Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fór með rangt mál í gagnrýni sinni á Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, þegar brot þeirra beggja á jafnréttislögum komust í hámæli í byrjun mánaðar.
Bjarni sagði að Jóhanna hefði ekki viljað „viðurkenna bindandi gildi úrskurðar kærunefndarinnar“ á sínum tíma og að hún hefði hvorki reynt að hnekkja úrskurði kærunefndar fyrir dómstólum né leitað sátta við þann sem á var brotið.
Hvorug fullyrðing Bjarna stenst skoðun. Hið rétta er að Jóhanna lýsti því yfir á Alþingi á sínum tíma að hún teldi úrskurðinn bindandi. Deilt var um þýðingu þess að úrskurðurinn hefði bindandi gildi þegar málið kom til kasta Héraðsdóms Reykjavíkur. Þá liggur fyrir að ráðuneytið leitaði sátta og bauð kæranda miskabætur í kjölfar úrskurðar kærunefndar.
Jóhanna Sigurðardóttir tjáir sig um málflutning Bjarna á Facebook og segist finna sig knúna til að svara ítrekuðum rangfærslum forsætisráðherra. „Bjarni hefur reynt að drepa málinu á dreif og, það sem verst er, beitt röngum og villandi upplýsingum í máttlausri vörn fyrir eigin gjörðir,“ skrifar hún.
Vildi að Jóhanna segði af sér og braut svo sjálfur jafnréttislög
Kærunefnd jafnréttismála komst nýlega að þeirri niðurstöðu að Bjarni Benediktsson hefði brotið jafnréttislög í starfi sínu sem fjármálaráðherra þegar hann skipaði karlmann en ekki konu í embætti skrifstofustjóra skrifstofu opinberra fjármála þann 31. ágúst í fyrra.
Bent hefur verið á að þegar kærunefnd jafnréttismála taldi Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, hafa brotið jafnréttislög árið 2011 spurði Bjarni Benediktsson hana ítrekað hvort hún teldi ekki tilefni til afsagnar.
Í tilviki Jóhönnu hafði karl verið metinn hæfastur en konan sem kærði var í fimmta sæti samkvæmt hæfnismati. Í tilviki Bjarna voru hins vegar kona og karl metin jafnhæf og karlinn samt ráðinn, þvert á reglur jafnréttislaga.
Jóhanna fjallaði um málið á Facebook og spurði: „Jæja, Bjarni, hvað ætlar þú nú að gera þegar Kærunefnd jafnréttismála hefur úrskurðað að þú hafir brotið jafnréttislög?“
Bjarni brást við með ítarlegri stöðuuppfærslu á Facebook:
Rangt að Jóhanna hafi ekki
viðurkennt bindandi gildi úrskurðarins
Kjarninn í færslu Bjarna er sá að Jóhanna hafi sjálf mælt fyrir frumvarpi til laga um að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála yrðu bindandi á sínum tíma en ekki viljað viðurkenna bindandi gildi úrskurðar kærunefndar um eigin brot á jafnréttislögum.
„Jóhanna, þá sem forsætisráðherra, vildi ekki viðurkenna bindandi gildi úrskurðar kærunefndarinnar, að því er virðist eingöngu vegna þess að niðurstaðan var henni ekki að skapi,“ skrifar Bjarni.
Hið rétta er að Jóhanna viðurkenndi bindandi gildi úrskurðar kærunefndarinnar, meðal annars í þingræðu þann 31. mars 2011 þar sem hún sagði „alveg rétt að úrskurður kærunefndar er bindandi nema málið fari fyrir dómstóla.“ Eftir því sem Stundin kemst næst þrætti Jóhanna aldrei fyrir að úrskurðurinn væri bindandi.
Deilt var um þýðingu þess að úrskurðurinn væri bindandi og túlkun lagaákvæðis þess efnis þegar málið kom til kasta Héraðsdóms Reykjavíkur. Í dóminum kemur fram að með bréfi, dagsettu 4. maí 2011, hafi forsætisráðuneytið tilkynnt kærunefnd jafnréttismála að „ráðuneytið teldi erfitt að festa hönd á það með hvaða hætti úrskurður kærunefndar jafnréttismála í málinu væri bindandi að lögum“. Þá kom fram að jafnframt teldi „ráðuneytið að úrskurðurinn hefði ekki þau áhrif að til bótaréttar stefnanda hefði stofnast“.
