Fjörugar umræður um ESB-upphlaupið hafa farið fram á samfélagsmiðlunum í dag og ótal stjórnmálaspekúlantar lagt orð í belg. Á meðal þeirra eru stjórnmálafræðingarnir Eiríkur Bergmann Einarsson, Birgir Hermannsson og Ólafur Þ. Harðarson. Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingkona, segir brýnt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd láti málið til sín taka, meti hvort um brot á lögum um ráðherraábyrgð sé að ræða og hvort kalla þurfi saman landsdóm.
Eiríkur er forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst og hefur rannsakað þróun Evrópusambandsins um árabil. Hann skrifar á Facebook:
Það eina sem raunverulega gerðist í gær er að ríkisstjórnin hætti við að afturkalla aðildarumsóknina að ESB á Alþingi. Það eru hin stóru tíðindi sem fólk og fjölmiðlar virðast hafa misst af. Að minni hyggju eru hér stórtíðindi á ferð. Ríkisstjórnin sættir sig við að í gildi sé þingsályktunartillaga sem feli henni að sækja um aðild að ESB og standa í þeim viðræðum. Bréfið segir aðeins að hún ætli ekki að vinna samkvæmt þeirri þingsályktun sem þó er í gildi. Hún ætli sér að vera þingsályktunarbrjótur. Ísland er því áfram umsóknarsríki að ESB í þeim skilningi og ætti samkvæmt öllu að geta tekið upp þráðinn komi til valda ríkisstjórn með slíkan vilja. Aftur: Það að ríkisstjórnin hafi hætt við afturköllun á þingi eru hin stóru tíðindi málsins.
Birgir Hermannsson, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, virðist vera í svipuðum hugleiðingum.
Bréfaskriftir ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsins eru illskiljanlegar, eiginlega verri svona daginn eftir en í gær. Yfirlýsingar ráðherra stangast hver á aðra þannig að landsmenn bíða eftir því að túlkunarfræðingar ESB komist að einhverri niðurstöðu um málið. Alþingi ræðir málið á mánudaginn, ráðherrarnir hafa því tíma yfir helgina til að undirbúa einhverja haldbæra skýringu á innihaldi bréfsins og samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því á þriðjudaginn. Stuðningsmenn jafnt sem andstæðingar ríkisstjórnarinnar virðast því hvorki skilja hvað bréfið þýðir né fá nokkurn botn í aðferðafræði ríkisstjórnarinnar.
Ólafur Þór Harðarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands segist velta fyrir sér Íslandssögunni í þáskildagatíð:
Var aðild Íslands að Atlandshafsbandalaginu 1949 ekki samþykkt með þingsályktun? Hefði ný ríkisstjórn [t.d. Vinstri stjórn Hermanns Jónassonar 1956] getað ákveðið að ganga úr NATÓ án þess að bera það undir þingið?
Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingkona Hreyfingarinnar er ómyrk í máli og minnist á lög um ráðherraábyrgð og landsdóm. Í gær skrifaði hún á Facebook:
Nokkur atriði:
– Ályktun Alþingis er ekki "tilmæli" heldur skipun.
– Ráðherra sem fer gegn ályktunum Alþingis hefur framið eða alla vega reynt að fremja valdarán og í raun afnumið þingræðið.
– Ef Alþingi gerir ekkert í málinu er Ísland vart lýðræðisríki lengur.
– Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verður að láta málið til sín taka og meta hvort um brot á lögum um ráðherraábyrgð er að ræða og hvort kalla skuli saman landsdóm.
Athugasemdir