Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir það lágmarkskröfu að Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í borginni, geri hreint fyrir sínum dyrum varðandi kaup sín á hluti Samherja í Morgunblaðinu. Eins og Stundin hefur greint frá fékk Eyþór 225 milljón króna kúlulán fyrir kaupum á hlutnum sem að miklu leyti hefur verið afskrifað.
Dagur bendir á það í færslu á Facebook að vika sé liðin frá því Samherjaskjölin birtust með samstarfi Stundarinnar, Kveiks, Wikileaks og Al Jazeera. „Morgunblaðið hefur brugðist við með því að fjalla meira um fjórutíu ára gamla biðstöð Strætó við Hagatorg. Ekkert hefur hins vegar verið fjallað um óskiljanleg „viðskipti“ Eyþórs Arnalds eiganda blaðsins og oddvita Sjálfstæðismanna í borgarstjórn sem hefur orðið margsaga um meint viðskipti sín við Samherja á hlut í sjálfu Morgunblaðinu. Ég segi meint því langflest er á huldu um þessa fjármálagjörninga sem teygja sig alla leið í skattaskjólsfyrirtæki Samherja á Kýpur þaðan sem greiðslur til stjórnmálamanna og milliliða í Namibíu komu.“
Dagur segir að Samherjaskjölin varpi nýju ljósi á þetta mál. Saga Eyþórs hefði margbreyst í málinu og nú segði hann Samherja hafa tekið alla áhættu vegna kaupanna með lánveitingunni. Áður sagði Eyþór kaupin vera „alvöru, sjálfstæð viðskipti“ og að enginn hafi gefið sér neitt. Þá bendir Dagur á að Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, hafi sagt í viðtali á Hringbraut að miðað við lýsingar Eyþórs væri um að ræða einhliða niðurfellingu skulda, sem teldist gjöf í skilningi skattalaga og væri því skattskyld.
„Hvenær ætlar Eyþór að gera fulla grein fyrir tengslum sínum við Samherja?“
„Í þessu máli standa eftir ótal spurningar,“ skrifar Dagur. „Af hverju fór Eyþór með hlut Samherja í Morgunblaðinu ef Eyþór tók enga áhættu af viðskiptunum, eins og hann segir nú? Er búið þannig um málið að Eyþóri er í raun ómögulegt að selja hlutinn líkt og hann lofaði fyrir tveimur árum og verður því bundinn Samherja eins lengi og Samherja sýnist? Hvenær ætlar Eyþór að gera fulla grein fyrir tengslum sínum við Samherja? Voru afskriftir Samherja 2018 gjöf eða eftirgjöf skuldar til kjörins fulltrúa og er raunverulegur munur á því? Stendur Eyþór ennþá í skuld við Samherja vegna þessa máls? Eru frekari skuldir við Samherja eða aðra út af öðrum viðskiptum? Af hverju er borið við trúnaði um þessi mál? Hvar liggur trúnaður Eyþórs: við Samherja eða borgarbúa?“
Athugasemdir