SWAPO flokkurinn í Namibíu tapaði auknum meirihluta sínum í þingkosningum sem fram fóru á miðvikudag. Er þetta minnsta fylgi flokksins í kosningum frá því að hann tók við stjórn landsins árið 1994. Flokkurinn heldur þó völdum og var forsetinn Hage Geingob var endurkjörinn samkvæmt niðurstöðunum sem birtar voru í gær.
Umfjöllun Stundarinnar, Kveiks, Wikileaks og Al Jazeera um mútugreiðslur Samherja til namibískra stjórnmálamanna til að komast yfir fiskveiðiheimildir vakti gríðarlega athygli í aðdraganda kosninga í landinu. Tveir ráðherrar, sjávarútvegsráðherrann Bernhardt Esau og dómsmálaráðherrann Sacky Shanghala, sögðu af sér vegna málsins og voru þeir báðir handteknir ásamt fjórum öðrum.
Í kosningunum fékk SWAPO flokkurinn 63 sæti á þinginu, aðeins minna en tvo þriðju sæta, sem hefur gert flokknum kleift að breyta stjórnarskrá landsins þrátt fyrir andstöðu úr öðrum flokkum. Var það markmið stjórnarandstöðunnar að brjóta á bak þennan aukna meirihluta SWAPO flokksins sem hefur notið mikils meirihluta á þinginu frá 1994 og fékk sitt mesta fylgi í sögunni í síðustu kosningum með 77 af 96 þingsætum.
Geingob var endurkjörinn forseti með 56,3 prósent atkvæða í forsetakosningum, en fylgi hans í síðustu kosningum árið 2014 hafði verið 87 prósent. Óháður frambjóðandi, Panduleni Itula, hlaut 29,4 prósent atkvæða.
„Ég vil þakka Namibíumönnum fyrir að kjósa mig aftur sem forseta,“ sagði Geingob í yfirlýsingu á laugardag. „Ég finn fyrir auðmýkt og lofa að þjóna namibísku þjóðinni af meiri ástríðu og algjörum einhug við að bæta líf íbúanna tilfinnanlega. Ég hef heyrt skilaboðin.“
Athugasemdir