Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra og fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, segir óskiljanlegt að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi ætli ekki að bregðast við ábendingum og ráðleggingum sem fram koma í umsögn fjármálaráðs um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára.
Eins og Stundin greindi frá í febrúar telur fjármálaráð æskilegt að hagsveifluleiðrétta afkomumarkmið hins opinbera líkt og tíðkast í fjármálaáætlunargerð á nágrannalöndunum. Þá bendir ráðið á að þröng og ósveigjanleg fjármálaregla kunni að valda óþarfa búsifjum og ef hagspár gangi ekki eftir geti stjórnvöld beinlínis lent í „spennitreyju fjármálastefnu sinnar“.
Ekki stendur til að fara að ábendingum ráðsins, því í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar er lagt til að fjármálastefna ríkisstjórnarinnar verði samþykkt óbreytt. Þetta gagnrýnir Oddný Harðardóttir harðlega í minnihlutaáliti sínu sem lagt var fram á Alþingi í dag. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni, gerir slíkt hið sama.
Athugasemdir