Fjórar af útgerðunum sjö sem krefjast samtals 10,2 milljarða króna í skaðabótabætur frá ríkinu hafa ekki nýtt sér hlutabótaleiðina svokölluðu út af COVID-faraldrinum. Þetta segja framkvæmdastjórar þessara fjögurra útgerða: Ísfélags Vestmannaeyja, Hugins, Vinnslustöðvarinnar og Loðnuvinnslunnar Stundin hefur ekki náð í forsvarsmenn hinna þriggja útgerðanna, Gjögurs, Eskju og Skinneyjar-Þinganess, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Mögulegt er því að engin af útgerðunum hafi nýtt sér hlutabótaleiðina.
Samkvæmt hlutabótaleiðinni geta fyrirtæki sem verða fyrir tekjufalli og samdrætti í starfsemi sinni út af COVID-faraldrinum lækkað starfshlut starfsfólks síns niður í allt að 25 prósent og látið ríkið greiða meirihluta launa viðkomandi tímabundið. Komið hefur fram í Kjarnanum að Samherji hafi nýtt sér hlutabótaleiðina fyrir starfsfólk í fiskvinnslu sinni. Mögulegt er að fleiri stórútgerðir en Samherji nýti sér þessa leið en það hefur ekki komið fram ennþá.
Gæti tekið mörg ár
Skaðabótakröfur útgerðanna sjö hafa vakið mikla athygli í vikunni eftir að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra birti svar um fjárhæðir stefnanna nú um helgina.
Á þessu stigi er óljóst hvernig málunum lyktar og gæti liðið nokkur ár þar til þetta liggur fyrir þar sem málin munu fara fyrir dómstóla ef ekki verður samið um þau áður. Umrætt mál er í rauninni margra ára gamalt þar sem útgerðirnar hafa reynt að sækja rétt sinn um langt skeið.
Vatnaskil urðu í málinu í lok árs 2018 þegar Hæstiréttur felldi dóma þess efnis að Ísfélagið í Vestmannaeyjum og Hugin ehf. hefðu orðið fyrir fjártjóni út af makrílúthlutunum á árunum 2011 til 2018 sem byggðu á reglugerðum sem þáverandi sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, setti. Niðurstaða hæstaréttar var að makrílnum hafi ekki verið úthlutað að fullu út frá veiðireynslu útgerðanna á makríl, líkt og gera hefði átt.
Málið er því ekki nýtt og hefur margoft verið rætt í fjölmiðlum en opinberunin á stefnufjárhæðum útgerðanna sem og COVID-faraldurinn setja málið í nýtt samhengi.
Ríkið stígur niður fæti
Miðað við orð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Alþingi í gær þá telur ríkið sig hafa góðan málstað að verja. Í ræðu á Alþingi í gær sagði hann: „Nú höfum við tekið til varna í þessu svokallaða makrílmáli. Við munum taka til fullra varna og ég hef reyndar góðar væntingar um að við munum hafa sigur í því máli. En ef svo ólíklega vill til að það mál fari ríkinu í óhag þá er það einfalt mál í mínum huga að reikningurinn vegna þess verður ekki sendur á skattgreiðendur. Reikningurinn vegna þess verður þá að koma frá greininni. Það er bara svo einfalt.“
„Við munum taka til fullra varna og ég hef reyndar góðar væntingar um að við munum hafa sigur í því máli“
Með síðastnefndu orðunum virtist Bjarni ýja að því að ef ríkið þyrfti að greiða skaðabætur til útgerðanna þá myndi slíkt leiða til aukinnar gjaldtöku á atvinnuveginn til að fjármagna þann reikning.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kallaði sömuleiðis eftir því að útgerðirnar myndu afturkalla skaðabótakröfurnar. „Þó ég telji að ríkið hafi góðan málstað í þessu máli þá finnst mér eðlilegt að þessi fyrirtæki íhugi það að draga þessar kröfur á til baka. Nú reynir nefnilega á ábyrgð okkar allra,“ sagði Katrín og tengdi kröfugerðina þar með við COVID-faraldurinn.
