Framundan er útdeiling framkvæmdavaldsins í hendur örfárra einstaklinga. Val í ráðherrastóla er um leið úthlutun mestu verðmæta stjórnmálanna sem flestum stjórnmálamönnum er kappsmál að nálgast. Með ráðherrastóli fást völd, áhrif og peningar - auk tækifæra til frekari aukningar á valdi.
Björt Ólafsdóttir er líkleg til að verða ráðherra ef viðræður Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar ganga upp. Fjögurra manna málefnahópar flokkanna hafa fundað fram á kvöld og munu funda fram á nótt. Björt segist í samtali við Stundina vera farin af fundinum. Hún segir að alls óvíst sé að ríkisstjórnin verði til. „Ég hef ekki hugmynd um það. Eða, það er ekki ákveðið. Ég get ekki sagt til um, af eða á, hvort það verði þessi ríkisstjórn eða einhver önnur ríkisstjórn,“ segir hún.
Bjarni Benediktsson er undir mikilli pressu að mynda ríkisstjórn og verður líklega að láta undan kröfum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar ef af ríkisstjórninni á að verða. Val hans í málefnahóp vegna ríkisstjórnarmyndunar er lýsandi fyrir það, þar sem tveir aðstoðarmenn hans og lítið reyndur ritari flokksins mynda málefnahópinn með honum og því verður lítil truflun af íhaldssömum og valdasæknum oddvitum flokksins.
Ef næst saman um ríkisstjórn er líklegt að meðal ráðherra nýrrar ríkisstjórnar verði Björt, Óttarr Proppé, Benedikt Jóhannesson, Hanna Katrín Friðriksson og Þorsteinn Víglundsson, auk þess sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf að finna ólíklega konu í ráðherraembætti.
Verður Óttarr utanríkisráðherra?
Skipting ráðherrasæta í nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er líkleg til að verða jöfn milli stærsta flokksins, Sjálfstæðisflokks, og hinna tveggja. Ef ráðuneyti haldast tíu talsins, eins og nú er staðan, má gera ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkur fái fimm, Viðreisn þrjú og Björt framtíð tvö.
Gera má ráð fyrir því að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar. Tvö ráðuneyti eru í raun nauðsynleg fyrir Viðreisn og Bjarta framtíð til að ná fram helstu stefnumálum sínum. Viðreisn þarf fjármála- og efnahagsráðuneytið og annar hvor flokkurinn þyrfti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
Fyrir utan forsætisráðuneytið eru tvö mikilvægustu ráðuneytin fjármála- og efnahagsráðuneytið og utanríkisráðuneytið. Fastlega má gera ráð fyrir því að Benedikt Jóhannesson, tölfræðingur, fjárfestir og útgefandi, telji sig eiga erindi í fjármálaráðuneytið. Þar er líklegt að hann muni beita sér fyrir lækkun skatta og einföldun á skattkerfinu, líkt og kveðið er á um stefnu Viðreisnar.
Þriðja stóra ráðuneytið, utanríkisráðuneytið, er þá líklegt til að falla hinni alþjóðasinnuðu Björtu framtíð í skaut. Óttarr Proppé, tónlistarmaður og formaður Bjartrar framtíðar, yrði líklegur utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn. Þannig gæti Óttarr vakið athygli á alþjóðavettvangi fyrir klæðaburð, fas og boðskap, líkt og Jón Gnarr, stofnandi Besta flokksins, sem Björt framtíð spratt upp úr. Óttarr hefur sjálfur vakið máls á áhuga sínum á því að skera sig úr erlendis, í samtali við Markaðinn í Fréttablaðinu í fyrra:
„Þegar ég fer á erlenda alþjóðlega fundi, þá finnst mér mikilvægt að ég sé í gulum jakkafötum, að það sé einhver einn í salnum sem sé ekki í gráum jakkafötum. Bara einhverjir svona smáhlutir sem mér finnst skipta máli. Og þó svo að pólitík sé oft voðalega skrítinn vinnustaður þar sem allir eru í vinnu við að vera óvinir, þá eru málin sem eru undir mjög merkileg.“
Með þessu gæti Björt framtíð fjarlægt sig störfum hægri stjórnarinnar að einhverju leyti og svo haldið sig við að taka afstöðu í alþjóðamálum, til dæmis út frá mannréttindum og friði, sem gæti verið besta leiðin til að viðhalda vinsældum flokksins og bæta upp fyrir andstöðu félagshyggjusinnaðs stuðningsfólks flokksins gegn þætti hans í myndun hægrisinnuðustu stjórnar lýðveldissögunnar.
