Morgunblaðinu er dreift frítt inn á heimili landsmanna með forsíðufrétt um fylgistap helsta andstæðings ritstjóra blaðsins.
Þetta er í annað skiptið á fjórum dögum sem blaðinu er dreift frítt, en á þriðjudag var blaðinu frídreift á heimili landsmanna með fréttum um gömul ummæli Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings og nafnlausan slúðurdálk um ósannindi hans og svo nafnlausan leiðara með harðri gagnrýni á hann.
Morgunblaðið er áskriftarblað, sem þýðir að lesendur greiða fyrir að fá blaðið sent heim. Þó kemur fyrir að blaðinu sé frídreift. Á þriðjudag var blaðinu hins vegar dreift frítt með umfjöllun um gömul ummæli Guðna úr fyrirlestri í Háskólanum á Bifröst, þar sem hann notaði orðalagið „fávís lýðurinn“ yfir sköpun goðsagna um þorskastríðið.
Guðni með 55% stuðning
„Guðni missir fylgi“ er fyrirsögnin á forsíðu blaðsins í dag. Þar er fjallað um að samkvæmt könnunum sem Félagsvísindastofnun hefur unnið fyrir Morgunblaðið hefur Guðni misst 12 prósentustig í stuðningi fyrir forsetakosningarnar 25. júní næstkomandi. Davíð Oddsson, ritstjóri blaðsins, hefur hins vegar bætt við sig 2,3 prósentustigum frá síðustu könnun sem framkvæmd var 12. og 13. maí. Samkvæmt könnuninni nú er Guðni með 55% stuðning, Davíð tæplega 20%, Andri Snær Magnason 12% og Halla Tómasdóttirt tæp 10%.
Stjórnarmaður útgáfufélagsins í kosningateymi
Friðbjörn Orri Ketilsson, stjórnarmaður í Árvakri, útgáfufélags Morgunblaðsins, er í kosningateymi Davíðs Oddssonar, ásamt blaðamanni blaðsins. Friðbjörn neitaði að staðfesta aðkomu sína að kosningabaráttunni í samtali við Stundina í maí. „Ég tjái mig ekkert um það,“ sagði hann.
Davíð Oddsson var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins af eigendahóp blaðsins, sem er samsettur af helstu útgerðarmönnum Íslands, árið 2009 eftir að hafa verið sagt upp störfum sem formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í kjölfar bankahrunsins. Talið er að minnst þriðjungur áskrifenda blaðsins hafi sagt upp áskrift í kjölfarið.
Davíð er í sumarleyfi sem ritstjóri Morgunblaðsins á meðan hann freistar þess að verða kjörinn forseti Íslands.
Athugasemdir