Ekki stóð nú til að skrifa hér aðra flækjusögu í röð um Adolf Hitler, þótt margt sé ævinlega um hann að segja, en ég hef það raunar mér til afbötunar að þessi grein fjallar eiginlega alls ekki um austurríska liðþjálfann, heldur um Recep Tayyip Erdoğan, forseta Tyrklands. Það er engin goðgá að nefna þá tvo í sömu andránni, því Erdoğan sjálfur hefur látið svo um mælt að völd þau sem hann sækist eftir séu þau sömu og Hitler hafði í Þýskalandi. Eru þess fá dæmi að stjórnmálamaður sem vill láta taka sig alvarlega líki sér sjálfviljugur við Hitler með þessum hætti. En ekki nóg með það, heldur hefur Erdoğan nú líka tekið sér til nákvæmrar fyrirmyndar viðbrögð Hitlers við bruna þinghússins í Berlín í lok febrúar 1933. Eftir að kveikt var í húsinu notaði Hitler brunann til að telja Þjóðverjum trú um að slík ógn væri fram undan að réttast væri að fela honum alræðisvöld í landinu.
Sama virðist Erdoğan nú ætla að gera eftir valdaránstilraunina í Tyrklandi þann 15. júlí. Einræði Erdoğans er yfirvofandi. Því er lærdómsríkt að rifja upp þá atburði í Þýskalandi 1933 sem Tyrkjaforseti notar greinilega sem fyrirmynd að þrammi sínu til einræðisvalda.
Og raunar er þessi saga ævinlega lærdómsrík fyrir alla þá sem puða við að halda fram málstað lýðræðis í veröldinni, því það má aldrei gleymast að Hitler – þessi tákngervingur hins grimmilegasta alræðis sem menn hafa mátt þola – náði völdum með lýðræðislegum hætti.
Allt upp í loft í Þýskalandi
Í upphafi árs 1933 var allt upp í loft í þýskum stjórnmálum. Weimar-lýðveldið svokallaða var þá við lýði en vandamál voru alls staðar. Kreppan mikla, sem breiddist út frá Bandaríkjunum 1929, hafði leikið Þýskaland illa og atvinnuleysi var mjög mikið. Ósigur í heimsstyrjöldinni, niðurlægjandi friðarsamningar, þungbærar stríðsskaðabætur, óðaverðbólgan upp úr 1920, umbyltingar í samfélagsmálum, veikburða lýðræði – allt varð þetta til að auka áhrif kreppunnar og sannfæra Þjóðverja um að mikinn voða bæri að höndum.
Nasistaflokkur Hitlers bauð upp á einfaldar lausnir og augljósan óvin sem kenna mátti um allt saman. Líkt og lýðskrumarar kenna nú innflytjendum og flóttamönnum um allt sem aflaga fer í Evrópu, þá kenndu nasistar gyðingum um öll vandkvæði Þjóðverja. Því miður féll óttaslegin miðstéttin fyrir áróðrinum. Í kosningum 1928 höfðu nasistar aðeins fengið 2,6 prósenta fylgi en í september 1930 – eftir að kreppan var farin að bíta – ruku þeir upp í 18,2 prósenta fylgi og urðu næststærsti flokkurinn á eftir jafnaðarmönnum.
Þrátt fyrir mikið fylgi nasista voru aðrir stjórnmálaflokkar lengst af sammála um að vinna ekki með þeim. Þeir væru einfaldlega of ólýðræðislegir og aðferðir þeirra of ofbeldisfullar. Eftir að stjórn undir forystu jafnaðarmanna hafði mistekist að vinna bug á kreppunni og sagði af sér 1930, þá voru jafnaðarmenn að mestu úr leik og æðstu völd urðu þá bitbein ýmissa stjórnmálamanna á miðjunni og hægri vængnum. Algjör glundroði virtist ríkja og hinum borgaralegu pólitíkusum virtist ókleift að sigrast á vandamálum almennings. Fylgi nasista jókst enn eftir því sem stjórnmálakreppan dýpkaði. Í kosningum í júlí 1932 fengu Hitler og nótar hans hvorki meira né minna en 37 prósenta fylgi og urðu langstærsti flokkurinn. Jafnaðarmenn fengu 21,5 prósent.
