málsins, í nóvember, hafi stjórnendur og stjórn Samherja sagt að þeir hafi ekki verið meðvitaðir um málið og ásakanirnar og að þar af leiðandi hafi þeir þurft að láta gera athugun á starfseminni í Namibíu. „Starfsemi sem átti sér stað óravegu frá heimaslóðunum og sem var minni í sniðum en starfsemin sem fyrirtækið var með á Íslandi auk þess sem starfseminni var sjálfstýrt (sjelvstyrt) af þeim sem báru ábyrgð á henni í Namibíu,“ segir Swiggum.
Út frá þessu þá virðist ein af vörnum Samherja og Wikborg Rein í málinu vera sú að Jóhannes Stefánsson, sem var framkvæmdastjóri og prókúruhafi yfir rekstrinum í Namibíu, og aðrir sem stýrðu útgerð Samherja í Namibíu hafi borið endanlega ábyrgð á rekstrinum þar og væntanlega mútugreiðslunum. Sá sem tók við Jóhannesi í Namibíu heitir Egill Helgi Árnason og er hann ennþá framkvæmdastjóri Samherja þar í landi en fyrirtækið hefur gefið það út að það sé hætt rekstri í landinu.
Jóhannes: Þorsteinn Már kom með mútulausnina
Jóhannes hefur hins vegar lýst því hvernig Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherji, var sá sem tók eða kom að því að taka allar meiriháttar ákvarðanir í rekstrinum í Namibíu. Meðal annars þeirri ákvörðun hvort og hvernig greiða ætti múturnar í málinu.
Í viðtali við Stundina í fyrra sagði Jóhannes: „Þeir vildu fá peninga til að geta haldið sér gangandi, kannski leyft sér hitt og þetta, þannig að það var James sem bað um að 25 prósent af kvótagjaldinu fyrir Namgomar-kvótann myndi verða greitt í Namibíu og 75 prósent til Dubai. […] Ég lagði þetta bæði fyrir Þorstein og Ingvar og það var síðan á fundi í ágúst 2014, þá komu hérna James, Sacky og Tamson […] Við áttum fyrst fund 20. ágúst 2014 og svo var aftur fundur 22. ágúst. Þá voru bara ég, James og Þorsteinn, hinir strákarnir biðu frammi, og þá segir Þorsteinn að hann sé kominn með leiðina til að þeir geti fengið greitt þessi 75 prósent sem þeir vildu fyrir Namgomar-kvótann frá Kýpur til Dubai. Fyrirspurnin kom frá James en lausnin kom frá Þorsteini Má.“
Hvernig lýsingar Geirs Swiggum um að Namibíuhluta starfsemi Samherja hafi verið „sjálfsstýrt“ þaðan koma heim og saman við þennan vitnisburð Jóhannesar um aðkomu Þorsteins Más Baldvinssonar að þessari starfsemi á væntanlega eftir að koma í ljós.
Mútugreiðslurnar héldu áfram eftir að Jóhannes hætti
Þetta er sama vörn og Samherji kom fram með í upphafi málsins eftir að fjölmiðlar greindu frá því. Þá reyndi Samherji að skella skuldinni á því alfarið á Jóhannes Stefánsson. Hins vegar átti meirihluta mútugreiðslnanna frá Samherja sér stað eftir að Jóhannes hætti hjá Samherja í Namibíu auk þess sem mikill meirihluti greiðslnanna kom frá fyrirtækjum sem Jóhannes stýrði ekki. Meðal annars fyrirtækjum Samherja á Kýpur sem voru með bankareikninga í norska bankanum DNB; bankareikningum sem Jóhannes stýrði ekki.
Hið sama gildir auðvitað um starfsemi Samherja í Namibíu eftir að Jóhannes hætti. Hvernig getur Egill Helgi Árnason, og aðrir sem unnu hjá Samherja í Namibíu, borið ábyrgð á mútugreiðslunum sem greiddar voru frá félögum á Kýpur sem voru ekki í Namibíu og sem þeir stýrðu ekki? Mútugreiðslurnar frá Kýpurfélögunum héldu áfram að berast allt þar til í ársbyrjun í fyrra. Svar við þessari spurningu liggur ekki fyrir eftir lestur viðtalsins við Geir Swiggum.
Tekið skal fram að Þorsteinn Már Baldvinsson hefur ekki ennþá tjáð sig efnislega um málið frá því að sagt var frá því í fjölmiðlum í nóvember fyrir rúmlega hálfu ári síðan. Þorsteinn Már svaraði ekki þeirri spurningu hvort Samherji hefði greitt mútur.
Í lok viðtalsins segir Swiggum: „Nú er planið að ljúka vinnunni við skýrsluna innan nokkurra vikna. Í kjölfarið munum við bjóða yfirvöldum aðstoð okkar við að útskýra málið.“
Í svari við fyrirspurn Stundarinnar um stöðu rannsóknarinnar segir Swiggum ennfremur: „Rannsóknir okkar eru á lokastigi og við munum bráðlega kynna niðurstöður okkar fyrir stjórn Samherja. Í kjölfarið munum við ræða við viðeigandi yfirvöld til að kanna hvernig vinna okkar getur gagnast í frekari samvinnu á milli Samherja og þessara aðila.“
Fréttin var uppfærð með svari Geir Swiggum til Stundarinnar í tölvupósti.
Athugasemdir