Útvarpsstöð í Namibíu greindi frá því fyrr í dag að Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, væri nú í haldi lögeglunnar þar í landi. Lögreglan er sögð hafa fært ráðherrann fyrrverandi, Bernhard Esau, til yfirheyrslu.
Þá mun Ricardo Gustavo, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins Namgomar, einnig vera í haldi samkvæmt útvarpsstöðinni. Gustavo var framkvæmdastjóri fyrirtækisins Namgomar sem Samherji fékk kvóta í gegnum á grundvelli milliríkjasamnings við Angóla sem gerður var gagngert til þess að hægt væri að útvega Samherja meiri kvóta. Fyrir þennan kvóta greiddi Samherji hálfan milljarð í mútur til skúffufélags í Dubaí.
Dagblaðið The Namibian segir einnig frá handtökunum.
Þetta gerist í kjölfar opinberunar upplýsinga um að sjávarútvegsráðherrann hafi verið einn þeirra sem tók við stórfelldum mútugreiðslum frá íslenska útgerðarfélaginu Samherja á árunum 2012 til 2019. Stundin greindi frá þessu í samstarfi við Wikileaks, fréttaskýringaþáttinn Kveik í Ríkissjónvarpinu og katörsku sjónvarpsstöðina Al Jazeera í síðustu viku.
Eins og kom fram í umfjöllununum hafa félög í eigu Samherja greitt vel á annan milljarð króna til einstaklinga sem eru tengdir sjávarútvegsráðherranum til að tryggja fyrirtækinu aðgang að fiskveiðikvóta í landinu.
Berhard Esau sagði af sér í síðustu viku ásamt dómsmálaráðherranum Sacky Shangala.
Einn af mönnunum sem þegið hafa greiðslurnar frá Samherja er James Hatuikulipi, stjórnarformaður ríkisfyrirtækis sem heitir Fishcor sem meðal annars úthlutar kvóta til útgerðarfélaga í landinu. Annar sem fengið hefur fengið greitt er frændi James og tengdasonur sjávarútvegsráðherrans, Tamson „Fitty“ Hatuikulipi. Þriðji maðurinn er fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, Sacky Shangala, sem er einn af höfuðpaurunum í skipulagningu viðskiptanna en hann var meðal annars eigandi að einu fyrirtæki sem fékk greitt frá Samherja. Sá fjórði er svo Mike Nghipunya, forstjóri ríkisfyrirtækisins Fishcor.
Þeir sem tekið hafa á móti mútunum frá Samherja sem hafa hætt í opinberum störfum eftir umfjallanirnar eru því Bernhard Esaus, Sacky Shangala og James Hatuikulipi.
Athugasemdir