Eðlilega hafa samskipti Samherja og samherja þeirra í Namibíu verið mikið til umræðu eftir að upp um þau komst. Meðal þess fyrsta sem ýmsir ráðamenn virðast hafa áhyggjur af er hvaða áhrif umræðan hafi á orðspor Íslands erlendis. Þessar áhyggjur koma því miður oft upp. Til dæmis þegar bankarnir hrundu og fjöldi hneykslismála komu í ljós þar sem íslenskir auðmenn voru í aðalhlutverkum. Talað hefur verið um eitt stærsta gjaldþrot sögunnar á heimsvísu þegar bankarnir eru lagðir saman. Þá var oft lögð áhersla á að við yrðum að passa okkur á að „tala Ísland ekki niður“. Það gæti haft áhrif á orðspor landsins á alþjóðavettvangi, ekki sóðaskapur þessara manna. Okkur hefur verið sagt að mikil vinna hafi verið lögð í að fara yfir lagabálka og reglugerðir svo þetta geti ekki endurtekið sig.
Þegar Panamaskjölin komu fram, var meðal annars talað um að íslenskir auðmenn hafi átt heimsmet í fjölda aflandsreikninga þegar miðað er við hve fá við erum. Þar á meðal voru ráðamenn þjóðarinnar, svo sem formenn stjórnmálaflokka og fyrrverandi forsætisráðherrar. Viðbrögð urðu lítil, formennirnir sitja enn, en þó var lögð áhersla á að við yrðum að passa okkur á að „tala ekki Ísland niður“, það gæti haft áhrif á orðspor Íslands á alþjóðavettvangi. Þöggunartilburðirnir aftur komnir. Það er ekki ámælisvert að fremja glæp á Íslandi, heldur bara að tala um hann. Þá var líka farið að ræða um að leggja vinnu í að breyta lögum til að koma í veg fyrir að svona endurtæki sig.
Hvert verður orðspor Íslands?
Samherjamálið er nú komið í dagsljósið og ráðamenn sameinast um að „undrast“ og vera „slegnir“. Nú er líka farið að yfirfara lög í þeim tilgangi að bæta þau. Nú er látið fylgja að búið sé að yfirfara ýmis lög og laga. Að við búum við óvenju góð lög á þessu fjármálasviði. Jafnframt er lögð áhersla á að menn passi sig á að „tala Ísland ekki niður“ það geti haft áhrif á orðspor landsins. Einnig hefur fjármálaráðherra bent á að það sem móti áhrifin erlendis sé einkum það hvernig brugðist er við þegar svona skandalar komast upp. Það hafi verið tekið eftir því hve vel var brugðist við eftir „Hrunið“ og aðrar þjóðir jafnvel litið til fordæma frá Íslandi. Það sama eigi við nú, góð og markviss viðbrögð geti bætt upp þann skaða sem annars gæti orðið.
Það er því full ástæða til að skoða hvaða upplýsingar blasa við þeim aðilum erlendis sem á annað borð hafa áhuga á að skoða hvað Íslendingar eru að gera. Hvert ætli orðspor Íslands verði þegar frá líður?
Sjávarútvegur Namibíu hefur verið vanmáttugur og Íslengingar veittu þeim margvíslega og góða aðstoð til að byggja hann upp. Að því loknu og hjálparstarfinu algjörlega óviðkomandi, kom íslenskt stórfyrirtæki í sjávarútvegi sem nú er í fréttum fyrir að hafa borið mútufé á óprútna aðila sem gátu haft áhrif á kvótaveitingar. Stuðst var við fjölda aflandsfyrirtækja til að hylma yfir verknaðinn. Það var ekki fyrr en Wikileaks komst yfir mikinn fjölda gagna sem hægt var að raða púsluspilinu saman og um þessa glæpastarfsemi var fjallað í þættinum Kveik og í Stundinni.
