Guðni Ágústsson er afdráttarlaus hvað það varðar að hann muni ekki bjóða sig fram til forseta. Hann segist sömuleiðis ekkert hafa rætt við Gest Valgarðsson, verkfræðing og fyrrverandi formann Framsóknarfélags Kópavogs, sem vinnur að því að taka púlsins á möguleika framboðsins hans. Í frétt DV um málið sagði Gestur að Guðni fylgdist gaumgæfilega með úr fjarlægð. Guðni sagðist hins vegar ekkert kannast við undirbúning Gests. Stundin náði tali af Guðna Ágústssyni þar sem hann var á göngu á strönd á Kanarí í „sólskyni og sunnan vindi“ eins og hann komst að orði. „Hafðu það alveg á hreinu að Guðni Ágústsson er ekki á leiðinni á Bessastaði,“ segir Guðni.
Hann segist ekki vilja velta fyrir sér hvor fari með rétt mál, hann eða Gestur. „Við skulum ekkert vera að velta því fyrir okkur. Ég hef ekki verið í neinu sambandi við vin minn, Gest. Þó menn nefni forsetann við mig og hafi gert árum saman, þá hef ég aldrei mátað mig við það embætti og ég er ekkert á leið í framboð. Þannig að þetta er allt á hreinu af minni hálfu. Ég þakka þeim fyrir að nefna nafn mitt í svo stórt embætti. Það er heiður og þökk sé þeim fyrir það en þeir eiga ekki að eyða tíma í þetta. Nú þarf að finna öflugan forseta sem fullnægir þessu mikilvæga embætti og þeim skilyrðum sem gerð eru til forseta Íslands,“ segir Guðni.
Guðni segist ekki hafa neinn sérstakan einstakling í huga sem arftaka Ólafs Ragnars Grímssonar og býst hann við því að vænlegur kostur komi í ljós í marsmánuði.
Athugasemdir