Hörður Helgi Helgason, formaður Íslandsdeildar Amnesty International, hefur ritstýrt Vefþjóðviljanum, vefriti áhugamannafélagsins Andríkis, frá árinu 1997. Vefritið hefur gagnrýnt druslugönguna harðlega, hvatt til þess að mannréttindaráð Reykjavíkurborgar sé lagt niður, kvartað undan útþynntri mannréttindaumræðu og hæðst að þeim sem vilja að löggjafinn leggi stein í götu vændis.
Aðspurður hvort hann skrifi sjálfur á vefinn segir Hörður: „Ég held nú að það sé ekkert gefið upp hverjir skrifa þarna. Þannig var það allavega fyrir einhverjum árum síðar.“ En er hann sammála flestu sem stendur á síðunni? „Ég held að ég ætli ekkert að gefa upp um það hverju ég er sammála og hverju ekki. Menn myndu bara fara að mistúlka það“ segir Hörður sem telur að ósanngjarnt væri að tengja skrifin á Vefþjóðviljanum við þau störf sem hann gegnir.
Hörður er staddur á alþjóðaþingi Amnesty International í Dublin um þessar mundir. „Ég er ekki hér að lýsa mínum persónulegu skoðunum, ekki frekar en neinir aðrir úr stjórn samtakanna eða aðrir fulltrúar hér,“ segir hann. Fyrir þinginu liggur meðal annars umdeild tillaga um að Amnesty beiti sér fyrir afglæpavæðingu vændis. Í viðtali í Morgunútgáfunni á Rás 1 um helgina sagði Hörður mikilvægt að fram færi yfirveguð umræða um hag vændiskvenna. Sjö íslensk kvennasamtök hafa ályktað gegn tillögunni og hvatt Íslandsdeildina til að leggjast gegn henni. Vefþjóðviljinn hefur hins vegar talað fyrir lögleiðingu vændis.
Athugasemdir