Þýskaland var á uppleið
En þótt mikið gengi á á stjórnmálasviðinu og leiðtogar Weimarlýðveldisins hafi fæstir fengið háa einkunn hjá mannkynssögunni fyrir valdabrölt sitt þessi misserin, þá horfði reyndar ýmislegt til betri vegar þegar kom fram á árið 1932. Í öðrum kosningum í nóvember misstu nasistar töluvert fylgi og fengu nú 33 prósent þótt þeir væru eftir sem áður áberandi stærsti flokkurinn. Undirbúningur að ýmsum atvinnuskapandi opinberum framkvæmdum, svo sem hinum frægu hraðbrautum eða Autobönum, var kominn vel á veg. Ef stjórnmálamenn Weimar-lýðveldisins hefðu haldið haus er mjög líklegt að Þýskaland hefði í rólegheitum siglt út úr kreppunni og fylgi nasista þá alveg ábyggilega smátt og smátt koðnað niður.
Og kannski Hitler hefði dagað uppi sem rámradda gamalt þingmannshró á sjötta áratugnum, sífellt emjandi í skrýtnum einkennisbúningi yfir þeim frama sem aldrei varð.
Alþjóðaólympíunefndin hafði að minnsta kosti svo mikla trú á að allt horfði til betri vegar í Þýskalandi 1932 að hún féllst á umsókn Þjóðverja um að halda ólympíuleikana í Berlín 1936.
En stjórnmálaþrefið hélt áfram. Ríkisstjórnir samanstóðu af mið- og hægrimönnum en styrkur þeirra var lítill. Ekki var nóg með að þingmenn nasista styddu þær ekki, heldur voru kommúnistar þá orðinn þriðji stærsti flokkur landsins og þeir voru ekki mikið samstarfsfúsari við lýðræðissinna en nasistar. Innan hinna borgaralegu hægri flokka voru líka fjölmargir keisarasinnar og aðrir afturhaldsmenn sem töldu lýðræði lítt henta Þjóðverjum.
Í janúar 1933 féll rúmlega mánaðargömul ríkisstjórn hershöfðingjans Kurt von Schleichers. Fyrri kanslari, miðflokksmaðurinn Franz von Papen, sá fram á að hann hefði ekki bolmagn til að mynda sterka stjórn. Hann stakk því upp á því við vin sinn og forseta Þýskalands, hinn háaldraða marskálk Hindenburg, að Hitler yrði skipaður kanslari í samsteypustjórn nasista og hægri flokka. Ætlun Von Papens var fyrst og fremst að brúa bilið þar til hann sjálfur gæti aftur komist í æðstu stöður. Hindenburg féllst á þennan málatilbúnað, þótt hann fyrirliti austurríska liðþjálfann af öllum sínum prússneska yfirstéttarhroka. Réttlætingin var sú að með þingstyrk nasista yrði stjórnin mjög öflug en Hitler og félagar fengju hins vegar aðeins sárafá ráðherraembætti og Von Papen treysti sér fyllilega til að hafa stjórn á honum.
„Innan tveggja mánaða verðum við búnir að þrengja svo að Hitler að hann verður farinn að skrækja,“ hældist Von Papen um. Hvorki hann né Von Schleicher voru lýðræðissinnar að upplagi og töldu úr því sem komið var vel réttlætanlegt að beita ofstopamanninum Hitler fyrir vagn sinn um skamma hríð meðan þeir spiluðu sinn alvörupóker.
Eða svo töldu þeir.
Hið eina rétta hjá Von Papen reyndist vera að tveir mánuðir ættu eftir að skipta sköpum.
En því var það að hinn 30. janúar 1933 tók ríkisstjórn Hitlers við völdum. Ráðherrar nasista voru aðeins þrír: Hitler sjálfur, Hermann Göring sem var án ráðuneytis og svo höfðu nasistar farið fram á að fá innanríkisráðuneytið, sem þá var talið heldur valdalítið ráðuneyti. Lögreglan var til dæmis að mestu undir stjórn yfirvalda í hverju fylki Þýskalands fyrir sig.
