Ef áform ríkisstjórnarinnar um stóraukið aðhald í ríkisfjármálum ná fram að ganga þurfa lögregluembættin á Íslandi að fækka lögreglumönnum umtalsvert á næstu árum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur sig þurfa að fækka um sex til átta stöðugildi strax á næsta ári og áfram eftir það. Þá segja lögreglustjórar á Suðurlandi og Norðurlandi eystra að hvort embættið um sig þurfi að fækka lögreglumönnum um samtals fimm stöðugildi á tímabilinu 2018 til 2022.
Þetta kemur fram í umsögnum lögregluembættanna um fjármálaáætlun Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra. Ef hin sex lögregluumdæmin á landinu meta stöðuna með álíkum hætti má ætla að lögreglumönnum á Íslandi muni fækka um tugi stöðugilda á næstu árum. Um leið er gert ráð fyrir að ferðamönnum haldi áfram að fjölga og álag á lögregluna aukist.
Hert á aðhaldskröfunum
Í fjármálaáætluninni er mælt fyrir um 2 prósenta veltutengda aðhaldskröfu til flestra útgjaldasviða, meðal annars almanna- og réttaröryggis, strax á næsta ári, sem er tvöfalt strangari krafa en lagt var upp með í fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar sem var samþykkt í fyrra. Almenna aðhaldskrafan nemur 1,5 prósentum á síðari hluta áætlunartímabilsins.
Ef útgjöld vegna þyrlukaupa fyrir Landhelgisgæsluna eru tekin út fyrir sviga blasir við að útgjöld til allra almanna- og réttaröryggismála munu aukast úr 23,4 milljörðum á árinu 2017 upp í 24,1 milljarð árið 2022. Þetta er 700 milljóna aukning og aðeins hluti hennar rennur til lögreglunnar, því undir málefnasvið almanna- og réttaröryggis heyra ekki aðeins löggæsla og landhelgismál heldur einnig ákæruvald, réttarvarsla, réttaraðstoð og fangelsismál. Þessari starfsemi verður sniðinn þröngur stakkur næstu árin.
Fleiri landsmenn, færri löggur
Á tímabilinu 2007 til 2016 fækkaði lögreglumönnum um hátt í hundrað, en á sama tíma fjölgaði Íslendingum um 25 þúsund auk þess sem fjöldi ferðamanna þrefaldaðist.
Í skýrslu nefndar um stöðu löggæslu á Íslandi, sem lögð var fyrir Alþingi árið 2013, var lagt mat á mannaflagreiningar ríkislögreglustjóra og dregin sú ályktun að staða löggæslu á Íslandi væri orðin grafalvarleg. Fjölga þyrfti um að minnsta kosti 236 lögreglumenn til að bregðast við þeirri fækkun sem orðið hefði innan lögreglunnar og eðlilegt markmið væri að lögreglumenn yrðu orðnir 860 talsins árið 2017. Í október í fyrra störfuðu enn aðeins 629 lögreglumenn á Íslandi og samkvæmt þeim útgjaldaramma sem löggæslu er markaður í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að lögreglumönnum fækki á næstu árum fremur en að þeim fjölgi.
Athugasemdir