„Ég hef ekki hugmynd um það hvaðan þetta kemur. Það eru engar fyrirliggjandi tillögur um þetta. Það hefur margoft verið rætt um bónusa án þess að neinar tillögur séu uppi um það mál," segir Friðrik Sophusson, formaður stjórnar Íslandsbanka, vegna fréttar Morgunblaðsins um að Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka, auk framkvæmdastjóra og stjórnarmanna bankans, hafi farið fram á kaupauka í tengslum við gerð nauðasamnings og mögulega sölu hans.
Stefán Einar Stefánsson viðskiptasiðfræðingur skrifar fréttina, en þar kemur fram að gerð hafi verið tillaga um að 1 prósenta hlutur í bankanum renni hópnum í skaut. Friðrik þvertekur fyrir að nokkrar tillögur, hvað þá ákvarðandir, liggi fyrir um málið. Þá segist hann hafa allar sínar upplýsingar um þetta úr fjölmiðli. Fréttin í morgun hafi komið honum í opna skjöldu. „Ég las þetta í Morgunblaðinu. Meira hef ég ekki um þetta mál að segja," segir Friðrik sem vill ekki tjá sig um hvort eðlilegt sé að æðstu stjórnendur bankans eignist hlut í bankanum.
Athugasemdir