„Við viljum að heilbrigðisráðherra skoði þann möguleika hvort við getum bætt og eflt stjórnendur Landspítalans í þeirra mikilvægu verkum með því að setja öflugra lið... öflugt lið... með honum,“ sagði Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, í umræðum um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar á Alþingi rétt í þessu.
Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar um fjármálaáætlun er viðruð sú hugmynd að skipuð verði stjórn yfir starfsemi Landspítalans þótt slíkt sé ekki venjan hjá svokölluðum A-hluta stofnunum ríkisins sem sinna grunnþjónustu.
„Í ljósi þess lykilhlutverks sem Landspítalinn hefur í heilbrigðisþjónustu þjóðarinnar og umfangsmikils reksturs telur meiri hlutinn að ástæða sé að kanna hvort það gæti verið af hinu góða að styrkja stjórnun spítalans með þeim hætti,“ segir í nefndarálitinu.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, furðaði sig á þessu í umræðum um fjármálaáætlun í dag og spurði hvort meirihluti fjárlaganefndar vantreysti stjórnendum spítalans.
Ljóst er að fáir hafa gagnrýnt fjármálaáætlunina af meiri hörku en stjórnendur spítalans.
Haraldur Benediktsson sagðist ekki vantreysta stjórnendum Landspítalans, en tók fram að hann vildi að „öflugt lið“ kæmi þeim til aðstoðar.
Athugasemdir