Þetta og ekki svo margt fleira er á döfinni næstu vikurnar. Athugið að tímasetningar gætu breyst með stuttum fyrirvara. Allir viðburðirnir eru ókeypis, en hægt er að styðja listamenn með því að kaupa verk þeirra eða plötur á netinu.
Sóttkví #3
Hvar? Víðsvegar
Hvenær? 2. maí kl. 15.00 til 3. maí kl. 20.00
Streymi: Fb-síða Sóttkví 2020
Sóttkví 2020 er viðburðarsería sem hóf göngu sína í mars þegar ljóst var að margir tónleikar myndu falla niður. Á hverjum viðburði kemur fram rjóminn af grasrót tónlistarsenunnar, af hisminu sem fellur utan meginstraumsins og skapar áhugaverðustu tónana. Á þessum þriðja viðburði koma fram 23 hljómsveitir og listamenn. Meðal þeirra eru IDK IDA og MSEA; sú fyrri er dönsk tónlistarkona sem hefur lengi verið virk í íslenskri jaðarsenu, en í flutningi hennar takast á hið vélræna og lífræna; sú síðarnefnda er kanadískur listamaður sem hefur skapað flókinn hugarheim þar sem fegurð og óþægindi tengjast órjúfanlegum böndum.
Kúltúr klukkan 13

Hvar? Menningarhúsin í Kópavogi
Hvenær? 24. apríl kl. 13.00
Streymi: Stundin.is
Nú er komið að lokum seríunnar Kúltúr klukkan 13 þar sem Stundin og Menningarhúsin í Kópavogi hafa haldið uppi virkri dagskrá þrisvar í viku, en þriðja og síðasta GerðarStundin verður streymd 24. apríl. Þar leiða myndlistarmennirnir Bergur Thomas Anderson, Logi Leó Gunnarsson og Una Margrét Árnadóttir skapandi fjölskyldusmiðju.
Heima í Hörpu

Hvar? Harpa
Hvenær? Til 1. maí
Streymi: Fb-síða Hörpu
Harpa, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska óperan taka höndum saman og bjóða upp á lifandi tónlistarstreymi úr Eldborg klukkan 11 flesta morgna á meðan samkomubann varir. Fram undan spilar meðal annars Dúó Edda 24., Nicola Lolli konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Bjarni Frímann Bjarnason píanóleikari 27. og Voces Thules 30. apríl.
Tómamengi

Hvar? Mengi
Hvenær? 25. & 30. apríl & 2. maí kl. 20.00
Streymi: Youtube-síða Mengis
Mengi hefur brugðist við samkomubanninu með því að færa tónleikahald yfir á Youtube-rás sína. 25. apríl stíga paunkararnir í Korter í flog á svið, 30. apríl flytja Daníel Friðrik Böðvarsson, Eiríkur Orri Ólafsson og Matthías Hemstock djass, fönk og rokk, og 2. maí verður verkið Mörk eftir Jóhannes Dagsson og Gunnar Andread Kristinsson flutt.
Mimesis

Hvar? Gallerí Fold
Hvenær? Frá 25. apríl
Streymi: Fb-síða Gallerí Foldar
Vegna samkomubannsins verður opnun einkasýningar Berglindar Svavarsdóttur ekki í persónu, heldur streymt á Facebook-síðu Gallerí Foldar. Áhorfendum er boðið að skyggnast inn í litríkan og heillandi heim í gegnum eins konar stækkunargler þar sem hægt er að fylgjast með plöntum, dýrum og skordýrum heyja sína daglegu baráttu til að komast af.
Borgó í beinni

Hvar? Borgarleikhúsið
Hvenær? 25. & 26. apríl
Streymi: Youtube-síða Borgarleikhússins
Borgarleikhúsið hefur haldið úti beinu streymi af ýmsu efni frá því í mars og heldur því áfram. Hinn 25. apríl les leikarinn Arnar Dan Kristjánsson ævintýrasöguna Þar sem óhemjurnar eru, og þann 26. er skyggnst bak við tjöldin á sýningunni Billy Elliot sem var sýnd 2015. Einnig er hægt að horfa á streymi frá öllum fyrri viðburðum.
Látum okkur streyma

Hvar? Hljómahöll
Hvenær? 29. apríl & 6. maí kl. 20.00
Streymi: FB-síða Hljómahallar
Í hverri viku heldur Hljómahöll tónleika sem verða streymdir á netinu og hjá RÚV, en þar koma fram margar af fremstu hljómsveitum og tónlistarfólki landsins. 29. apríl spilar silkimjúki og viðkunnanlegi R&B tónlistarmaðurinn Auður, en hann gaf nýlega út kynferðisbombusmáskífuna Ljós. 6. maí vaknar kynngimagnaða indí rokk-sveitin Mammút úr dvala.
Leikhúsveisla í stofunni

Hvar? Þjóðleikhúsið
Hvenær? Alla virka daga
Streymi: ruv.is
Þjóðleikhúsið sýnir upptökur af mörgum af ástsælustu leiksýningum síðustu ára. Þar að auki flytja leikarar ljóð fyrir einn áhorfanda (og þjóð í streymi) í Ljóð fyrir einn, leikarar flytja einverk í Einleikarinn og taka viðtöl við hvert annað í Stúdíó Kristall. Einnig er hægt að horfa á Leiksýning verður til, um sýninguna Kardemommubær.
Fjarsjóður þjóðar

Hvar? Listasafn Íslands
Hvenær? Á meðan samkomubannið er í gangi
Streymi: listasafn.is/360
Hægt er að skoða alla sýninguna Fjársjóður þjóðar að heiman, en í henni má finna þjóðlistaverk úr safneign Listasafns Íslands. Búið er að taka myndir af allri sýningunni og er því hægt að ráfa um hana í vefheimum á sama hátt og í persónu.
Hjáleið

Hvar? Veður og vindur gluggagallerí
Hvenær? Til 25. apríl
Streymi: Í persónu
Á sýningunni Hjáleið má sjá verk eftir Helga Má Kristinsson sem líkja eftir umferðarskiltum í mismunandi uppsetningu. Helgi hefur lengi unnið list sem tengja má við abstrakt stefnuna, en á þessari sýningu eru skilti og vegmerkingar settar fram í nýtt samhengi. Skoða má sýninguna í gegnum glugga Hverfisgötu 37.
Athugasemdir