Stundin mun á næstu vikum senda út menningarviðburði í samstarfi við Menningarhúsin í Kópavogi. Viðburðirnir verða haldnir klukkan 13 á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum á meðan samkomubanni stendur vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Hægt verður að sjá viðburðina á forsíðu Stundarinnar, á Facebook-síðu Stundarinnar og Facebook-síðu Menningarhúsanna í Kópavogi.
Meðal þeirra sem koma fram í viðburðaröðinni eru Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur, Gerður Kristný skáld, Jógvan, Matti Matt, Vignir Snær, Ragna Fróðadóttir, Andri Snær Magnason rithöfundur, Sigurbjörn Bernharðsson, Halla Oddný, Þorgrímur Þráinsson, Elín Björk Jónasdóttir, Einar Falur, Kordo kvartettinn og Hrönn Egilsdóttir.
Í þessari útsendingu ræða Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur og vísindamiðlari, og Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur, um loftslagsmál, loftgæðamál, veður og veirur. Streymi af viðburðinum verður birt í þessari frétt og á fyrrgreindum Facebook-síðum ásamt forsíðu Stundarinnar. Þá verður upptaka tiltæk á sömu stöðum í kjölfarið.
Eftirfarandi er tilkynning frá menningarhúsunum í Kópavogi um viðburðinn:
Kúltúr klukkan 13 | Á krossgötum
Föstudaginn 27. mars verður Kúltúr klukkan 13 með útsendingu frá Náttúrufræðistofunni í Kópavogi þar sem Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur og vísindamiðlari, og Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur fara um víðan völl í umræðu um loftslagsmál, loftgæðamál, veður og veirur.
Hver er munurinn á loftslagsmálum og loftgæðamálum? Hvaða áhrif virðist yfirstandandi COVID-19 heimsfaraldur vera að hafa á loftslag og loftgæði um víða veröld og hver gæti sú þróun mögulega orðið til framtíðar litið?
Elín Björk er veðurfræðingur með próf frá Oklahómaháskóla og Háskólanum í Ósló og starfar sem hópstjóri veðurþjónustu á Veðurstofu Íslands ásamt því aðð fara með veðurféttir á RÚV. Sævar Helgi er jarðfræðingur og starfar við stjörnufræðikennslu í Menntaskólanum í Reykjavík, vísindamiðlun við Háskóla Íslands og dagskrárgerð í útvarpi.
Athugasemdir