„Stundum þarf bara að taka pólitíska slagi sem kjörinn fulltrúi. Frjálst útvarp, Göngin & sala Landssímans hefði verið fellt í þjóðaratkvæði,“ skrifar Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á Twitter.
Tilefnið er umræða um ákall Birgittu Jónsdóttur, þingkonu Pírata, um að frumvarp um breytingu á smásölu áfengis verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Pírata lögðu fram frumvarp í síðustu viku þar sem lagt er til að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis verði aflagt og smásala gefin frjáls að ákveðnu marki.
„Það líður ekki sá dagur sem ég hugsa ekki um það en alltaf skal það vera fyrsta afvegaleiðingin að ræða endalaust um sama frumvarp Sjálfstæðsflokksins um bús í búðir. Ég legg til að einhver skelli í undirskriftarlista til þingmanna um að skella þessu bara í þjóðaratkvæði,“ skrifaði Birgitta á Facebook í gær.
Kristinn Ingi Jónsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, bregst við orðum Birgittu með þeim orðum að hugmyndin sé vond. „Frelsisréttindi borgaranna eru algild og eiga ekki að vera háð vilja meirihluta þjóðar hverju sinni,“ skrifar hann.
Þórdís Kolbrún, sem virðist styðja áfengisfrumvarpið, tekur undir með Kristni og segir mikilvægt að kjörnir fulltrúar beiti sér stundum fyrir málum sem kjósendur eru á móti.
Athugasemdir