Fjórir stjórnendur eignarhaldsfélagsins LBI fá greiddar samanlagt á bilinu 350 til 370 milljónir króna í bónus.
LBI heldur utan um eignir gamla Landsbankans. Þetta kemur fram í Markaðnum, fylgiblaði með Fréttablaðinu í dag. Á rúmu ári hefur milljörðum króna verið varið í bónusgreiðslur til starfsmanna föllnu bankanna.
Bónusgreiðslurnar til stjórnenda LBI koma til vegna þess að Landsbankinn ákvað að gera upp skuld sína við LBI þann 22. júní síðastliðinn, rúmum 9 árum fyrir lokagjalddaga. Þannig hefur ákvörðun bankans um að gera upp skuldina einhliða tryggt fjórmenningunum, Kolbeini Árnasyni, stjórnarmanni í LBI og fyrrverandi framkvæmdastjóra SFS, Ársæli Hafsteinssyni, framkvæmdastjóra LBI, Richard Katz, formanns stjórnar LBI og Christian Anders Digemose, dönskum ráðgjafa sem var lögmaður fyrir kröfuhafa föllnu bankanna, hundruð milljóna króna í bónusgreiðslur.
Ársæll var samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar með rúmlega 23 milljónir króna í tekjur á mánuði í fyrra. Þá var Kolbeinn var með rúmar 7 milljónir króna á mánuði.
Á aðalfundi LBI í apríl 2016 var kaupaukakerfi samþykkt og fengu fjórmenningarnir greiddan bónusinn á grundvelli þess kerfis. Þá áætlar Markaðurinn að bónuspotturinn fyrir stjórnendur LBI geti numið tveimur milljörðum króna, gangi tilteknar forsendur eftir um endurgreiðslur til skuldabréfaeigenda.
Einum og hálfum milljarði varið í bónusa hjá Kaupþing
Á síðasta aðalfundi eignarhaldsfélagsins Kaupþings sem fram fór í ágúst í fyrra var ákveðið að verja 1.500 milljónum í bónusgreiðslur til 20 lykilstarfsmanna. Þessir sömu starfsmenn hlutu tugi milljónir króna í bónusa um þarsíðustu áramót þegar Kaupþing lauk nauðasamningum. Fregnir af bónusgreiðslum Kaupþings vöktu mikla athygli og kepptust þingmenn við að gagnrýna greiðslurnar. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og þáverandi fjármálaráðherra, sagði bónusana „lykta af sjálftöku“ í viðtali við Rúv í fyrrasumar.
Málið var rætt af miklum þunga á Alþingi í lok ágúst í fyrra. Þorsteinn Sæmundsson, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, vildi leggja 90-98 prósenta skatt á bónusgreiðslur. „Glaður vil ég að slitabúin skili aftur peningum til Íslands eins og þarna er ráð fyrir gert. Ég kæri mig bara ekki um að þeir lendi í fjögurra til fimm manna höndum. Þannig að ég myndi bara leggja til að við yrðum fljót að setja lög um það að 90-98% skattur yrði lagður á slíkar bónusgreiðslur þannig að við getum tryggt að þessi framlög slitabúanna sem eru að koma til Íslands lendi ekki í fjögurra til fimm manna hóp heldur hjá þjóðinni allri,“ sagði Þorsteinn.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og Helgi Hjörvar, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar tóku undir orð Þorsteins og mæltu með sérstakri skattlagningu á bónusa. „Þessa nöktu birtingarmynd nýfrjálshyggjugræðgiskapítalismans viljum við ekki sjá aftur á Íslandi. Það er nóg komið af því. Og við þurfum að taka til þeirra ráða sem eru tiltæk gagnvart þessu,“ sagði Steingrímur.
Lagafrumvarp sem hefði takmarkað bónusgreiðslur fékk ekki afgreiðslu
Þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram frumvarp á Alþingi síðasta haust um þak á bónusgreiðslur fyrirtækja sem fara með eignir föllnu fjármálafyrirtækjanna. Helgi Hjörvar flutti frumvarpið en það var ekki tekið til umræðu á Alþingi. Í frumvarpinu var lagt til að þak sem gildir um bónusa starfsmanna fjármálafyrirtækja næði einnig til fjármálafyrirtækja sem tekin hefðu verið til slitameðferðar og félaga sem voru í eigu slíka félagra eða fara með eignir þess. Í lögunum er áskilið að bónusar megi ekki fara yfir 25 prósent af árslaunum viðkomandi starfsmanns. Frumvarpið sem varð ekki að lögum hefði haft það að verkum að Kaupþing, LBI, Glitnir og ALMC sem áður var Straumur Burðarás gætu ekki greitt starfsfólki sínu bónusa umfram kaupaukaþakið. Öll þessi félög hafa lýst því yfir að þau ætli að greiða starfsfólki sínu bónusa.
Laun Kolbeins hjá LBI eru um 200 þúsund dollarar á ári eða um 21 milljón króna. Hefði frumvarp Helga Hjörvars verið leitt í lög og náð yfir tilfellið hefði LBI einungis getað greitt honum rúmar 5 milljónir króna í bónus á ári – en ekki um 90 milljónir eins og félagið stefnir að í dag.
Athugasemdir