Tekjusamdráttur en allir í vinnu
Friðrik Már Guðmundsson, framkvæmdast Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, segir að fyrirtækið hafi ekki farið í neinar uppsagnir út af COVID-faraldrinum, fyrirtækið sé með fulla starfsemi: „Ekki eitt stykki hefur farið á hlutabætur,“ segir Friðrik Már. „Það eru ekki almenn smit í samfélaginu hér. Við höfum bara aðlagað okkur að breyttum aðstæðum og breytt vaktafyrirkomulagi i fiskvinnslunni. Auðvitað er tekjusamdráttur, það gefur augaleið. En við aðlögumst því. Enn sem komið er þá er full vinna í fyrirtækinu.“
Aðspurður um hvað honum finnist um þau ummæli forsætisráðherra að útgerðirnar afturkalli skaðabótakröfurnar segir hann: „Það er bara ekkert hægt að segja um þetta á þessu stigi. Auðvitað ráða menn sínum ráðum. Bjarni [Benediktsson] segir að ríkið sé með góðan málstað og það er bara gott mál. En ég vek bara athygli á því að það er alveg óljóst hvernig þetta mál mun fara. Það á eftir að kalla til dómskvadda matsmenn og svo framvegis,“ segir Friðrik.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir að fyrirtækið hafi ekki nýtt sér hlutabótaleiðina og að engum hafi verið sagt upp störfum. Hann segir að fyrirtækið sé á fullu að framleiða fisk sem er óseldur. „Við erum bara að framleiða birgðir sem eru óseldar. Það mun verða tekjusamdráttur, það mun verða verðfall á fiski. Starfsemin hefur verið í fullum gangi í gegnum alla kórónaveiruna,“ segir Sigurgeir, sem aldrei er kallaður annað en Binni. Hann segir að fyrirtækið hafi sent nokkra starfsmenn með undirliggjandi sjúkdóma heim vegna smithættu en að fyrirtækið hafi greitt laun viðkomandi á meðan. „Við höfum ekki nýtt hlutabótaleiðina og vorum að ljúka hérna stórri saltfiskvertíð og náð að halda öllu gangandi hérna,“ segir hann.
Vilji útgerðanna að klára málið eftir lögformlegum leiðum
Páll Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri og einn af hluthöfum Hugins ehf. í Vestmannaeyjum, segir aðspurður að fyrirtækið hafi ekki nýtt sér hlutabótaleiðina. Raunar liggur þetta í augum uppi hvað varðar Huginn þar sem fyrirtækið er ekki með fiskvinnslu í landi líkt og hinar útgerðirnar og lætur aðra frysta fiskinn fyrir sig. Möguleiki útgerða til að nýta sér hlutabótaleiðina snýst fyrst og síðast um starfsfólk þeirra í landi, aðallega í fiskvinnslum. „Spurningin er okkur eiginlega algjörlega óviðkomandi þar sem við erum ekki með neina starfsemi í landi,“ segir Páll. Vinnslustöðin er stærsti hluthafi Hugins með tæplega 50 prósent eignarhlut og er því einn allri stærsti hagsmunaaðilinn í málinu.
„Við búum í réttarríki“
Aðspurður um hvað honum finnist um umræðurnar um skaðabótakröfur útgerðanna sjö segir hann að málið sé í farvegi og að eðlilegast sé að klára það fyrir dómstólum eða með öðrum lögformlegum hætti en ekki í fjölmiðlum. „Við búum í réttarríki og það er vilji til þess að þetta verði klárað þar en ekki í fjölmiðlum. En við skulum sjá til hvernig þetta þróast,“ segir Páll.
Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins í Vestmanneyjum, segir að fyrirtækið hafi ekki og muni líklega ekki nýta sér hlutabótaleiðina. Aðspurður um tekjusamdrátt Ísfélagsins segir Stefán að vissulega hafi orðið tekjufall í rekstrinum en hvaða áhrif það hafi til lengdar liggi ekki fyrir. „Það er erfitt að svara því. Það er samdráttur til skemmri tíma en ég treysti mér ekki til að svara því til lengri tíma litið. Það stendur ekki til að nýtum okkur þessa leið eins og staðan er í dag. Við höfum sagt starfsfólkinu okkar að það standi ekki til að fara í neinar uppsagnir. Hér eru allir í vinnu,“ segir Stefán.
Athugasemdir