„Hann var mjög ánægður, vægast sagt. Það er ekkert grín að vera í einangrun,“ segir Unnsteinn Örn Elvarsson, lögfræðingur Nikolaj Olsen sem hefur undanfarnar tvær vikur setið í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að hvarfinu á Birnu Brjánsdóttur.
Líkt og Stundin greindi frá hefur Nikolaj aldrei breytt meginatriðum í framburði sínum. Nikolaj hefur tjáð lögreglu, líkt og hann tjáði kærustu sinni, að hann muni ekki eftir neinu nema einu augnabliki en samkvæmt heimildum Stundarinnar var því lýst svona:
Eftir að hafa drukkið ótæpilega á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur var hann farþegi í rauða Kia Rio-bílaleigubílnum, sem Thomas Møller ók. Nikolaj ber því við að hafa verið mjög drukkinn og ekki meðvitaður um hvað átti sér stað í kringum hann. Á einhverjum tímapunkti hafi hann litið í aftursætið og séð tvær stelpur, en segist ekki vita hvað klukkan var þá eða hvar hann var staddur.
Stundin greindi frá frásögn íslenskrar vinkonu Nikolajs, sem staðfesti frásögn hans af því að hann hefði verið í miklu ölvunarástandi.
Aðstoðaði lögreglu eftir fremsta megni
„Ég veit ekki hvaðan þú hefur þetta því ég hef engum sagt frá þessu, en Nikolaj hefur, já, að meginstefnu til, haldið sig við sömu frásögn. Þá hefur hann líka reynt að varpa eins miklu ljósi á málið og hann hefur mögulega getað. Það er alveg óhætt að segja það,“ segir Unnsteinn.
Ekki verður farið fram á frekara gæsluvarðhald yfir Nikolaj, og þess verður ekki heldur krafist að hann sé settur í farbann. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir hann hins vegar enn hafa réttarstöðu sakbornings. Unnsteinn skilur ekki af hverju það er. Allt frá því að hann var handtekinn hefur Nikolaj haldið fram sakleysi sínu.
„Ég persónulega skil ekki þann vinkil ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Ef það á að sleppa honum í dag þá trúi ég ekki öðru en að hann fái stöðu vitnis í þessu máli.“
Líkt og áður hefur komið fram þá sáust þeir Nikolaj og Thomas Møller Olsen við hafnarsvæðið við Hafnarfjarðarhöfn um klukkan 06:10 á laugardagsmorgninum. Þar sást greinilega að Thomas Møller Olsen var undir stýri en Nikolaj farþegi. Þeir ræddu saman í örstutta stund, kannski í eina til tvær mínútur, áður en Nikolaj gekk um um borð. Thomas Møller settist aftur undir stýri og ók á brott, vestur eftir hafnarbakkanum. Nikolaj sást ekki fara aftur í bílinn.
Þarf að ná áttum
Unnsteinn segir að einangrunin hafi haft slæm áhrif á Nikolaj og að hann komi mögulega aldrei til með að jafna sig á henni. Oft á dag hafi Nikolaj hringt í Unnstein og stundum bara til þess að fá að heyra í einhverjum röddina, spjalla við einhvern.
„Já, hann hringdi í mig oft á dag og ég hef verið honum til halds og trausts í þessu.“
En hvað tekur við hjá Nikolaj núna?
„Nú þarf hann bara að komast til fjölskyldu sinnar sem fyrst. Hvenær sem það verður, á næstu dögum væntanlega. Síðan þarf hann bara að ná áttum, tala við vinnuveitendur sína og svo framvegis.“
Athugasemdir