Alída Guðmundsdóttir, nemandi í nuddi við Nuddskóla Íslands, segist blöskra hvernig fólk gerir grín að kynferðisáreitni þegar það spyr létt hvort hún stundi „happy ending“ í nuddinu. Hún segist ekki hafa húmor fyrir þessum brandara eftir að hafa lent í því um síðustu helgi að karlmaður í nuddi greip í hana og spurði hvað hún rukkaði fyrir kynlíf. Í gær skrifaði hún stöðufærslu á Facebook sem vakið hefur athygli. Alída hefur aðeins stundað verklegt nám frá því í haust, svo það leið ekki langur tími þar til hún lenti í því að nuddþegi falaðist eftir vændi.
„Þá er maður allt í einu í aðstæðum þar fólk er að grípa í þig og vill kynlíf.“
„Þessi óþægilega lífsreynsla staðfesti fyrir mér hvað það er rangur hugsunarháttur í garð þessarar starfsstéttar. Frá því að ég byrjaði í þessu á seinasta ári þá hef ég ítrekað fengið þetta: „Hvað segirðu? Er ekki „happy ending“?“ Það er verið að segja þetta sagt í djóki en þetta er svo alvarlegt þegar maður er með einum einstaklingi inni í herbergi og er að stunda sína vinnu, sem maður hefur lagt mikið á sig að læra, þá er maður allt í einu í aðstæðum þar sem fólk grípur í þig og vill kynlíf, þetta „happy ending“. Ég bara get ekki tekið þessu djóki lengur og hlegið að þessu eftir að ég lenti í þessu,“ segir Alída í samtali við Stundina. „Happy ending“ í samhengi nudds þýðir yfirleitt að nuddarinn frói kúnna eða veiti honum munnmök.
Nudda bara aðrar konur
Alída segir að á þeim stutta tíma sem er liðinn frá atvikinu um seinustu helgi hafi starfi hennar í þrígang verið líkt við vændi. Hún spyr sig hvort ástæðan fyrir því að hún hafi lent í þessu atviki, sem og þessum bröndurum, sé að hún sé ung kona í þessu starfi. „Við vorum að byrja í nýjum áfanga og ein kona þar, sem er frábær, var að segja að það sé ekki spurning ef, heldur hvenær svona gerist. Við vorum að tala um það í tíma að sumir kvenkyns nuddarar taki bara aðra konur í nudd af því að þær eru búnar að lenda í svo miklu áreiti. Þetta var eitthvað sem ég vissi ekki af áður en ég fór út í þetta, að þetta væri svona mikið vandamál. Ætli þetta komi líka fyrir karlmenn sem eru stórir, stæðilegir og kannski íþróttanuddarar? Ætli þeir fái svona athugasemdir frá fólki, hvort þeir séu að bjóða upp á „happy ending“?“ spyr Alída.
Reyndi að klára nuddið hratt
Hún segir að vandamálið sé ekki einstök atvik eins og þetta sem átti sér stað um helgina þegar hún varð fyrir áreiti nuddþega, heldur orðræðan í kringum starf nuddarans.
Atvikið var engu að síður vissulega óþægileg lífsreynsla. „Ég var ekki beint hrædd, þar sem mér fannst ég hafa stjórn á aðstæðum. Ég ákvað að klára nuddið með ákveðni og sleppti allskonar strokum þar sem mér var farið að líða illa gagnvart þessum einstaklingi, sem var mjög óþægilegur. Ég kláraði þetta fljótt til að koma mér út úr þessum aðstæðum strax. Ég vildi klára þetta sem fyrst þar sem ég vissi ekki hvernig ég ætti að tækla þetta,“ segir Alída. Hún telur ólíklegt að eftir þessa reynslu muni hún taka að sér að nudda karlmann í heimahúsi. „Þetta var svo óþægilegt atvik að ég vil ekki að það komi upp aftur.“
„Af því að ég er ung kona í þessu starfi þá er litið svo á að maður sé með „happy ending“ í gangi.“
Henni finnst verst af öllu þessu hversu algengt það sé að fólk geri lítið úr starfinu. „Þetta er einhver rótgróinn brandari, það er eins og allir viti af þessum brandara og allir fara með hann. Hann er ekki einu sinni fyndinn. Það er miklu meira bak við þetta nám og þú þarft að leggja hart að þér. Fólk sem fer í þetta nám vill gefa af sér og hjálpa fólki. Fólk sem fer í þetta er að gera það af góðum hug og síðan fær það alltaf svona athugasemdir. Ég hef allavega upplifað það þannig. Af því að ég er ung kona í þessu starfi þá er litið svo á að maður sé með „happy ending“ í gangi. Þessi maður trúði því í alvörunni að það væri að fara að gerast, eins og hann ætti bara mjög góðan möguleika á því,“ segir Alída.
Athugasemdir