Héraðsdómur tók undir það mat ráðuneytisins að úrskurðurinn um brot á jafnréttislögum hefði ekki stofnað til bótaréttar gagnvart kæranda. Síðar vakti umboðsmaður Alþingis athygli Alþingis á þeirri óvissu sem ríkti um þýðingu þess að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála væru bindandi.
Ríkislögmaður taldi að túlka ætti ákvæði
um „bindandi gildi“ úrskurðarins þröngt
Þegar deilt var um þýðingu þess að úrskurðurinn væri bindandi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hélt ríkislögmaður, Einar Karl Hallvarðsson, því fram að úrskurður kærunefndarinnar gæti ekki talist bindandi á þann hátt að þegar væru skilyrði til að taka kröfur stefnanda um miskabætur að einhverju eða öllu leyti til greina.
„Í fyrsta lagi telji stefndi að dómstólar séu ekki bundnir af úrskurði kærunefndarinnar um hvort brotið hafi verið gegn lögum nr. 10/2008, enda sé sakarefni um það ekki undanskilið úrlausnarvaldi dómstóla í lögunum, sbr. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Í ljósi þess ákvæðis stjórnarskrár beri að túlka ákvæði laga nr. 10/2008 um bindandi gildi úrskurðarins þröngt,“ segir í dóminum.
Niðurstaða Héraðsdóms var sú að í ljósi þess að íslenska ríkið hefði ekki borið úrskurð kærunefndar jafnréttismála undir dómstóla innan þess málshöfðunarfrests sem gefinn var yrði talið að úrskurðinn hafi orðið bindandi fyrir aðila málsins. „Verður því lagt til grundvallar í málinu að við skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu hafi forsætisráðherra brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.“
Einnig ósatt að ekki hafi verið leitað sátta við kæranda
Í gagnrýni sinni á Jóhönnu Sigurðardóttur skrifar Bjarni Benediktsson einnig: „Bindandi gildi úrskurðar hefur þá þýðingu að í máli Jóhönnu átti ráðuneytið fyrst og fremst tvo valkosti. Annað hvort að eiga frumkvæði að því að hnekkja úrskurðinum fyrir dómstólum eða eftir atvikum að leita sátta við þann sem taldi á sér brotið. En hvort gerði Jóhanna? Svarið er hvorugt.“
Hið rétta er að eftir að kærunefnd jafnréttismála kvað upp úrskurð sinn fór forsætisráðuneytið yfir málið með ríkislögmanni og bauð kæranda til fundar í ráðuneytinu. Jóhanna greinir frá því á Facebook-síðu sinni að ríkislögmaður hafi reynt, fyrir hönd forsætisráðuneytisins, að leita sátta en það hafi ekki tekist. „Forsætisráðuneytið bauð 500 þúsund krónur en því var hafnað,“ skrifar Jóhanna.
Ummæli Jóhönnu eru í samræmi við frásögn sem kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Þar segir meðal annars:
„Ríkislögmaður sendi stefnanda bréf 9. maí 2011 en í því var upplýst að til skoðunar væri hjá forsætisráðuneytinu hvort skjóta bæri úrskurði kærunefndarinnar til dómstóla. Jafnframt var stefnanda boðið til viðræðna um greiðslu miskabóta. Stefnandi svaraði bréfinu 26. maí sama ár með boði um að ljúka málinu með greiðslu fébóta og miskabóta. Með bréfi 16. júní 2011 ítrekaði stefndi boð sitt um miskabætur. Stefnandi hafnaði boði stefnda og hefur höfðað mál þetta til innheimtu bóta.“
Viðbrögð Jóhönnu við gagnrýni Bjarna Benediktssonar má sjá í heild hér að neðan:
Stundin hefur áður fjallað um ósannindi Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, sjá ítarlega umfjöllun sem birtist á vefnum þann 11. mars síðastliðinn.
Athugasemdir