Björt Ólafsdóttir ráðherraefni
Óttarr Proppé er sjálfsagður sem ráðherra Bjartrar framtíðar, þar sem hann er bæði formaður flokksins og fékk sem oddviti í Suðurkjördæmi hlutfallslega mestan stuðning, eða 10,2 prósent. Næsti möguleiki á ráðherrastól er Björt Ólafsdóttir, sem hlaut 7,6 prósent í Reykjavík norður, litlu meira en Nichole Leigh Mosty leikskólastjóri, sem var efst í Reykjavík norður. Björt hefur hins vegar þingreynsluna umfram Nichole.
Nánast öruggt er að Björt sé annað ráðherraefni Bjartrar framtíðar. Þau tvö ráðuneyti sem helst kæmu til greina fyrir Björt eru félags- og húsnæðismálaráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Björt hefur „lagt áherslu á málefni barnafjölskyldna og ungs fólks“, eins og sagt er í umsögn um hana á vef flokksins. „Hún brennur einnig fyrir umhverfismálum og nýrri nálgun í atvinnumálum,“ segir þar einnig.
Björt er með BA-próf í sálfræði og kynjafræði og masterspróf í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands.
Björt var meðal annars formaður Geðhjálpar árin 2011 til 2013, sem endaði með harðri deilu milli hennar og Geðhjálpar. Stjórn Geðhjálpar samþykkti vantrauststillögu á Björt Ólafsdóttur nokkrum dögum áður en hún lét af störfum sem formaður, meðal annars sökuð um „vinavæðingu“, og hóf svo þátttöku í stjórnmálum.
Ein af djarfari hugmyndunum gerir ráð fyrir því að Björt framtíð fái sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, þar sem flokkurinn hefur sett breytingar á landbúnaðarkerfinu og sjávarútvegskerfinu í forgang, þótt þær breytingar hafi ekki verið útfærðar með skýrum hætti. Björt framtíð ætti hins vegar líklega auðveldara með að sigla lygnan sjó með því að eftirláta Viðreisn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og einbeita sér að utanríkismálum og umhverfismálum.
Aðspurð segir Björt Ólafsdóttir að Björt framtíð hafi ekki lagt áherslu á að fá ákveðna málaflokka umfram aðra í viðræðunum. „Það er ekki komið á það stig. Það er ekki tímabært að ræða fyrr en öll málefni eru „in the clear“. Og við erum ekki komin þangað. Ég veit ekki einu sinni hvort ég vilji verða ráðherra. Við erum lítill þingflokkur. Kannski væri Óttarr bara mjög góður forseti þingsins. Eða hvað. Þetta er bara svo ótímabært hjá okkur.“
Vandræðin með Þorgerði Katrínu
Viðreisn á mörg álitleg ráðherraefni af báðum kynjum, þrátt fyrir takmarkaða stjórnmálareynslu þar innanborðs. Nánast er gefið að Benedikt Jóhannesson verði ráðherra, þótt hann hafi aðeins fengið um 6 prósent stuðning í Norðuausturkjördæmi. Hann hefur mikla reynslu úr viðskipta- og atvinnulífinu og er með BS-próf í stærðfræði og hagfræði frá Háskólanum í Wisconsin og bæði masters- og doktorspróf í tölfræði frá Florida State University. Svo lengi sem Sjálfstæðisflokkurinn sættir sig við það verður Benedikt væntanlega fjármálaráðherra. Slíkt myndi falla að grundvallarmarkmiðum Viðreisnar, sem flest snúa að efnahagsmálum. Efnahagsstjórnin er lykillinn að markmiðum Viðreisnar í gjaldmiðilsmálum og húsnæðismálum, sem er stöðugt gengi krónunnar og lækkun vaxta.
