Þessa stundina stendur Reginu Osaramaese, ólétt tveggja barna móðir, fyrir framan Alþingi. Þar biðlar hún til fólks að vera ekki flutt úr landi ásamt börnunum sínum. Stundin hefur áður fjallað um mál hennar, en samkvæmt vottorði frá lækni mun Regina þurfa á keisaraskurði að halda þegar barn hennar fæðist, en hún á von á sér í janúar.
Regina stóð fyrir utan Alþingi með sonum sínum tveim, Daniel og Felix. Daniel er 4 ára síðan í mars og Felix verður tveggja ára í október, en hann er einmitt fæddur á Íslandi. Þýðing á textanum sem stendur á skilti Reginu er eitthvað á þessa leið:
Regina flúði Nígeríu þegar hún var 6 ára gömul. Hún komst til Ítalíu í gegnum Lýbíu og svo til Ísland. Hún fæddi Daniel með keisaraskurði á Ítalíu árið 2012 og Felix á Landspítalanum árið 2014. Staðfestir læknirinn í vottorði sínu að hún muni einnig þurfa á slíkri aðgerð að halda við næstu fæðingu.
Stundin greindi frá því í byrjun júlí að Gísli Kr. Björnsson, lögmaður Reginu, hefði óskað eftir því við Útlendingastofnun að brottvísun hennar og barna hennar yrði frestað á meðan á meðgöngu stendur og höfðað yrði mál til ógildingar á ákvörðun stjórnvalda. Gísli staðfesti í samtali við Stundina fyrr í dag að hann hefði ekki fengið svar við erindinu og því hafi ekki komið til frestunar réttaráhrifa. Regina þarf því áfram að bíða á milli vonar og ótta um það hvort hún hún fái að fæða barn sitt hér á landi.
Regina segir lögmann sinn vilja hjálpa sér að koma máli sínu fyrir dómstóla. „Hann gæti leyft mér að vera áfram á íslandi til að sjá um börnin mín. Ég bið bara um að mér sé leyft að vera á Íslandi. Ég vil vera hér svo börnin mín geti lifað eðlilegu lífi.“
Samkvæmt Reginu hefur verið ákveðið að senda hana aftur til Nígeríu, en engin dagsetning hefur verið sett. Útilokað má telja að Regina geti fengið sæmilega læknisþjónustu í Nígeríu, en þar er dánartíðni við barnsburð með því hæsta sem gerist í heiminum.
Hún segist vera að mótmæla fyrir utan Alþingi til þess að vekja athygli þingmanna á máli sínu. „Ég vil bara biðja þingmenn um að leyfa mér að vera áfram á Íslandi. Það er það eina sem ég vil.“
Önnur umfjöllun Stundarinnar um mál Reginu:
Útlendingastofnun vill senda ólétta konu og börn
til Nígeríu: Biður um að fá að fæða barnið hér
Læknir staðfestir að Regina þarf keisaraskurð
en Útlendingastofnun vill senda hana til Nígeríu
„Ég kom hingað í leit að
góðu lífi fyrir börnin mín“
Athugasemdir