Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi, gagnrýnir harðlega ráðherraval Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins.
Þrátt fyrir að hafa unnið einn stærsta kosningasigur Sjálfstæðisflokksins var Páll ekki valinn ráðherra.
Meðal þeirra sem fengu ráðherrastól eru frjálshyggjukonan Sigríður Á. Andersen, sem er áttundi þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður.
Páll segir á Facebook-síðu sinni að hann hafi ekki stutt ráðherraval Bjarna. „Á þingflokksfundi í gærkvöldi sagðist ég því miður ekki geta stutt þá ráðherraskipan sem formaður flokksins gerði tillögu um. Fyrir því væru tvær ástæður: Í fyrsta lagi gengi þessi skipan í veigamiklum atriðum gegn því lýðræðislega umboði sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áunnið sér í prófkjörum og síðan kosningum í haust. Í öðru lagi fæli hún í sér lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann sinn stærsta sigur í kosningunum.“
Veikari oddvitar fengu ráðherrastól
Samkvæmt heimildum Stundarinnar fór Páll Magnússon hratt, örugglega og orðlaust af fundi í Valhöll í gærkvöldi.
Guðlaugur Þór Þórðarson, oddviti flokksins í Reykjavík norður, er einn þeirra sem fékk ráðherrastól, en flokkurinn fékk 24,4 prósent stuðning í kjördæmi hans, þann minnsta á landinu.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 31,5 prósent stuðning í suðurkjördæmi, sem gerir það að sterkasta kjördæmi flokksins fyrir utan Suðvesturkjördæmi, þar sem Bjarni leiddi flokkinn. Oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, Kristján Þór Júlíusson, fékk einnig ráðherrastól þótt stuðningur við flokkinn í hans kjördæmi hafi verið 26,5 prósent.
Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefur aðeins eins manns meirihluta á Alþingi.
Athugasemdir