Verkefnisstjóri Fjölskylduhjálpar Íslands í Reykjanesbæ, hringdi í Útvarp Sögu í dag og klagaði hælisleitandann Tony Omos fyrir meintan dónaskap. Starfsmaðurinn segist í samtali við Stundina telja að hælisleitendur eigi að sýna Íslendingum kurteisi.
Óvanalegt er að starfsmenn hjálparsamtaka kvarti opinberlega yfir nafntoguðum einstaklingum sem þurfa að leita á náðir þeirra.
Trúnaðargögnum um hælisleitandann Tony Omos var lekið úr Innanríkisráðuneytinu eins og frægt er orðið og var aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brotið. Tony, sem er nígerískur, kom upphaflega til Íslands frá Sviss árið 2011. Hann sneri aftur til Íslands fyrr í ár eftir hafa verið sendur úr landi árið 2013.
Tjáir sig opinberlega um aðstoðarbeiðni
Verkefnisstjórinn, Anna Valdís Jónsdóttir, sagði í útvarpinu að Tony hafi sýnt frekju í garð starfsmanna og krafist þess að fá sólgleraugu og uppþvottabursta ókeypis.
„Hann segir að þetta sé frítt en ég segi honum að burstinn kosti 300 krónur vegna þess að við þurfum að passa hverja einustu krónu, við erum bara fátæk hjálparsamtök og hann veit það því hann þarf að leita á náðir okkar, og ég segi strax við hann að ég skuli bara taka við burstanum ef hann hafi ekki peninga til þess að borga hann en hann segir nei og að þetta sé frítt fyrir hann,“ er haft eftir Önnu Valdísi í frétt Útvarp Sögu um innhringingu hennar. Fréttin hefur nú verið fjarlægð af vef Útvarps sögu. Haft er eftir Önnu Valdísi í fréttinni að hún hafi verið hrædd við Tony.
Hér má hlusta á upptöku Útvarps Sögu af samtali Önnu Valdísar og Péturs. Samtal þeirra byrjar á áttundu mínútu.
Blöskrar fjárveiting til flóttamanna
Í samtali við Stundina heldur Anna Valdís því fram að ekkert óeðlilegt sé við það að hún hafi hringt í Útvarp Sögu og kvartað undan skjólstæðingi. Hún segist hafa hringt í Útvarp Sögu þar sem henni blöskraði hversu mikið fé flóttamenn fengju frá ríkinu. „Það er búið að liggja svolítið á okkur að hér komi 20 flóttafjölskyldur á fimmtudögum í matarúthlutun. Ég hringdi til að spyrja hvað hver einstaklingur hefði til framfærslu frá ríkinu því þegar gamla fólkið okkar er búið með peningana sína fjórða hvers mánaðar þá er maður að heyra það að þetta fólk sé með skattfrjálsartekjur og hafi fjórar milljónir á ári hver og einn. Ef þetta er rétt þá trúi ég þessu varla,“ segir Anna Valdís.
Fréttablaðið fjallað á dögunum um árlegan kostnað af hverjum flóttamanni. Úttektin miðaðist við flóttakonu með tvö börn en samkvæmt Fréttablaðinu kostar sú fjölskylda ríkið samtals 3,5 milljónir á ári í fjárhagsaðstoð, styrki og bætur, meðal annars vegna leikskólagjalda og annars sem á ekki við um alla flóttamenn. Framfærslustyrkur einstaklings á mánuði er þó umtalsvert minni eða um 140 til 170 þúsund krónur á mánuði, eða upp undir tvær milljónir á ári.
„Ég sagði bara svona að maður sem er af þessu þjóðerni, er búinn að vera hér og er vísað í burtu og kemur hér aftur með dónaskap. Mér finnst það ekki eðlilegt.“
Hún segist svo hafa farið að segja Pétri Gunnlaugssyni útvarpsmanni sögu af Tony Omos. „Ég nefndi það við hann að það hafi komið hingað í gær flóttamaður og að hann hafi verið að leyfa sér að vera með dónaskap vegna þess að þessum manni var vísað héðan úr landi. Ég var við afgreiðslu hér í nytjamarkaðinum okkar og hann ætlaði að kaupa uppþvottabursta og ætlaði ekkert að borga. Hann myndi ekki leyfa sér það í Bónus. Hann margsagði það að hann ætlaði að eiga þetta. Svo var hann að máta sólgleraugu ásamt fleirum vinum sínum sem eru af sama þjóðerni. Ég var ekkert að kvarta, ég var bara að segja þessa sögu. Mér finnst að þessi maður eigi að sýna almenna kurteisi gagnvart okkur löndum. Þessi maður er búinn að sýna okkur þvílíkan dónaskap á árum áður ásamt fleiri mönnum. Ég er ekkert að kvarta undan honum sem slíkum. [...] Ég sagði bara svona að maður sem er af þessu þjóðerni, er búinn að vera hér og er vísað í burtu og kemur hér aftur með dónaskap. Mér finnst það ekki eðlilegt,“ segir Anna Valdís.
Hún leggur áherslu á að flóttamenn til Íslands skuli vera kurteisir. „Mér finnst að fólk sem er að þiggja hæli hér af okkur Íslendingum geti bara komið fram eins og manneskjur,“ segir Anna Valdís. Hún hörð á því að ekki hafi verið um að ræða misskilning eða tungumálaörðugleika. „Er það ekki dónaskapur að segja: „frítt fyrir Tony, frítt fyrir Tony“?“ spyr Anna Valdís.
Stundin leitaði eftir viðbrögðum Ásgerðar Jónu Flosadóttur, formanns Fjölskylduhjálpar Íslands, við þessari frásögn á opinberum vettvangi af manni sem þangað leitaði, en hún hefur ekki svarað.
Athugasemdir