Félagið Vefmiðlun ehf, í eigu Friðbjörns Orra Ketilssonar og Arthúrs Ólafssonar, hefur fest kaup á léninu david2016.is. Samkvæmt heimildum Stundarinnar er Friðbjörn Orri lykilmaður í kosningabaráttu Davíðs sem nú er undirbúin.
Sjálfur vill Friðbjörn sem minnst tjá sig um aðstoðina. Aðspurður hvort hann starfi fyrir framboð Davíðs segir Friðbjörn: „Ég reyndar tjái mig ekkert um það.“
Uppfært kl. 20:30:
Skráningu lénsins david2016.is var breytt eftir að frétt Stundarinnar birtist í dag. Er Davíð Oddsson nú sjálfur rétthafi þess auk lénsins xdavid.is. Vefurinn er kominn í loftið.
Aðsetur í Hádegismóum
Vefmiðlun hefur aðsetur í Hádegismóum 4, en áður var félagið með lögheimili að Hádegismóum 2 þar sem Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins og ritstjórnarskrifstofur blaðsins eru til húsa.
Friðbjörn var um árabil einn þekktasti frjálshyggjumaður landsins. Hann er frægastur fyrir að hafa haldið úti vefnum AMX.is um árabil þar sem birtust harðorðir pistlar um menn og málefni undir nafninu „smáfuglarnir“. Beindu smáfuglarnir aðallega spjótum sínum að vinstristjórninni, Ríkisútvarpinu og álitsgjöfum sem gagnrýnt höfðu Sjálfstæðisflokkinn.
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Jónas Haraldsson blaðamaður voru um tíma ritstjórar AMX.is. Friðbjörn tók við keflinu árið 2010 og var ábyrgðarmaður þeirra umdeildu skrifa sem birtust á vefnum.
Athugasemdir