Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, er formaður atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins, þeirrar málefnanefndar sem mótar stefnu flokksins í atvinnu-, auðlinda-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum á landsfundi. Samkeppniseftirlitið sektaði Mjólkursamsöluna um 480 milljónir króna í síðustu viku vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Brotin voru framin áður en Ari tók við sem forstjóri fyrirtækisins, en hann hefur tekið til varna fyrir fyrirtækið í fjölmiðlum og fullyrt að kostnaðurinn af sektinni muni lenda á neytendum.
„MS misnotaði markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS sjálft og tengdir aðilar fengu þetta hráefni á mun lægra verði, og að auki undir kostnaðarverði. Var þetta til þess fallið að veita MS og tengdum aðilum verulegt samkeppnisforskot gagnvart keppinautum,“ segir í reifun á niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins. „Með þessu móti var geta keppinauta til þess að keppa við MS og tengd félög skert með alvarlegum hætti, en það er til þess fallið að skaða á endanum hagsmuni neytenda og bænda. Þá liggur fyrir að MS veitti Samkeppniseftirlitinu rangar upplýsingar og lét undir höfuð leggjast að upplýsa eftirlitið um mikilvæg gögn. Hefur það tafið úrlausn málsins og skaðað samkeppni.“
Tollvernd MS uppreiknuð
Í ályktun atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins frá landsfundi í október 2015, undir formennsku Ara, er lögð rík áhersla á heilbrigða og eðlilega samkeppni og sérstaklega tekið fram að landbúnaður skuli rekinn á markaðsforsendum. Þá hvatti atvinnuveganefnd til þess að gerð búvörusamninga yrði lokið sem fyrst til að eyða óvissu um starfsskilyrði landbúnaðarins.
Nokkrum mánuðum síðar, þann 19. febrúar á þessu ári, voru umræddir búvörusamningar undirritaðir í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.
Athugasemdir