Markaðsstofan Argus ehf. fékk 2,4 milljónir króna frá innanríkisráðuneytinu vegna ráðgjafar í tengslum við lekamálið á árinu 2014. Hjálpaði fyrirtækið Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi ráðherra, að bæta ímynd sína í fjölmiðlum. Þá var einnig sú lögfræðiráðgjöf sem Hanna Birna fékk kostuð af skattgreiðendum, en lögmannsstofan LEX fékk rúmlega eina milljón króna fyrir þjónustu sína.
Kjarninn greinir frá þessu í dag og upplýsir að beinn kostnaður ráðuneytisins vegna aðkeyptrar ráðgjafar á árinu 2014 vegna lekamálsins nam tæpum 3,5 milljónum króna.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ber ábyrgð á þessum útgjöldum. Ráðherrann átti í miklum vanda vegna málsins. Óljóst er í hverju ráðgjöfin var fólgin en innanríkisráðuneytið neitaði blaðamönnunum, sem héldu málinu gangandi, um allar upplýsingar á síðari stigum. Á endanum var aðstoðarmaður ráðherra, Gísl Freyr Valdórsson dæmdur sekur um brot á þagnarskyldu. Ráðherrann sagði af sér og í janúar staðfesti umboðsmaður Alþingis í ítarlegu áliti að ráðherrann hefði beitt lögreglustjórann í Reykjavík þrýstingi í tengslum við rannsókn lekamálsins. Fyrir liggur, þrátt fyrir ráðgjöfina, að allt fór á versta veg fyrir ráðherrann og samstarfsfólk hans. Á meðal þeirra sem veittu ráðherra ráðgjöfina er Steingrímur Sævarr Ólafsson, fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2 og ritstjóri Pressunnar.
Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér ráðherraembætti í kjölfar dómsins og umfjöllunar DV og annarra miðla um lekamálið þann 21. nóvember síðastliðinn. Sama dag var tilkynnt um kaup Pressunnar ehf., útgáfufélags Björns Inga, á ráðandi hlut í DV ehf.
Mbl.is hafði eftir Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, á dögunum að hann vænti þess að Hanna Birna kæmi brátt aftur á þing.
Athugasemdir