Þórey Vilhjálmsdóttir, sem var aðstoðarkona Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrrverandi innanríkisráðherra, segist hafa þráspurt Gísla Frey Valdórsson samstarfsmann sinn á sínum tíma hvort hann hefði lekið minnisblaðinu um hælisleitendurna Tony Omos og Evelyn Glory Joseph úr innanríkisráðuneytinu. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali sem birtist við Þóreyju í Sunnudagsmogganum í dag. „Auðvitað spurði ég hann og Hanna Birna spurði hann ítrekað að mér viðstaddri. Og hann sagði alltaf við okkur að hann hefði ekki sent þetta minnisblað,“ er haft eftir henni. „Ég spurði hann beint um þetta og ég spurði hann mjög oft. Alltaf neitaði hann, og þverneitaði.“
Á fyrstu mánuðum lekamálsins hélt Þórey því hins vegar ítrekað fram að búið væri að staðfesta að engum gögnum um hælisleitendur hefði verið lekið úr innanríkisráðuneytinu. Í viðtali Morgunútvarps Rásar 2 við Þóreyju þann 17. janúar 2014 fullyrti hún að það væri „raunverulega búið að taka fyrir það að þessi gögn hafi farið, eða einhver gögn er varða þessa hælisleitendur hafi farið úr gögnum ráðuneytisins að minnisblaðinu hefði verið lekið úr innanríkisráðuneytinu“ og vísaði í athugun rekstrarfélags Stjórnarráðsins máli sínu til stuðnings.
Í kjölfarið kvartaði framkvæmdastjóri rekstrarfélagsins til ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins og gerði athugasemdir við málflutning Þóreyjar sem hann taldi villandi. Hann hvatti ráðuneytisstjórann til að upplýsa starfsfólk ráðuneytisins um staðreyndir málsins, svo rétt væri um það fjallað. Ekki var orðið við þessari beiðni, því á næstu vikum og mánuðum gaf Hanna Birna Kristjánsdóttir ráðherra sams konar svör á Alþingi þegar hún var spurð um málið.
Í viðtalinu við Þóreyju kemur fram að í árdaga lekamálsins hafi enn allt verið „á huldu um hvaðan minnisblaðið títtnefnda hafi komið og hvers vegna upplýsingarnar hafi ratað í fjölmiðla“. Þetta er rangt, því líkt og fram kemur í dómsskjölum málsins fengu ráðherra, ráðuneytisstjóri og báðir aðstoðarmenn skjalið á pósthólfið sitt frá skrifstofustjóra í ráðuneytinu kl. 17:17 þann 19. nóvember árið 2013. Þá lá strax fyrir að skjalið, sem lekið hafði verið, ætti uppruna sinn í innanríkisráðuneytinu.
Dýpkaði margt í lífi Þóreyjar
Þórey tjáir sig um eitt og annað í viðtalinu við Morgunblaðið og segir lekamálið hafa verið með miklum ólíkindum. „Ég held að ef ég sæi bíómynd um það þá myndi mér finnast hún ótrúleg. Í þessu máli er sannleikurinn ótrúlegri en nokkur lygasaga,“ er haft eftir henni. Um Gísla Frey, sem dæmdur var fyrir trúnaðarbrotið í innanríkisráðuneytinu í nóvember í fyrra, segir Þórey: „Við unnum gríðarlega náið saman á hverjum degi og hann vissi mjög mikið um mitt líf og það sem ég var að ganga í gegnum á þessum tíma – það særði mig mikið að hugsa til þess eftirá að hann skyldi ekki stíga fram fyrr.“ Fram kemur að þótt reynslan af lekamálinu hafi verið sársaukafull hafi hún dýpkað margt í lífi Þóreyjar.
Erfitt fyrir Hönnu Birnu
Þórey segir að sér hafi þótt erfiðast að horfa upp á það sem Hanna Birna Kristjánsdóttir þurfti að ganga í gegnum. Segir hún að erfitt hafi verið að „sjá hvað var gengið nærri henni í þessu máli bæði pólitískt og persónulega.“
Líkt og fram hefur komið fól innanríkisráðuneytið lögmannsstofunni LEX að kanna hvort umfjöllun fjölmiðla um lekamálið gæfi tilefni til höfðunar meiðyrðamáls sumarið 2014. Í kjölfarið höfðaði Þórey mál gegn blaðamönnum DV, en að því er fram kemur í viðtalinu við Morgunblaðið ákvað hún þetta eftir samtal við ömmu sína. Alls fékk LEX um 860 þúsund krónur frá hinu opinbera.
Athugasemdir