Að hræða fólk til fylgis við sig
Ríkisstjórn Hitlers var mynduð með dyggum stuðningi ýmissa af helstu iðnjöfrum og stórkapítalistum Þýskalands sem töldu að Hitler yrði þeim þægur þjónn. Þingstyrkur nasista myndi duga til að koma á þeim stöðugleika sem skorti í landinu og þeir gætu farið sínu fram meðan brúnstakkar nasista ærsluðust á götunum og kveddu í kútinn kommúnista og verkalýðshreyfingu.
Ætlun Hitlers var hins vegar alltaf að nota kanslaraembættið til að sanka að sér enn meiri völdum og ná að lokum yfirhöndinni í Þýskalandi. Boðað hafði verið til nýrra kosninga í byrjun mars og nasistar bjuggust nú til að hræða fólk til fylgis við sig, ef ekki vildi betur til. Og það tókst fyrr en nokkurn hefði órað fyrir.
Að kvöldi 27. febrúar, þegar Hitler hafði verið kanslari í tæpar fjórar vikur, var hann í mat í Berlín hjá einum helsta aðstoðarmanni sínum, Joseph Goebbels, síðar áróðursmálaráðherra. Þá hringdi síminn og Goebbels var tjáð að þinghúsið stæði í björtu báli. Sagan segir að Goebbels hafi ekki trúað fregninni og skellt á án þess að láta Hitler vita. Nokkru síðar var hins vegar hringt aftur og nú var ekki um að villast – fregnin var greinilega sönn. Þeir Goebbels og Hitler flýttu sér á staðinn þar sem slökkviliðið var í þann veginn að ráða niðurlögum eldsins. Hins vegar var augljóst að miklar skemmdir höfðu orðið á þinghúsinu.
Nasistar slógu því strax föstu að kommúnistar bæru ábyrgð á brunanum og það reyndist að vissu leyti rétt. Í þeim hluta þinghússins sem var óskemmdur fannst ungur maður í felum og reyndist vera hollenskur kommúnisti, Marinus van der Lubbe. Hann viðurkenndi að hafa kveikt í þinghúsinu og sagðist hafa ætlað að vekja þýska verkamenn til baráttu gegn fasismanum. Van der Lubbe, sem var hálfgerður minnipokamaður og hafði áður orðið ber að íkveikjum, sagðist hafa verið einn að verki en nasistar ráku nú upp mikið ramakvein og æptu af öllum kröftum að bruni þinghússins væri greinilega partur af samsæri kommúnista um valdarán.
Þegar um nóttina hófust fjöldahandtökur á kommúnistum.
Það var eitt af því sem Erdoğan lærði af Hitler – að bregðast skjótt við og byrja strax að handtaka raunverulega og/eða ímyndaða andstæðinga.
Í morgunsárið gekk Hitler á fund Hindenburgs forseta og sagði mikla ógn í aðsigi sem bregðast yrði við af fullri hörku. Nauðsynlegt væri að nema ýmis almenn borgararéttindi úr gildi meðan unnið væri að því að uppræta ógnina. Hindenburg, sem var náttúrlega keisarasinni að ætt og upplagi, gaf í rauninni lítið fyrir lýðræði og mannréttindi og samþykkti því beiðni Hitlers um að veita honum sem kanslara víðtækar heimildir til að afnema tjáningarfrelsi, prentfrelsi, fundafrelsi, rétt til heiðarlegrar málsmeðferðar handtekinna (habeas corpus) og svo framvegis. Og innanríkisráðuneytið varð nú lykilráðuneyti og völd þess brátt stóraukin.
Þessi neyðarlög áttu að gilda í fjóra mánuði. Neyðarlögin í Tyrklandi, sem sett voru eftir valdaránstilraunina dularfullu um daginn, eiga að gilda í þrjá mánuði, ef mig misminnir ekki.
Hver stóð fyrir íkveikjunni?
Nasistar voru svo snöggir af stað með áróðurs- og kúgunarvél sína gegn kommúnistum og öðrum andstæðingum sínum að rökstuddur grunur vaknaði fljótlega um að þeir hefðu sjálfir staðið fyrir þinghúsbrunanum – rétt eins og ýmsir gruna nú Erdoğan um að hafa staðið bak við hina mislukkuðu valdaránstilraun. Það eru raunar mikil fræði hvort Van der Lubbe stóð einn að íkveikjunni eða hverjir hvöttu hann þá áfram, kommúnistar eða nasistar, en í reynd skiptir það ekki máli: Nasistar notuðu sér brunann til að æsa upp ótta miðstéttarinnar enn frekar en áður og knésettu andstæðinga sína með fólskubrögðum.
