Heimsmet í vöxtum, gríðarlegur hagnaður og nú brjálæðislegar bónusgreiðslur. Bankar á Íslandi eru ekki lengur einfaldlega staðurinn þar sem við geymum peninga og skuldir, þeir eru mjólkurkýr eigenda sinna, sem virðast geta hegðað sér eins og þeim dettur í hug án þess að þurfa að svara fyrir gjörðir sínar.
En geta viðskiptavinir gert eitthvað til þess að sýna bankanum að þeir séu ósáttir með framgönguna?
Áhlaup á banka
Talað er um áhlaup á banka [e. Run on the bank] þegar stór hluti viðskiptavina sem eiga innistæður í banka eða bönkum ákveða að taka út allt sitt fé á svipuðum tíma. Eftir því sem lausafjárstaða bankans versnar neyðist hann til þess að minnka umsvif sín, hvort sem þau eru í formi fjárfestinga, lána eða bónusgreiðslna til stjórnenda eða hlutafjáreigenda. Sagan geymir fjölmörg dæmi þess að viðskiptavinir hafi tæmt bankana sína, ýmist til þess að flytja eignir sínar annað eða fjárfesta í hrávöru, á tímum samdráttar.
Á síðari árum hafa stjórnvöld, bankar og seðlabankar í ýmsum löndum gert ákveðnar ráðstafanir til þess að ýmist koma í veg fyrir áhlaup, eða til þess að bregðast við því áður en í óefni er komið. Hafa bankar sett úttektum á féi skorður með því að setja ákveðið hámark, eða með því að banna einfaldlega úttektir í einhvern tíma. Einnig hefur það gerst að stjórnvöld og seðlabankar hafa þurft að grípa inn í og þjóðnýta banka til þess að bjarga þeim frá gjaldþroti.
Vilji fólk sýna óánægju sína í verki er því til ákveðin aðferð til þess. Þá er bara spurning hvort Íslendingar búi yfir nógu sterkri blöndu af skipulagshæfni og gremju til þess að framkvæma slíkan gjörning.
(Stjórnandi Cato Institute Center for Monatary and Financial Alternatives, George Selgin tjáir sig um ágæti áhlaupa á banka, meðal annars í þeim tilgangi að refsa stjórnendum fyrir hegðun sem viðskiptavinum mislíkar.)
Athugasemdir