Næsta ráðherraefni flokksins, ef miðað er við útkomu kosninganna, væri Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Viðreisn fékk hvergi meira fylgi en í kjördæmi hennar, Suðvesturkjördæmi, tæplega 13 prósent. Þorgerður er hins vegar umdeild, ekki síst vegna þess að hún leyndi hundruð milljóna króna einkahagsmunum sem stönguðust á við almannahagsmuni þegar hún var síðasta ráðherra, meðan eiginmaður hennar hafði tæplega 900 milljóna króna kúlulán fyrir hlutabréfakaupum í Kaupþingi, á sama tíma og hún svaraði harkalega fyrir gagnrýni á bankana sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Slíkt athæfi stríðir gegn þeim siðareglum ráðherra sem nú eru í gildi, en voru ekki í gildi á þeim tíma. Um 8 prósent kjósenda Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi strikaði yfir Þorgerði Katrínu í kosningunum, sem er þriðja hæsta hlutfall allra á eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Gunnari Braga Sveinssyni.
Ef Benedikt og Þorgerður Katrín myndu fá tvo ráðherrastóla Viðreisnar væri í það minnsta einn þingmaður skilinn eftir sem ætti líklega skýrt erindi í ráðherrastól.
Þorgerður Katrín eða Hanna Katrín?
Hanna Katrín Friðriksson, fyrrverandi aðastoðarmaður heilbrigðisráðherrans Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og framkvæmdastjóri hjá Icepharma, er líklegur kandídat í stól heilbrigðisráðherra, þar sem hún myndi beita sér fyrir auknum einkarekstri í heilbrigðisþjónustu og að „hámarka afkastagetu“ kerfisins. Hanna Katrín fékk örlitlu minna fylgi í sínu kjördæmi en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, en mun færri útstrikanir. Hún er því jafnvel talin líklegri sem ráðherra en Þorgerður Katrín, þar sem Þorgerður er umdeild innan beggja samstarfsflokka. Það vekur hins vegar athygli að Benedikt Jóhannesson valdi Þorgerði Katrínu í málefnahóp um stjórnarmyndunarviðræður, en ekki Hönnu Katrínu.
Ekki er þó víst að heilbrigðisráðuneytið falli til Viðreisnar. Vanalega er heilbrigðisráðuneytið vanþakklátt ráðuneyti og óvinsælt, en nú eru horfur á auknum útgjöldum til heilbrigðismála og því hugsanlegt að hægt sé að sigla þar lygnan sjó og jafnvel sækja á.
Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, er einnig líklegt ráðherraefni, en hann er karlmaður eins og formaðurinn og þótt hann hafi fengið 11,6 prósent stuðning í Reykjavík norður er ekki öruggt að hann verði einn af þremur ráðherrum flokksins.
Þorsteinn hefur BA-próf í stjórnmálafræði og próf frá viðskiptaskóla Háskólans í Navarra á Spáni. Auk þess að hafa talað fyrir hönd atvinnurekenda hefur Þorsteinn einnig verið framkvæmdastjóri SAMÁL, Samtaka álframleiðenda, og hefur ítrekað lagst gegn sköttum á fyrirtæki og launahækkunum meðal launþega.
Ef Þorsteinn yrði ráðherra er ekki ólíklegt að hann verði iðnaðar- og viðskiptaráðherra, telji samflokksmenn hans hann ekki vanhæfan vegna starfa sinna fyrir hagsmunaaðila. Hinn valkosturinn væri að hann fengi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og ynni þar að þeim kerfisbreytingum sem Viðreisn hefur boðað.
