Sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson hefur verið kjörinn forseti Íslands með 39,1 prósenta atkvæða. Hylling verður fyrir utan heimili hans og Elizu Reid, eiginkonu hans, á Seltjarnarnesi klukkan fjögur í dag. Frá þessu er greint á vef Ríkissjónvarpsins.
Guðni, sem lagðist undir feld og tilkynnti um framboð sitt á uppstigningardaginn, verður hylltur sem forseti á afmælisdaginn sinn. Hann fæddist þann 26. júní árið 1968 í Reykjavík og er því 48 ára í dag. Hann er með doktorspróf í sagnfræði og hefur starfað sem háskólakennari við Háskóla Íslands undanfarin ár. Hann tekur við sem forseti í byrjun ágúst.
Hann ræddi kosningabaráttuna, persónulegt líf og embættið í helgarútgáfunni á Rás 2 í morgun. „Því miður get ég ekki vænst þess að eiga jafnmargar stundir með börnunum og ég hef getað gert í öðru starfi,“ sagði hann.
Í þættinum kom fram að hann fer til Frakklands snemma í fyrramálið til að fylgjast með íslenska landsliðinu í knattspyrnu mæta Englendingum. „Ég leyfi mér að vona að úrslitin verði okkur hagstæð,“ sagði Guðni og kvaðst byggja von sína á staðreyndum, þar sem Englendingum hafi gengið illa á mótinu.
„Ég yrði ekki hissa þótt það væri annars konar exit á mánudaginn.“
Guðni kveðst ekki vilja vera forseti lengur en í þrjú kjörtímabil. Þar sem sitjandi forseti hefur ekki verið felldur fram að þessu er því vel mögulegt að Guðni verði forseti til ársins 2028.
Sjá einnig: Líf og drifkraftur Guðna: Feimni, föðurmissir, skilnaður og sköpun sögunnar
Niðurstaða kosninganna
Guðni Th. Jóhannesson 38,49%, 71.356 atkvæði
Halla Tómasdóttir 27,51%, 50.995 atkvæði
Andri Snær Magnason 14,04%, 26.037 atkvæði
Davíð Oddsson 13,54%, 25.108 atkvæði
Sturla Jónsson 3,48%, 6.446 atkvæði
Aðrir fengu undir 1%.
Athugasemdir