„Almennt er það svo af Íslands hálfu að ekki er getið um einkafyrirtæki í slíkum viljayfirlýsingum, enda hafa slíkir aðilar ekki stjórnskipulega stöðu. Ekkert útilokar þó slíkt ef íslenskum hagsmunum er best sinnt með þeim hætti,“ segir í svari frá utanríkisráðuneytinu við spurningu Stundarinnar um hvort það sé algengt að ráðuneytið skipi einkafyrirtæki sem „framkvæmdaraðila“ (e. executive bodies) íslenska ríkisins erlendis líkt og menntamálaráðuneytið ákvað í tilfelli orkufyrirtækisins Orku Energy þegar Ísland gerði samstarfssamning við Kína á sviði orkumála fyrr á árinu.
Líkt og Stundin hefur greint frá tók menntamálaráðuneyti Illuga Gunnarssonar þessa ákvörðun og var nafni Orku Energy bætt við viljayfirlýsinguna við hlið ríkisfyrirtækisins Orkustofnunar í samkomulaginu við Kína. Fyrir vikið eru bæði Orkustofnun og Orka Energy framkvæmdaraðilar íslenska ríkisins í samstarfinu við Kína og ríkisrekna orkufyrirtækið Sinopec sem er samstarfsaðili Orku Energy í Kína. Illugi hefur margs konar tengsl við Orku Energy og vann meðal annars hjá fyrirtækinu sem ráðgjafi árið 2011 og seldi stjórnarformanni fyrirtækisins, Hauki Harðarsyni, íbúð sína á Ránargötu í lok árs 2013 eftir að hann lenti í fjárhagserfiðleikum.
Athugasemdir