„Gunnar Bragi [Sveinsson] sagði að íslensk stjórnvöld og íslenska þjóðin hefðu brugðist hratt við og mikil undirbúningsvinna væri nú í gangi víðs vegar um landið,“ segir í svari frá upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, Urði Gunnarsdóttur, þegar hún er spurð hvað Ísland hefði lagt til málanna sem sitt innlegg í umræðum og aðgerðum til bregðast við komu flóttamanna til Evrópu á fundi sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sat með öðrum utanríkisráðherrum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á miðvikudaginn og fimmtudaginn í síðustu viku.
Greint var frá fundinum á vefsíðu utanríkisráðuneytisins og var fleira rætt á honum en flóttamannaspurningin. „Flóttamannavandinn, loftslagsmál, samskipti við Rússland og þróun mála í Úkraínu voru meðal þess sem rætt var á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem haldinn var í Kaupmannahöfn í gær og í dag.“
Í svarinu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að Gunnar Bragi hafi á fundinum einnig undirstrikað mikilvægi þess að ríki Evrópu myndu leggja sitt af mörkum til að styrkja það starf sem unnið er til að hjálpa flóttamönnunum í þeim löndum sem þeir koma frá. „Fyrir utan móttöku flóttamanna til Íslands og annarra ríkja væri afar brýnt að Evrópuríki styrktu þróunaraðstoð og mannúðarstarf á þeim stríðshrjáðu svæðum sem flóttafólk streymi nú frá.“
Athugasemdir