Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallaði um lekamálið á fundi nefndarinnar í morgun. Skýrsla nefndarinnar um meðferð trúnaðargagna í stjórnsýslunni og embættisskyldur innanríkisráðherra var afgreidd út úr nefndinni, en þingmenn úr stjórnarmeirihlutanum á Alþingi sögðu sig hins vegar frá málinu og gáfu út yfirlýsingu þess efnis að málinu hafi lokið með áliti umboðsmanns Alþingis sem birt var 8. janúar 2015 og afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrrverandi innanríkisráðherra. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, birti yfirlýsinguna á Facebook-síðu sinni í kjölfarið.
Ögmundur Jónasson, formaður nefndarinnar, segist í samtali við Stundina harma að í nefndinni hafi myndast stjórn og stjórnarandstaða í þessu máli. „Þessi nefnd á að vera hafin yfir pólitísk landamæri,“ segir hann. „Við höfum litið svo á, og starfað á þeirri forsendu, að málið væri víðtækara en það sem umboðsmaður Alþingis fjallaði um. Það fjallar nefnilega um samskipti ráðherrans við Alþingi - það sem sagt var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins og í þingsal. Skýrsla okkar snýr að þeim þáttum.“
Athugasemdir