Það virðist óumflýjanlegt að annað hvort Þorsteinn, Hanna Katrín eða Þorgerður Katrín verði skilin eftir úti í kuldanum. Margt getur haft áhrif á það, til dæmis tengsl þeirra við formann flokksins, ákveðni og metnaður þeirra við að sækjast eftir völdum og svo mögulegir samningar sem kunna hafa verið gerðir við formanninn sem skilyrði fyrir framboði.
Á endanum gæti lendingin í tilfelli Þorgerðar Katrínar orðið að gera hana að forseta Alþingis, stöðu sem fylgja bæði fríðindi og upphefð: hærri laun, bílstsjóri og krafa um þingreynslu. Ekki er hins vegar víst að hún sætti sig við það og því hugsanlegt að Benedikt fórni annað hvort Hönnu Katrínu eða Þorsteini.
Sjálfstæðisflokkurinn karllægur
Nánast er gefið að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra og leiði nýja ríkisstjórn, þótt hann hafi lagt hjarta sitt í fjármálaráðuneytið, einföldun skattkerfisins og uppgreiðslu skulda ríkisins. Benedikt Jóhannesson hæfir fjármálaráðuneytinu líklega of vel til að sleppa því, og stefna Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar í skattamálum fellur afar vel saman.
Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar í vandræðum vegna þess að konur fengu minni framgang í prófkjörum flokksins nú en undanfarin ár. Allt stefnir því í að Sjálfstæðisflokkurinn setji ólíklega konu í ráðherraembætti og/eða sætti sig við að kynjahlutfall verði ekki jafnt í ríkisstjórninni.
Einn þeirra sem ættu að eiga ráðherrastól vísan eru Kristján Þór Júlíusson, núverandi heilbrigðisráðherra. Hann er kennaramenntaður og með skipstjórnarpróf og hefur einna helst víðtækan bakgrunn í sjávarútvegs- og sveitarstjórnarmálum, fyrir utan fjögurra ára ráðherrareynslu. Kristján Þór fékk um 26 prósenta stuðning í Norðausturkjördæmi, minna en flokkurinn fékk á landsvísu en meira en í Reykjavík.
Kristján Þór væri einna helst líklegur í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, ef samstarfsflokkarnir sætta sig við að sá málaflokkur haldist hjá Sjálfstæðisflokknum. Annar kandídat í það ráðherraembætti væri Haraldur Benediktsson, fyrrverandi formaður Bændasamtakanna, en nánast útilokað er að samstarfsflokkarnir sætti sig við að svo íhaldssamur fulltrúi hagsmunaaðila verði ráðherra, enda myndi hann beita sér gegn verulegum kerfisbreytingum í landbúnaðarmálum.
Karlar sem fá ekki í ráðherrastóla
Eitt af því sem vekur mesta athygli í stjórnarmyndarviðræðunum er að Bjarni Benediktsson valdi fjögurra manna málefnahóp Sjálfstæðisflokksins alfarið út frá því hversu handgengnir viðkomandi einstaklingar væru honum sjálfum. Í hópnum eru aðstoðarmenn hans, Teitur Björn Einarsson og Svanhildur Hólm Valsdóttir, ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara flokksins. Hinir flokkarnir byggðu val í hópana á því hversu framarlega í flokknum viðkomandi væru. Með þessu tekur Bjarni valdið til sín frá flokknum og tryggir um leið að verulegar málamiðlanir í átt til kerfisbreytinga verði ekki fyrirbyggðar af íhaldssamari oddvitum flokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og oddviti í Reykjavík norður, verður líklega ekki ráðherra, með rúmlega 24 prósenta stuðning í sínu kjördæmi. Bæði er hann umdeildur eftir styrkjamálið svokallaða fyrir bankahrunið og skýrslumálið með Vigdísi Hauksdóttur fyrr í ár, og svo er hann ekki í innsta hring Bjarna Benediktssonar, auk þess sem Guðlaugur Þór er karlmaður í flokki þar sem helst er leitað konu í ráðherraembætti. Guðlaugur Þór gæti hins vegar fengið formennsku í fjárlaganefnd Alþingis, en hann var áður varaformaður nefndarinnar.
