Í gærkvöldi vildi tíu ára sonur minn vaka fram eftir til að fylgjast með úrslitum bandarísku forsetakosninganna. Hann og aðrir krakkar í skólanum höfðu áhyggjur af því að Donald Trump yrði forseti, vegna þess hvernig hann hefur komið fram við aðra. Í skólanum er nefnilega lögð áhersla á að sýna öðrum virðingu.
Í morgun langaði mig ekki að vekja hann. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að útskýra fyrir honum að heimurinn virkaði svona. Að svona yrði maður forseti - að svona maður yrði forseti. Það er erfitt að útskýra hvernig ástunda eigi virðingu ef hámarks virðingarleysi fylgir mesti mögulegi framgangur í heiminum.
Hvatakerfi heimsins snýst við
Drifkrafturinn á bakvið gæði samfélags er fyrir hvað fólk er verðlaunað og fyrir hvað því er hegnt. Þetta félagslega taumhald og þessi virkni samfélagsins ákvarða æskilega hegðun og beina sameiginlegu valdi og orku okkar í þá átt að framfylgja henni. Þetta er hvatakerfi heimsins. Það byrjar í frumbernsku. Í öllum samfélögum þola börn neikvæðar afleiðingar af því að koma illa fram við aðra og læra þannig siðferði.
Í æskilegu samfélagi er verðlaunað fyrir að sýna öðrum tillitssemi, virðingu og hógværð, forðast óheiðarleika og mismunun fólks á grundvelli kyns, þjóðernis, litarháttar eða trúarbragða. Í góðu samfélagi verðlaunum við þá sem lyfta upp heildinni.
Í slæmu samfélagi öðlast fólk framgang með hegðun sem veldur heildinni tjóni, hvort sem tjónið birtist í nútíð eða framtíð. Í virkilega slæmum samfélögum, sem yfirleitt þrífast stutt, er fólki umbunað fyrir fólsku.
Siðferðið lekur niður
Eftir að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna hefur virkni samfélagsins riðlast. Nú er verðlaunað með æðstu valdastöðu heims fyrir að gera lítið úr fólki, fyrir að útiloka fólk á grundvelli þjóðernis og trú, fyrir að ljúga, fyrir að hóta pólitískum frambjóðendum fangelsun, fyrir að ráðast á fjölmiðla, fyrir að borga ekki skatta og lofa öllum skattalækkun og útgjaldaaukningu án ábyrgðar á kostnaðinum. Það var verðlaunað fyrir ábyrgðarleysi, ofbeldi
Nú stendur heimurinn frammi fyrir því að sýna þeim virðingu sem hefur markvisst vanvirt fólk, jaðarsett og útilokað hópa, til þess að öðlast sjálfur framgang. Tróð fólk niður til að reisa sig upp yfir aðra. Þar sem hann stendur efstur, steríótýpískur fulltrúi eina prósentsins, sama hóps eða „elítu“ og fólk vildi mótmæla.
Áhrifin eru ekki bundin við fordæmið og bjögun hvata. Nú getur sami maður beitt samsöfnuðum völdum á vegum ríkisins til að breyta samfélaginu og heimsmyndinni eftir eigin áherslum. Vanvirðing hans og ofbeldisfull orðræða mun leka niður valdapíramídann. Þeir sem öðlast framgang undir valdi hans eru þeir sem hæfa hans áherslum og umbera hans hegðun gagnvart öðrum. Það eitt og sér heldur niðri fólki sem ástundar siðferði sem er heilbrigt fyrir heildina, þeirra sem standa gegn því sem hann stendur fyrir.
Heimurinn breytist
Fyrstu ummælin undir frétt Stundarinnar af sigri Trumps gefa nasasjón af frelsun hinnar ofbeldisfullu orðræðu og fögnuði þeirra sem styðja uppreisn óheflaða, yfirgangssama þjóðernissinnans: „Ha,ha, Trump kom, sá og sigraði. Engin gerði ráð fyrir svona glæsilegum sigri. Þið á Stundinni getið ekki kyngt því. Þið eruð dómgreindarlausir vitleysingjar og handhafar sannleikans ... Það er gjörbreytt landslag í heimsmálum framundan ... Heilbrigð þjóðernisstefna verður í hávegum höfð.“
Hvernig gerðist þetta og hvað þarf að gera?
Valdamesti maður heimsins komst í þá stöðu með því að lofa stórfelldum skattalækkunum og lagfæringu samfélagsins án þess að útskýra hvernig greitt yrði fyrir það með peningum fólksins sem kaus hann. Hann vill fleiri byssur á göturnar, banna konum að velja fóstureyðingu, útilokun múslima, brottvísun fólks úr landi, minni baráttu gegn loftslagsbreytingum, fleiri kjarnorkuvopn og grundvalla ástand heimsins á meiri hernaðarstyrk.
Það versta er kannski að fordómafulli eineltisseggurinn þurfti ekki einu sinni að ræna völdum. Samfélagið valdi hann og krýndi hann, í heimi sem börnin okkar munu erfa. Verkefnið núna er að fyrirbyggja að börnin okkar dragi þann líklega lærdóm af heiminum eins og hann er að siðferði hafi ekki gildi, að best sé að svífast einskis og valta yfir aðra. Því þótt mannkynið sé með þessu að hafna ábyrgð á loftslagsbreytingum, ríkisfjármálum og almennu siðferði, þýðir það ekki að við komumst upp með það til lengdar.
Framundan er líklega einn áhrifamesti lærdómur mannkynsins og hann byrjar, eins og alltaf, á börnunum.
Athugasemdir