Hanna Birna fór með rangt mál í viðtalinu á Stöð 2 í gær þegar hún sagði lögreglu hafa skoðað síma hennar og tölvu við rannsókn lekamálsins.
Orðrétt sagði hún: „Ég er líka ráðherra, sem þarf að vera viss um það að aðrar upplýsingar sem ég hef, til dæmis í símanum mínum sem var skoðaður, tölvunni minni sem var skoðuð, og aðgangskortinu mínu sem var skoðað í ráðuneytinu og svo framvegis, ég varð að vera viss um að þær upplýsingar sem menn fengu snéru einungis að þessu máli. Þannig að þegar ég talaði við Stefán var það alltaf um svona almenn atriði er vörðuðu slíka rannsókn.”
Eins og DV greindi frá í lok nóvember í fyrra var símnotkun ráðherra ekki rannsökuð. Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari staðfesti þetta í svari við fyrirspurn blaðsins. Hanna Birna fékk sérmeðferð að þessu leyti, því lögregla rannsakaði símnotkun allra hinna sem höfðu vitneskju um minnisblaðið um Tony Omos þann 19. nóvember.
Kjarninn benti á þetta misræmi í svörum ráðherra og svörum vararíkissaksóknara í kvöld. Í frétt Kjarnans kemur fram að tölva Hönnu Birnu hafi heldur ekki verið skoðuð, og er það í samræmi við þær upplýsingar sem Stundin hefur fengið.
Í viðtalinu í Ísland í dag sagði Hanna Birna að hún hefði þráspurt samstarfsmenn sína til að reyna að átta sig á því hver hefði lekið minnisblaðinu. Á tímabili hefði hana grunað alla í kringum sig. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að ráðherra hélt því ítrekað fram á Alþingi og í fjölmiðlum að ekkert benti til þess að gögnum hefði verið lekið úr innanríkisráðuneytinu, enda væri hið lekna minnisblað „ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu”. Þetta sagði hún þótt hún hefði sjálf fengið skjal sent í tölvupósti þann 19. nóvember 2013 sem var nákvæmlega eins og það sem fjölmiðlar vitnuðu til ef frá er talin ein setning.
Athugasemdir