Mál Árna Johnsen, fyrrverandi alþingismanns, er eina spillingarmálið tengt stjórnmálamanni á Íslandi sem ákæruvaldið hefur hafið rannsókn á vegna umfjöllunar í fjölmiðlum og embættið telur ekki að fram hafi komið nægjanlegar upplýsingar í Borgunarmálinu og máli Illuga Gunnarssonar til að hefja rannsókn á þeim. Þetta kemur fram í svari frá embætti ríkissaksóknara við spurningum Stundarinnar um verklag embættisins vegna rannsókna á spillingu á Íslandi.
Alls ekki er ljóst hvaða hluti ákæruvaldsins á að hafa frumkvæði að því rannsaka spillingarmál sem meðal annars fjölmiðlar á Íslandi kunna að fjalla um en bæði embætti ríkissaksóknara og nýstofnað embætti héraðssaksóknara hafa heimildir til þess að hefja rannsóknir á spillingu og ber þeim að gera það ef grunsemdir vakna um slík brot: „Lögin eru skýr um frumkvæðisskyldu lögreglu og ákæruvalds sem er beitt í til dæmis fíkniefnamálum og umferðarlagabrotum. Henni var beitt í eina málinu sem varðar spillingu/mútur sem komið hefur til kasta dómstóla þ.e. máli Árna Johnsen sem hófst með bréfi ríkissaksóknara til efnahagsbrotadeildar RLS um að hefja rannsókn/könnun á fréttum úr fjölmiðlum sem þóttu gefa tilefni til rannsóknar,“ segir í svarinu sem Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari skrifar og sendir Stundinni í tölvupósti.
Athugasemdir