Vigdís Hauksdóttir, ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, Pétri H. Blöndal og Árna Johnsen, lögðu fram þingsályktunartillögu árið 2010 um að þjóðaratkvæðisgreiðsla færi fram um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins. Þingsályktunartillagan strandaði í þinginu líkt og mátti búast við þar sem Vigdís og félagar voru í stjórnarandstöðu. Í þingsályktunartillögunni koma þó eftirfarandi orð fram sem lýsa vel viðhorfsbreytingu þingmanna við að fara úr stjórnarandstöðu í ríkisstjórnarsamstarf: „Alþingi eitt hefur vald til að draga umsóknina til baka, en minnt er á að sami þingmeirihluti situr nú og við samþykkt umsóknarinnar.“
„Þetta mál snýst um rétt þjóðarinnar til að segja skoðun sína á því hvort eigi að halda áfram með aðlögunarferlið eða ekki“
„Þetta mál snýst um rétt þjóðarinnar til að segja skoðun sína á því hvort eigi að halda áfram með aðlögunarferlið eða ekki,“ sagði Vigdís svo í umræðu um tillöguna.
Eins og fram hefur komið í fréttum ákvað ríkisstjórnin á dögunum að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið með bréfasendingu án þjóðaratkvæðagreiðslu og án þess að taka málið upp á Alþingi.
Hafa umhverfst í afstöðu sinni
Niðurlag ályktunarinnar hljóðar svo líkt og það komi úr munni núverandi stjórnarandstöðu. „Þjóðaratkvæðagreiðsla er viðurkennd aðferð til að leiða fram þjóðarvilja í mikilvægum málefnum. Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda eigi áfram viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins er brýnt hagsmunamál allrar þjóðarinnar. Allir stjórnmálaflokkar tala fyrir auknu lýðræði og beinni aðkomu þjóðarinnar að ákvarðanatöku, sér í lagi þegar um stór deilumál er um að ræða. Nú reynir á að sýna þann vilja í verki,“ segir í þingsályktunartillögunni.
Breytt afstaða til lýðræðis
Þetta er ekki eina dæmið um að Vigdís segi eitt í stjórnarandstöðu en annað í ríkisstjórnarsamstarfi. Í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni árið 2012 sagði hún til að mynda að skoðakannanir bentu til þess að meirihluti landsmanna vildi ekki að Ísland gengi í Evrópusambandið. „Skoðanakannanir sem við erum búin að vera að horfa á núna í eitt og hálft ár sýna það að landsmenn stíga ekki sama dans og ríkisstjórnin þannig að núna verður meirihlutinn að fara að ráða hér í þessu landi,“ sagði Vigdís þá. Skoðanakönnun sem Fréttablaðið lét gera í lok síðasta mánaðar benti til að um 80 prósent landsmanna vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við Evrópusambandið.
Athugasemdir