Innanríkisráðuneytið fól lögmannsstofunni LEX að kanna hvort umfjöllun fjölmiðla um lekamálið gæfi tilefni til höfðunar meiðyrðamáls sumarið 2014. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, sem birtist á vef Alþingis í dag. Alls fékk LEX um 860 þúsund krónur frá hinu opinbera.
„Ráðgjöfin sneri annars vegar að frumgreiningu LEX á því hvort umfjöllun fjölmiðla gæfi tilefni til höfðunar meiðyrðamáls. Í kjölfarið tók aðstoðarmaður ráðherra ákvörðun um höfðun meiðyrðamáls og bar sjálfur kostnað af því máli,“ segir í svarinu.
Reikningarnir eru dagsettir 30. apríl og 31. ágúst, en Þórey Vilhjálmsdóttir aðstoðarkona Hönnu Birnu Kristjándóttur fyrrverandi innanríkisráðherra, stefndi tveimur blaðamönnum DV, þeim Jóhanni Páli Jóhannssyni og Jóni Bjarka Magnússyni, vegna rangrar fullyrðingar í frétt og krafðist hámarksrefsingar yfir þeim í byrjun október sama ár. Þá hafði frumgreiningin á því hvort grundvöllur væri fyrir slíku meiðyrðamáli þegar farið fram á kostnað skattgreiðenda.
Eftir því sem Stundin kemst næst er afar óvenjulegt að ríkisstofnanir og ráðuneyti greiði kostnað af slíkri greiningu, enda eru meiðyrðamál einkaréttarlegs eðlis nema þegar ríkissaksóknari höfðar þau á grundvelli almennra hegningarlaga, en þá ber að hafa í huga að ákæruvaldið nýtur sjálfstæðis í íslenskri stjórnskipan.
Fram kemur í svari innanríkisráðherra að Argus markaðsstofa fékk 2,4 milljónir króna vegna fjölmiðlaráðgjafar í tengslum við lekamálið. Nánar er fjallað um þetta hér.
Athugasemdir