Áróðurinn næstu daga var skefjalaus og hvaðeina var gert til að sannfæra kjósendur um að óvinir væru alls staðar, brennuvargar og morðhundar kommúnista biðu bak við næsta horn og engum væri treystandi til að sigrast á þeim nema Adolf Hitler.
Margt af slíkum áróðri endurómar nú ekki bara í Tyrklandi, heldur víðar í Evrópu þar sem fasistar og verðandi fasistar vara við sífelldri ógn. Og jafnvel í Bandaríkjunum er galað um mikla hættu fram undan, sem engum sé treystandi til að bregðast við nema Donald Trump.
Þegar þingkosningar fóru fram 5. mars juku nasistar fylgi sitt verulega en þó ekki eins hressilega og Hitler hafði vonað. Þeir fengu 44 prósent en jafnaðarmenn 18 prósent og kommúnistar rúm 12 prósent, þrátt fyrir þrotlausan áróður gegn þeim og þrátt fyrir að þingmenn þeirra hefðu verið fangelsaðir.
Þessi þingstyrkur dugði Hitler hins vegar til að tryggja sér alræðisvöld, enda gat hann reitt sig á þingmenn Þýska þjóðarflokksins, Miðflokksins (flokks Von Papens) og fleiri mið- og hægri flokka.
Þann 22. mars lögðu nasistar fram frumvarp til víðtækari neyðarlaga sem gerði ríkisstjórninni kleift að setja lög án aðkomu þingsins. Stjórnmálamenn eins og Von Papen og Von Schleicher voru settir til hliðar og höfðu enga stjórn á atburðum. Þeir höfðu fátt á móti einræðisstjórn til að berja niður kommúnista, en hefðu auðvitað viljað fá þau völd sjálfir, en nú var það Hitler sem skaut þeim ref fyrir rass en þeir lentu skrækjandi úti í horni.
Það kemur á óvart þegar maður les ræðuna sem Hitler hélt í þinginu til að mæla fyrir neyðarlögunum hve „kristilegt“ líkingamál hennar er. Hitler talaði eins og aðalmarkmið hans væri að vernda kirkju og kristindóm, kannski til að tryggja endanlega stuðning kristilegra þingmanna. Og vart þarf að orðlengja um að Erdoğan vitnar líka sífellt til guðs þegar hann réttlætir völd sín og hreinsanir.
Tveir þriðju hlutar þingmanna í þýska þinginu þurftu að samþykkja hin víðtæku neyðarlög Hitlers og með því að ryðja þingið af kommúnistum og fjölmörgum þingmönnum jafnaðarmanna, sem margir höfðu líka verið handteknir á grundvelli laganna sem Hindenburg hafði samþykkt morguninn eftir þinghúsbrunann, þá náði Hitler því marki sínu auðveldlega.
Aðeins einn talaði móti nasisum
Leiðtogi jafnaðarmanna, Otto Wels, var sá eini sem þorði að mæla gegn neyðarlögunum á þingfundi 23. mars. Illúðlegar stormsveitir stóðu þá yfir þingmönnum og yggldu sig framan í þá sem gerðu sig líklega til mótþróa. Wels spáði því réttilega að neyðarlögin yrðu notuð til að fótumtroða mannréttindi og frelsi. Hann ávarpaði Hitler og sagði:
„Þú getur tekið líf okkar og frelsi, en þú getur ekki svipt okkur heiðrinum. Við erum varnarlaus en ekki án heiðurs.“
En heiðurinn kom Wels að litlu haldi, enda hirtu Þjóðverjar þá fáir um heiður sinn. Ótti þeirra og þrá eftir öryggi eftir æsingar lýðskrumsmanna olli því að þeir létu yfir sig ganga að neyðarlögin væru samþykkt, og Adolf Hitler var á tveimur mánuðum orðinn einræðisherra Þýskalands.
Nú er að sjá hve langt Erdoğan kemst með því að selja Tyrkjum ótta og öryggi.
Athugasemdir