Haraldur Benediktsson, fyrrverandi formaður Bændasamtakanna, sem stuðningsins vegna ætti möguleika á ráðherrastóli, verður varla ráðherra, þar sem hann er karlmaður og stefna hans í landbúnaðarmálum gengur þvert gegn stefnu samstarfsflokkanna í landbúnaðar- og samkeppnismálum.
Páll Magnússon, fyrrverandi fréttamaður og Útvarpsstjóri, ætti hins vegar fulla heimtingu á ráðherrastóli eftir góða útkomu í Suðurkjördæmi, þar sem hann bætti um þremur prósentum við stuðning Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu og komst nálægt sama stuðningi og Bjarni Benediktsson hlaut í sínu kjördæmi. Páll væri líklegur í menntamálaráðuneytið, þar sem hann gæti innleitt þá stefnu gagnvart Ríkisútvarpinu sem hann vildi þegar hann var sjálfur útvarpsstjóri. Það vinnur hins vegar gegn honum að hafa ekki áður setið á þingi og fyrir að hafa, að mati sumra samflokksmanna sinna, ekki staðið sig nægilega vel í fjármálalegum rekstri Rúv. Auk þess situr enn í sumum samflokksmönnum hans að hann skyldi hafa farið fram á afsögn Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra.
Öruggt væri að Ólöf Nordal yrði ráðherra, ef ekki væri fyrir að hún glímdi við veikindi. Hugsanlegt er að hún verði áfram ráðherra en annar aðili fenginn til að sinna embættinu tímabundið. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður hennar og nú annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, er hugsasnlegur staðgengill hennar í ráðherrastóli í innanríkisráðuneytinu, enda vel að sér á sviði ráðuneytisins.
Ólíklegi kvenráðherrann
Bjarni Benediktsson hefur lagt áherslu á að halda jöfnu kynjahlutfalli. Eftir stendur því hver verður ólíklegi kvenráðherra Sjálfstæðisflokksins. Hugsanlegt er að flokkurinn leiti til utanþingsráðherra, þótt flokkurinn hafi fram að þessu haldið völdunum þétt að kjarna flokksins.
Ef ekki gæti Sjálfstæðisflokkurinn brugðið á það ráð að gera ritara flokksins, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, að yngsta ráðherra sögu Íslands, tæplega 26 ára gamalli, ári yngri en Eysteinn Jónsson, sem er yngsti ráðherann fram að þessu. Það myndi gefa nýrri ríkisstjórn ferskari ásýnd og strax opna umræðupunkt um hana á þeim grundvelli að ung kona væri yngsti ráðherra sögunnar í nýrri og framsækinni ríkisstjórn.
Hins vegar vinnur reynsluleysi hennar gegn því. Ef hún yrði ráðherra væri mennta- og menningarmálaráðuneytið líkleg niðurstaða, þótt Áslaug hafi meðal annars verið gagnrýnd fyrir skilaboð sín til barna á kosningavef Krakka-RÚV, þar sem hún sagði mikilvægt að stytta tímann í skólanum og tiltók að heimurinn væri „fullur af peningum“. „Ég var einfaldlega að benda á að það er mikilvægt að fólk nýti tíma sinn vel, ekki endilega til þess að sækja sér peninga, heldur þau tækifæri sem standa til boða. Tíminn er það dýrmætasta sem maður á,“ sagði hún síðar til útskýringar.
Valgerður Gunnarsdóttir, sem var í þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, er annar möguleiki, og þá ekki síst í menntamálaraáðuneytið. Hún er menntuð í íslenskum fræðum og almennum bókmenntum, í kennslu- og uppeldisfræði og svo með diplóma EHÍ í stjórnun og forystu í skólaumhverfi.
