„Mér fannst það sama eiga að gilda um konur,“ segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, sem hefur á grundvelli fyrri fordæma ákveðið að halda áfram að starfa í bæjarstjórn Kópavogsbæjar og sinna öðrum verkefnum samhliða því að hún gegnir þingmennsku.
Theodóra sinnir nú samtals tveimur stöðugildum, eða 200% starfi, og þiggur laun upp á 2,3 milljónir króna sem kjörinn fulltrúi bæði á landsvísu og sveitastjórnarstigi. Hún segir að þingmennirnir Gunnar Birgisson, Ármann Kr. Ólafsson og Birkir Jón Jónsson hafi einnig setið í bæjarstjórn samhliða þingmennsku. „Ég kynnti mér þetta sérstaklega fyrir kosningar og fór yfir söguna hér í Kópavogi. Það eru fjölmargir bæjarfulltrúar hér í gegnum tíðina sem hafa verið þingmenn og bæjarfulltrúar. Og jafnvel formenn bæjarráðs. Þetta voru, held ég, allt karlmenn.“
Spurning um jafnræði
Nú þegar Theodóra er einnig komin á þing, fyrir utan að vera forseti bæjarráðs og bæjarfulltrúi í Kópavogi, fær hún greiddar rúmar 2,3 milljónir króna á mánuði fyrir störf sín sem kjörinn fulltrúi á vegum almennings.
Meðlimir í bæjarstjórn Kópavogsbæjar fá 33 prósent af þingfararkaupi, formaður bæjarráðs 45 prósent af þingfararkaupi og svo eru greiðslur fyrir að sitja í nefndum. Ofan á rúmlega 1,1 milljón króna í laun sem þingmaður fær Theodóra 15 prósent álag fyrir að vera formaður þingflokks Bjartrar framtíðar. Þá fær hún sem þingmaður ýmsar skattfrjálsar endurgreiðslur og ferðastyrki. Aðspurð er hún ekki viss hversu há laun hún er komin með að viðbættum aukagreiðslum. „Ég þyrfti bara að sjá það þegar mánaðarmótin koma, hvernig það er.“
Theodóra telur það spurningu um jafnræði að hún sinni þingmennsku samhliða öðrum störfum.
„Mig langar til þess að vera hér áfram bæjarfulltrúi. Það er bara eins og allir aðrir. Mér finnst það bara út frá jafnræði. Þegar einhver getur verið læknir eða skólastjóri eða hvað sem er, í 100 prósent starfi, finnst mér það alveg eiga við það að vera þingmaður. Það er auðvitað þannig að ráðherrar eru í 100 prósent starfi sem ráðherrar og líka þingmenn. Og ég talaði alveg skýrt um þetta fyrir kosningar. Ég var margspurð að þessu.“
Segir óljóst með heimildina til að hætta
Theodóra telur því eðlilegt að sinna starfi í bæjarstjórn samhliða öðru starfi.
„Það er eins og alls staðar á landinu. Fólk er alls staðar á landinu í 100% starfi. Það er gert ráð fyrir því í sveitarstjórnarlögum.“
Hún vísar í lagagrein þessa efnis. Í sveitarstjórnarlögum er gert ráð fyrir að sveitarstjórnarmenn hafi heimild til fjarveru úr starfi til þess að sækja fundi á vegum sveitarstjórnar: „Sveitarstjórnarmaður á rétt á fjarveru úr starfi að því leyti sem honum er nauðsynlegt til að sinna lögbundinni mætingarskyldu á fundi í sveitarstjórn, hjá nefndum sveitarfélagsins og á aðra fundi sem hann hefur verið kjörinn til að sækja fyrir hönd sveitarstjórnar.“
Í lögum um þingsköp Alþingis er hins vegar kveðið á um mikilvægi starfs þingmanna: „Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni.“
Spurð hvort hún telji réttlætanlegt, út frá stöðu hennar og skyldum sem þingmaður, að sinna öðrum stöðum samhliða, segist hún myndu draga úr skyldum sínum hjá Kópavogsbæ.
„Ég er að fóta mig í þessu og sjá hvernig þetta gengur upp. Ég hugsa að ég dragi svo sem eitthvað úr,“ segir hún.
Auk starfa fyrir Kópavogsbæ og Alþingi situr Theodóra í stjórn Isavia sem kjörinn fulltrúi Kópavogsbúa. Það er best launaða stjórnarsetan hjá opinberu fyrirtæki. Hún ætlar að víkja úr þeirri stjórn eftir aðalfund sem vænta má eftir um tvo mánuði. Greiðslur fyrir stjórnarsetu í Isavia eru einar og sér 160 þúsund krónur á mánuði. „Svo er helmingurinn tekinn af mér í skatt náttúrulega,“ segir hún.
Launahækkun bæjarfulltrúa til umræðu
Grunnlaun alþingismanna voru hækkuð um 340 þúsund krónur á kjördag, 29. október síðastliðinn, upp í rúmlega 1,1 milljón krónur. Greiðslur fyrir störf bæjarfulltrúa í Kópavogi eru reiknaðar út sem hlutfall af þingfararkaupi frá því fyrir hækkun kjararáðs á þingfararkaupi. Því er til umræðu í bæjarstjórninni hvort hækka eigi greiðslur samkvæmt því. Theodóra segist hafa verið andsnúin því að hækka laun bæjarfulltrúa með þeim hætti á fundi forsætisnefndar bæjarstjórnar síðasta þriðjudag. Hún vilji fremur launahækkanir tengdar launavísitölu.
Theodóra segist hafa tekið ákvörðun um störf sín áður en kjararáð hækkaði þingfararkaup. „Þetta var áður en að laun hækkuðu hjá kjararáði. Svo komu þær skýringar frá kjararáði að þeir væru að hækka þetta með þeim hætti til þess að þingmenn gætu sinnt þessu algerlega. Þetta er bara eitthvað sem ég ætla að reyna.“
Þá segist Theodóra óviss um hvort hún hafi lagalega heimild til að segja sig frá bæjarstjórn. „Ef ég ætla að segja af mér, sem fulltrúi í sveitarstjórn, þarf ég að gefa ákveðna skýringu á því, flytja úr sveitarfélaginu eða einhverjar aðrar skýringar. Ég veit ekki hvort lögin leyfi það að maður segi af sér af því að maður gerist þingmaður, að það dugi slík skýring.“
Athugasemdir