Enginn sannleikur er í þeim sögusögnum sem nú ganga um samfélagsmiðla að björgunarsveitir hafi fundið Birnu Brjánsdóttur og því sé leit lokið. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Stundinni hefur í dag borist fjöldi ábendinga um að leitarhópar á vegum björgunarsveitanna hafi fundið Birnu uppi á Strandarheiði.
Líkt og með aðrar upplýsingar sem Stundinni berast þá eru þær bornar undir lögreglu. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem ábendingar af þessum toga berast Stundinni en í fyrrinótt bárust upplýsingar um stóra aðgerð lögreglu við Hvaleyrarvatn.
„Þetta er í raun sama saga og gekk um Hvaleyrarvatn.“
„Þetta er í raun sama saga og gekk um Hvaleyrarvatn. Ég er með talstöð sem er beintengd við alla leitarhópa og Birna er ekki fundin,“ segir Grímur sem óskaði sérstaklega eftir talstöðinni í kjölfar allra þeirra flökkusagna sem enn virðast ganga um samfélagsmiðla.
Mikið magn af hassi um borð
Lögreglan getur staðfest að tveir hinna handteknu eru Grænlendingar þar sem búið er skoða vegabréf þeirra. Ekki er hægt að staðfesta þjóðerni þess þriðja en beðið er eftir upplýsingum að utan. Samkvæmt heimildum Stundarinnar er sá þriðji frá einnig frá Grænlandi.
Fjórði maðurinn var síðan handtekinn í nótt eftir að mikið magn af hassi fannst um borð í grænlenska togaranum. Hann er enn í haldi lögreglunnar. Líkt og Stundin hefur áður greint frá þá var grænlenski togarinn að koma frá Danmörku þegar hann lagðist að höfn í Hafnarfirði. Ekki er vitað á þessari stundu hvort hassið hafi verið keypt þar en það mun vera eitt af því sem lögreglan nú skoðar.
Nú rétt í þessu kom fréttatilkynning frá útgerð grænlenska togarans, Polar Seafood:
Fréttatilkynning frá útgerð Polar Nanoq
Togarinn Polar Nanoq kom aftur til hafnar í Hafnarfirði um klukkan ellefu í gærkvöldi.
Þrír skipverjar hafa verið handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn lögreglu á hvarfi Birnu Brjánsdóttur.
Í nótt leitaði lögregla í skipinu og ræddi við aðra skipverja. Enginn þeirra er grunaður um aðild að hvarfi Birnu.
Lögreglan rannsakar að auki fund á umtalsverðu magni á hassi um borð í skipinu. Einn skipverji til viðbótar hefur verið handtekinn í tengslum við rannsókn lögreglu á því máli. Togarinn heldur kyrru fyrir í Hafnarfjarðarhöfn á meðan lögreglan lýkur rannsókn sinni um borð.
Polar Seafood mun áfram aðstoða yfirvöld á Íslandi vegna málanna og vonar að þau upplýsist sem fyrst. Þá leggur fyrirtækið sig fram um að koma upplýsingum til ættingja skipverja, auk þess sem unnið er að því að útvega áhöfninni áfallahjálp og leitað hefur verið aðstoðar hjá Rauða krossi Íslands.
Spurningum vegna rannsóknarinnar er beint til íslensku lögreglunnar.
Jørgen Fossheim, útgerðarstjóri hjá Polar Seafood
Athugasemdir