Þá gæti ein leið til að jafna kynjahlutfall ríkisstjórnarinnar verið að sleppa Þorsteini Víglundssyni úr ríkisstjórn og setja Þorgerði Katrínu eða Hönnu Katrínu í hans stað. Öðrum kosti gæti Páll Magnússon verið útskiptanlegur, þar sem hann er nýr á þingi, hefur ekki dvalið í valdakerfi flokksins og gæti sætt sig við að vera án ráðherrastóls.
Aðrir möguleikar kalla á Framsókn
Ef Sjálfstæðisflokkurinn gengur ekki að kröfum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, eða flokkarnir tveir gefa ekki verulega eftir af sínum áherslum, mun stjórnarmyndunarumboðið væntanlega færast til Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, með möguleikann á myndun ríkisstjórnar með Pírötum og Samfylkingunni, möguleiki sem Viðreisn segist ekki vilja, og þar sem Björt framtíð myndaði bandalag með Viðreisn virðist Óttarr Proppé stefna í hægri stjórn á Íslandi.
Einnig gæti Björt framtíð myndað ríkisstjórn án Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins, en það myndi kalla á að Framsóknarflokkurinn yrði aftur í ríkisstjórn. Slík stjórn hefði 35 þingmenn gegn 28 og því ríflegan meirihluta. Líklega er þó ekki meiri vilji innan Framsóknarflokks en Sjálfstæðisflokks til að breyta landbúnaðar- og sjávarútvegskerfinu, eða sækja um aðild að Evrópusambandinu.
Aðrir valkostir, að Viðreisn vinni með Pírötum, eða að Vinstri grænir vinni með Sjálfstæðisflokki, krefjast þess að Viðreisn og Vinstri grænir endurskoði afstöðu sína til samstarfs með viðkomandi flokkum.
Viðreisnarstjórn með Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð hefði nauman meirihluta, aðeins 32 gegn 31 þingmanni. Það yrði þó ekki í fyrsta sinn. Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen hafði aðeins eins þingmanns meirihluta frá 1980 til 1983.
Uppsetning ríkisstjórnarinnar gæti orðið öll önnur. Hefð er fyrir því á Íslandi að skipun þingmanna í ráðherraembætti sé óháð þekkingu þeirra og reynslu á viðkomandi sviði.
Svona getur Viðreisnarstjórnin litið út*
1. Forsætisráðuneytið: Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki
2. Fjármála- og efnahagsráðuneytið: Benedikt Jóhanesson, Viðreisn
3. Utanríkisráðuneytið: Óttarr Proppé, Bjartri framtíð
4. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið: Þorsteinn Víglundsson, Viðreisn**
5. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið: Kristján Þór Júlíusson, Sjálfstæðisflokki
6. Mennta- og menningarmálaráðuneytið: Valgerður Gunnarsdóttir, Sjálfstæðisflokki***
7. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið: Páll Magnússon, eða óvænt kona, Sjálfstæðisflokki****
8. Heilbrigðisráðuneytið: Hanna Katrín Friðriksson, Viðreisn
9. Innanríkisráðuneytið: Ólöf Nordal, Sjálfstæðisflokki - mögulega með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem staðgengil
10. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið: Björt Ólafsdóttir, Bjartri framtíð
*Fjölmargar breytur eru orsakavaldar í vali á ráðherrum, bæði persónulegur metnaður, þrýstingur, persónuleg tengsl, kyn, kjördæmi, útkoma úr kosningum, viðhorf samstarfsflokka, samspil, reynsla og þekking eftir málaflokkum. Ein breyting getur raskað allri röðuninni. Val á stjórnendum ráðuneyta ræðst ekki alltaf af þekkingu og reynslu viðkomandi ráðherra á viðkomandi sviði.
** Gæti auðveldlega orðið Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í stað Þorsteins Víglundssonar
*** Gæti einnig orðið utanþingsráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir eða önnur þingkona Sjálfstæðisflokksins
**** Útskiptanlegur fyrir kvenkyns ráðherra, jafnvel utanþings.
Athugasemdir