„Hér á landi kepptist ráðherra sjávarútvegsmála hins vegar við að tala um hve miklir og innilegir vinir hann og forsprakki Samherja væru“
Strax daginn eftir að málið hafið verið afhjúpað voru tveir ráðherrar sem tengdust þessum málum í Namibíu látnir segja af sér. Hér á landi kepptist ráðherra sjávarútvegsmála hins vegar við að tala um hve miklir og innilegir vinir hann og forsprakki Samherja væru. Þeir hefðu brallað ýmislegt saman og meðal annars hafi ráðherrann verið stjórnarformaður Samherja. Viðbrögð ráðherrans voru að hann kæmi ekki til með að segja af sér en hann ætlaði þó ekki að hafa afskipti af málefnum sem snertu Samherja. Það er þó stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins sem meðal annars hefur komist upp með að halda á um 15 prósentum af kvóta þjóðarinnar þrátt fyrir að ekkert eitt fyrirtæki megi hafa meira en 12 prósent. Lög og reglur eru vissulega oft í ágætu lagi hjá okkur, vandinn er bara sá að það þurfa ekki allir að fara eftir þeim. Að vísu hefur Sjávarútvegsráðherrann afsakað sig með því að hann sé „að breyta reglugerðinni“. Þrátt fyrir að hann sé í raun vanhæfur til að fjalla um málefni, svo sem aflakvóta, því vinur hans á svona stórt fyrirtæki og óneitanlega snertir flest sem tengist sjávarútvegi það fyrirtæki eins og önnur í þessari grein. Hvers vegna ætti hann líka að segja af sér, samráðherrar hans í ríkisstjórn hafa tjáð sig um að þeir sjái enga ástæðu til að hann segi af sér og það sé ekkert ámælisvert að eiga góða vini. Í leiðinni hefur jafnan verið sussað á þá þingmenn og aðra sem hafa leyft sér að tala um að afsögn væri eðlileg í þessu tilfelli. Skyldu þessi viðbrögð bæta traust á Íslandi erlendis, er ekki meiri manndómur í viðbrögðunum Namibíu?
Misjafnt hafast þeir að
Nú hafa borist fréttir frá Namibíu um að stjórnvöld hafi „fryst“ bankareikninga mútuþeganna tveggja til að tryggja að hægt verði að ná því fé sem þeir hafa fengið á ólöglegan hátt þegar búið verður að rannsaka mál þeirra. Nokkuð sem ætti að teljast eðlilegt og hefur jafnframt verið gert hér á landi þegar minni aðilar hafa átt í hlut. Rætt var um það á þingi að rétt væri að „frysta“ eigur Samherja til að tryggja að hægt væri að innheimta það sem þeir gætu verið dæmdir til að greiða. Það gætu til dæmis verið skattaundanskot og illa fengið fé með öðrum hætti og jafnvel skaðabætur. Þá virtust ráðherrar og þingmenn margir hverjir yfir sig hneykslaðir yfir þeirri ósvífni að nefna svona íþyngjandi aðgerð gagnvart fyrirtækinu.
Fréttir hafa borist af fangelsun í Namibíu og að aðilar málsins í Namibíu séu nú eftirlýstir. Mikið kapp er lagt á að komast til botns í málinu. Hér hefur hvorugt gerst og helst ber á tilburðum ráðherra og sumra þingmanna til að þagga umræðuna niður. Svo ekki sé talað um umfjöllun málgagns útgerðarinnar, Morgunblaðsins, sem reynir að týna til hin og þessi mál til að komast hjá því að fjalla um þetta mál. Ég læt þessi atriði nægja til að benda á muninn á vinnubrögðunum í Namibíu og á Íslandi. Yfirhylmingin með auðmönnunum er algjör. Í öllum bænum hylmum yfir með þeim sem svindla og pretta jafnvel fátækustu þjóðir.
Er nokkur í vafa um hvort ríkið gæti talist réttarríki og hvort þeirra er bananalýðveldið? Svo þykjast sumir ráðamenn vera hissa á að við séum á „gráa listanum“.
Athugasemdir