37 þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins kusu gegn því í morgun að taka umræðu á Alþingi um hvort þingmenn ættu að takmarka launahækkanir sínar við sambærilegar launahækkanir og almenningur hefur fengið frá árinu 2013.
Frumvarp Jón Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, þessa efnis, verður því ekki á dagskrá þingsins í dag. Meðal mála sem á dagskránni eru í dag er samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, staðan í ferðamálum, húsnæði Listaháskóla Íslands, aðskilnaður fjárfestingabanka- og viðskiptabanka og áfengisfrumvarp sjálfstæðisþingmannsins Teits Björns Einarssonar. Talið er að það muni taka stóran hluta af tíma þingsins í dag og jafnvel ýta mörgum öðrum málum til hliðar.
Launahækkun langt umfram almenning
Þingmenn fengu tæplega 45 prósent launahækkun með ákvörðun kjararáðs, sem skipað er af Alþingi, á kjördag, 29. október síðastliðinn, án þess að kjósendur vissu af. Þingfararkaup hafði þá síðasta áratuginn hækkað um 127 prósent á sama tímabili og launavísitala hefur hækkað um 98,6 prósent.
Launahækkun þingmanna var um 338 þúsund krónur í einu skrefi, en samtals er hækkun þingfararkaups tæp 75 prósent frá 2013, á sama tíma og almenn laun hafa hækkað um 29 prósent. Eftir háværa gagnrýni ákvað forsætisnefnd Alþingis að leggja til að skattfrjálsar endurgreiðslur til þingmanna yrðu lækkaðar um rúmlega 100 þúsund krónur.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði í gær „alveg gjörsamlega óþolandi“ að þurfa að taka umræðu um málið á Alþingi, þar sem það ætti að vera í höndum kjararáðs, en sjálfur hefur hann varað við því að Íslendingar „kunni sér ekki hóf þegar vel árar“ og varað við ófriði á vinnumarkaði sem helsta hættuna gegn stöðugleikanum. „Það er við þær aðstæður sem fólk segir: Nei, það þarf að gera svo miklu miklu meira. Þessu er ég bara ósammála ... Mín skoðun er sú að mestu hættumerkin hvað varðar óstöðugleika séu þróun gengisins, annars vegar og hins vegar, staðan á vinnumarkaði. Að það sé friður á vinnumarkaði.“
Samningar gætu verið í uppnámi
Tilefni þess að Jón Þór og Píratar vildu umræðu um málið á Alþingi er að bæði samtök atvinnurekenda og samtök launþega hafa ályktað um að miklar launahækkanir þingmanna og ráðherra skaði komandi kjaraviðræður. Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að „forsendubresturinn [sé] augljós“. Ríkissáttasemjari hefur sagt að framundan sé erfitt ár. Innan viku mun forsendunefnd ASÍ og Samtaka atvinnurekenda skila niðurstöðum um hvort forsendur kjarasamninga haldi eða hvort þeir opnist, með hættu á langvinnum kjaradeilum og verkföllum.
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, hefur sagt að þingmenn hafi orðið eftir á í kjaraþróun frá efnahagshruninu 2008. Hann útskýrði afstöðu sína að greiða atkvæði gegn umræðu um málið með því að það hefði þegar verið fært í farveg. „Við skulum ekki gleyma því að það eru fjórir mánuðir frá því úrskurður kjararáðs féll. Það er algjör fyrirsláttur að tala um að hér séu að koma fram einhverjar nýjar upplýsingar núna. Við höfum vitað um úrskurðinn og við sjáum engar forsendur til þess að menn taki þetta mál upp núna með skyndingu til að reyna að berja sér á brjóst.“
Benedikt vísar þar í að forsætisnefnd Alþingis hefur lagt til að mánaðarlegar skattfrjálsar endurgreiðslur til þingmanna, sem leggjast ofan á ríflega 1,1 milljóna króna mánaðarlaun, verði lækkaðar um rúmar 100 þúsund krónur.
Jón Þór Ólafsson sagði í ræðustóli í morgun að það væri ekki nóg og að Alþingi gæti skapað frið á vinnumarkaði með ákvörðun sinni.
„Við skiptum náttúrlega um skoðun á grundvelli upplýsinga. Nýjar upplýsingar komu fram. Þegar forsætisnefndarleiðin virkaði ekki, eins og aðilar vinnumarkaðarins hafa sagt, þá reynum við aðra leið. Þetta er önnur leið og þetta er leið sem þýðir í rauninni að kjararáð fari að lögum. Ástæðan fyrir því hvers vegna málið kemur fram á þessum tímapunkti er að nú er alveg ljóst og hefur verið sagt að kjarasamningar muni líklega ekki halda. Þetta væri leið til sátta fyrir Alþingi. Alþingi myndi stíga skref í átt til sátta á vinnumarkaði. Það er það sem við getum gert.“
Athugasemdir