Nichole Leigh Mosty, þingkona Bjartrar framtíðar, telur að þingsályktunartillaga Bjartar Ólafsdóttur umhverfisráðherra um rammaáætlun samræmist vel markmiðum ríkisstjórnarinnar um vernd miðhálendisins. Á meðal þess sem lagt er til í rammaáætluninni er að Skrokkalda á Suðurlandi færist úr biðflokki yfir í orkunýtingarflokk svo unnt verði að ráðast þar í virkjanaframkvæmdir á næstu árum. Skrokkalda er á miðhálendinu og fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum á svæðinu munu fylgja 1 kílómetra skurður vestan við Sprengisandsleið, hlaðhús, spennir og jarðstrengur.
„Mig langar sérstaklega að fagna því að sú tillaga sem lögð er fram hérna er í góðu samræmi við þá stefnu þessarar ríkisstjórnar að vinna að vernd miðhálendisins. Á miðhálendi Íslands eru einar stærstu óbyggðir Evrópu,“ sagði Nichole þegar rætt var um rammaáætlunina á Alþingi í síðustu viku.
„Verndar- og verðgildi óbyggða fer stöðugt vaxandi þar sem óbyggðum svæðum fer hratt fækkandi á heimsvísu. Hér er því um fágæta og takmarkaða auðlind að ræða.“ Fagnaði hún því sérstaklega að þrjú vatnasvið á hálendinu, Héraðsvötn, Skjálfandafljót og Skaftá, yrðu sett í verndarflokk.
Athugasemdir